Trú fyrir jörðina – fjöltrúarlegar aðgerðir

2. október 2020

Trú fyrir jörðina – fjöltrúarlegar aðgerðir

Alheimsráðstefnan Faith for Nature – Multi-Faith Action/ Trú fyrir jörðina – Fjöltrúarlegar aðgerðir, hefst í Skálholti þann 5. október n.k. og stendur yfir til 8. október.

Ráðstefnan fer nánast að öllu leyti fram í netstreymi og fjarfundum til að draga úr umhverfisspori, bregðast við COVID-veirufaraldinum og gera breiðari hóp mögulegt að taka þátt. Hægt er að fylgjast með dagskrá ráðstefnunnar og alþjóðlegum útsendingum hér á vefnum.

Á fimmta hundrað einstaklingar frá 58 löndum hafa skráð sig til þátttöku í ráðstefnunni. Á meðal þeirra eru shamanar frá Kanada og Grænlandi; biskupar af Norðurlöndunum og frá Norður- Ameríku, Bosníu Hersegóvínu, Filipseyjum, Vatíkaninu, Kenía; leiðtogar pygmía frá Austur-Kongó og frumbyggja í Amazon-skóginum; imam frá Nígeríu og íslamskir fræðimenn frá Katar; kennari frá sjálfbærnisþorpi í Indlandi og prófessorar úr Evrópu og frá Bandaríkjunum.

Trúarsamfélög um heim allan eru mikilvægir gerendur í þeirri djúpstæðu umbreytingu sem verða þarf til þess að forða yfirvofandi loftslagsvá og mæta öðrum áskorunum í umhverfismálum. Andleg gildi móta lífshætti meira en 80% jarðarbúa. Meira en helmingur allra skóla í heiminum er rekinn af trúfélögum. Til samans framleiða trúfélög fleiri rit og bækur en nokkur annar aðili og teljast þriðji stærsti hópur fjárfesta í heiminum.

Ráðstefnan hefur það markmið að sameina ólíkar trúarstofnanir, lífskoðunarfélög og trúarbrögð um heim allan til aðgerða sem tryggt geta heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna framgang. Stofnun bandalags um trú í þágu jarðar innan vébanda Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (e. Faith for Earth Coalition) verður meðal umfjöllunarefna á ráðstefnunni.

Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna hefur lýst viðburðinum sem sögulegum, enda munu leiðtogar og fulltrúar helstu trúarbragða heims taka virkan þátt í honum.

Ráðstefnan verður sett 5. október af Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, við opnunarathöfn þar sem m.a. Inger Andersen, framkvæmdastjóri Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna, tekur til máls og Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, flytur blessunarorð. Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra flytur erindi á ráðstefnunni og Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrum forseti Íslands, stýrir pallborðsumræðum á lokadegi hennar. Prófessor Azza Karam, aðalritari samtakanna Religions for Peace, og Leilani Münter, ein besta kappaksturskona í heimi og aðgerðasinni, eru einnig umræðustjórar í alþjóðlegum útsendingum.

Meðal leiðtoga sem flytja ávörp á ráðstefnunni eru: Patríarkinn Bartholomew l, andlegur leiðtogi Rétttrúnaðarkirkjunnar (Grísk-Orþódox); Dr. Martin Junge, forseti Lúterska heimssambandsins; Mohamed Abdelsam fyrir hönd Stór-Imamsins af Al-Azhar, fulltrúi Súnní-Íslam; Stór-Ayatollah Muhammad-Taqi al-Husayni al-Modarresi, fulltrúi Shia-Íslam; Aðalrabbíni David Rosen, alþjóðaforseti samtakanna Religions for Peace; Bani Dungal, aðalfulltrúi alþjóðasamfélags Bahá‘í-trúarinnar og Meistari Shih Cheng Yen, búddisti og stofnandi mannúðarsamtakanna Tzu Chi á Taiwan.

Eftir setningu ráðstefnunnar í Skálholti fer áframhaldandi vinna fram í vinnustofum á vefnum með útstöðvar í Asíu, Afríku, Evrópu, Norður- og Suður-Ameríku.

Stefnt er að því að niðurstaða ráðstefnunnar verði kynnt í tengslum við frekari undirbúning að umhverfisþingi Sameinuðu þjóðanna, sem haldið verður í febrúar 2021, og væntanlega sett þar fram sem ályktunartillaga. New York Times, BBC, CBC, NatGeo, Mongabay og EcoNews munu einnig fjalla um niðurstöður ráðstefnunnar.

Fjölmiðlar eru boðnir velkomnir á opnunarhátíðina sem hefst mánudaginn 5. október í Skálholti kl. 12.30. Vinsamlegast látið vita með fyrirvara á info@faithfornature.org svo hægt sé að gæta að sóttvörnum.

Nánari upplýsingar: Páll Davíðsson, verkefnastjóri ráðstefnunnar, GSM: 842 0222 og Pétur Markan, samskiptastjóri biskupsstofu, GSM: 698 4842.

Um verkefnið
Verkefnið er samstarfsverkefni Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna, ríkisstjórnar Íslands, þjóðkirkjunnar, Landgræðslunnar og Félags Sameinuðu þjóðanna, auk samtakanna Religions for Peace og National Religious Partnership for The Environment í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Samstarfsvettvangur trúfélaga á Íslandi, Bahaí‘a trúfélagið á Íslandi, Skógræktin, Stofnun Sigurbjörns Einarssonar, Guðfræðistofnun HÍ, Guðfræðideild HÍ og ýmsir einstaklingar úr fræðasamfélagi og umhverfisstarfi hafa einnig komið að málum.

 



Myndir með frétt

Skálholt, miðstöð alþjóðlegs átaks trúarsamfélaga í umhverfismálum
  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Þing

  • Umhverfismál

  • Umhverfismál og kirkja

  • Viðburður

  • Alþjóðastarf

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls