Tæknin til liðs við kirkjuna
Það er óneitanlega sérstakt að ekkert opið helgihald fari fram í heilan mánuð í kirkjum landsins. En þar með er ekki sagt að kirkjan sé aðgerðalaus. Alls ekki. Útfarir fara fram sem áður og hámark fimmtíu manns mega sækja þær hverja og eina. Hjónavígslur og skírnir eru einnig hafðar um hönd sem áður. Þá er sálgæsla býsna drjúgur starfi hjá prestum. Fermingarfræðsla stendur enn yfir og barnastarf þeirra barna sem fædd eru 2005 og síðar er í fullum gangi.
En það eru guðsþjónusturnar. Þær eru þungamiðja í starfi safnaða.
Biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, bað presta og starfsfólk að huga að „boðun fagnaðarerindisins í gegnum streymi eða með öðrum hætti á vettvangi prófastsdæmanna og/eða í samstarfi við aðra“, eins og hún sagði í bréfi sínu sem sent var út fyrir skömmu.
Margir söfnuðir hafa reynslu af streymi frá því í mars síðastliðnum þegar fyrsta bylgja kórónufaraldursins reið yfir. Nú er það sú þriðja sem reynir á landann.
Kirkjan.is hafði samband við fjölmarga presta og spurði hvernig brugðist yrði við hinu sérstaka ástandi þegar guðsþjónustuhaldi væri settur stóllinn fyrir dyrnar með þessum hætti sem kunnugt er. Spurt var hvort streymt yrði helgihaldi/boðun fagnaðarerindisins á næstunni og þá hvers konar helgihaldi.
Prestar og starfsfólk er mjög áhugasamt og leggur sig í framkróka um að kynna sér tæknilegar hliðar málsins og leita sér ráðgjafar. Í því sambandi má benda á að efnisveita kirkjunnar er með myndbönd þar sem farið er yfir hvernig best sé að streyma.
Mikilvægt er að hver söfnuður auglýsi vel hvar hægt sé að fylgjast með helgihaldinu á netinu og reyni að koma því svo fyrir að sem flestir deili viðburðunum. Það eru ýmist Facebókar-síður kirknanna eða heimasíður þeirra sem eru notaðar. Vandaðar og vel uppfærðar heimasíður eru afar mikilvægar og nýtast sem málgögn kirknanna – þar á að vera að finna upplýsingar um allt safnaðarstarf og starfsfólk safnaðanna.
Hvað sögðu prestarnir?
Hér verða nokkur svör tilgreind.
Margir prestar eru komnir á fullan skrið í undirbúningi á upptökum af helgistundum eða eru að undirbúa streymi þeirra. Það þarf að stilla saman strengja og kalla ýmsa til ef mikið er lagt í stundina. Sé minna við haft nægir jafnvel bara síminn og einn prestur ætlar að nota hann.
Sem áður segir búa margir prestar af reynslu fyrri bylgju kórónuveirufaraldursins.
Sumir prestar kvarta undan því að þeir séu ekki mjög tæknilega sinnaðir. Það þarf ekki að vera hindrun því að alltaf leynast í hverri sveit og hverjum bæ vaskir tæknimenn sem eru fúsir að leggja verkefninu lið. Sumt ungt fólk er ótrúlega vel að sér í tæknimálum og getur aðstoðað með litlum fyrirvara.
Nokkrir prestar ætla ekki að grípa til neinna sérstakra aðgerða hvort heldur með streymi eða upptökum.
Allmargir prestar horfa til Bleika sunnudagsins, 18. október, og verða með fjölbreytilegt helgihald og munu streyma því eða taka upp.
Nokkur prestaköll hafa með sér samvinnu um streymi eins og Akureyrar-og Laugalandsprestakall og Glerárprestakall. Það er öflugur hópur sem vinnur saman að streymi helgihalds næstu þrjá sunnudaga að sögn klerkanna þar nyrðra. Æskulýðsfulltrúar kirknanna, þær Sonja Kro og Eydís Ösp Eyþórsdóttir, munu bjóða upp á stuttar sunnudagaskólastundir í streymi í þessum mánuði.
Organisti Breiðabólsstaðarkirkju, Guðjón Halldór Halldórsson, gaukaði þeirri hugmynd að nýja prestinum, sr. Sigríði Kristínu Helgadóttur, að mögulegt væri að nýta útvarpstíðni sem notuð er við útfarir, og nær vel yfir Hvolsvöll og út fyrir hann. Þau ætla að láta reyna á þetta.
Útvarpað verður guðsþjónustu frá Neskirkju á sunnudaginn kl. 11.00. Það verður sérstakt þar sem enginn kór syngur. En organistinn, Steingrímur Þórhallsson verður á sínum stað. Pamela De Sensi og Gissur Páll Gissurarson syngja en sr. Skúli S. Ólafsson predikar. Síðan mun Neskirkjufólk senda út í vikunni og er hægt að fylgjast með því á heimasíðu kirkjunnar og Facebókar-síðu hennar.
Nú, Grundfirðingar eru farnir af stað með glæsibrag og fjallaði kirkjan.is um það í gær. Þau verða með Bleika messu 18. október þar sem nokkrir einsöngvarar koma við sögu og ræða verður flutt. Það verður tekið upp og sent út og sömuleiðis helgistund sunnudaginn þar á eftir. Sr. Aðalsteinn Þorvaldsson, segir að þau sé með upptökuáætlun alveg fram í nóvember. Þá sé leitast við þjónusta þau sem ekki geta farið út á meðal fólks vegna aldurs eða sjúkleika.
Kirkjan.is fékk þær upplýsingar hjá sr. Pétri Ragnhildarsyni, sem er nú um þessar mundir yngstur presta landsins, að lögð yrði áhersla á það næstu vikurnar að ná til sóknarbarna með streymi og samfélagsmiðlum.
Í Fella- og Hólakirkju verður streymt frá bænastundum í hádegi alla virka daga á Facebókar-síðu kirkjunnar. Fólk geti sent inn fyrirbænaefni sem eru tekin fyrir.
„Á sunnudögum munum svo við prestarnir skiptast á að deila myndbandshugvekjum á Facebook og Instagram-síðu kirkjunnar,“ segir sr. Pétur. „Auk þess ætlar organistinn að taka upp ýmis tónlistaratriði sem verður deilt líka.“
Sr. Pétur segir að þau í Guðríðarkirkju hafi deilt myndbandi með kveðju og örhugvekju frá sóknarpresti á sama degi og þau áttu von á fjölda af eldri borgurum í opið hús. „Við stefnum á að deila tónlistaratriðum frá organista og kórstjóra barnakórsins nokkrum sinnum á þessu tímabili og einhverjum helgistundum og hugvekjum frá prestunum,“ segir sr. Pétur. „Auk þess stofnaði ég Instagram-síðu sérstaklega fyrir fermingarbörn og foreldra þeirra í samkomubanninu í vor sem við notum mikið til að ná beint til fermingarárgangsins með góðum árangri.“
„Við erum að undirbúa streymi á stuttum helgistundum með söng og boðun sem munu verða sendar á sunnudögum frá Facebókar-síðu Keflavíkurkirkju,“ sagði sr. Erla Guðmundsdóttir þegar kirkjan.is innti hana um fyrirætlanir þeirra Keflvíkinga. Þau hyggjast streyma fermingarfræðslu á lokaðri síðu fyrir þau börn sem ekki treysta sér að koma í fræðslutíma. Segir hún að einhver fermingarbörn hafi ekki sótt fræðsluna vegna þess að foreldrar séu að draga úr ferðum þeirra á ýmsa staði.
Í hinu nýja Fossvogsprestakalli má fylgjast með helgistundum á sunnudögum og barnamessum á laugardögum á heimasíðum og Facebókar-síðum Grensáskirkju og Bústaðakirkju. Eins verða birtar hugleiðingar frá prestum og djáknum prestakallsins. Þá má fylgjast með streymi á kyrrðarstund á þriðjudögum kl. 12.00 og núvitundarstund á fimmtudögum kl. 18.15. Æskulýðsfundir eru rafrænir, komnir á „zoom.“ Um helgina eru söfnuðirnir í prestakallinu með ratleik fyrir fjölskyldur í hverfinu og er leikurinn unninn í samstarfi við skátana, en félagið þeirra heitir Garðbúar.
Sr. Þráinn Haraldsson á Akranesi sagði að þau myndu birta hugvekjur sem prestur flytur og tónlist yrði leikin. „Við erum með stuttar bænastundir á netinu alla miðvikudaga“, segir sr. Þráinn og þær megi sjá á heimasíðu Akraneskirkju og Facebókar-síðu kirkjunnar. Þá sé Akraneskirkja opin alla virka daga milli 12.00 og 13.00 fyrir þau sem þangað vilja koma og biðjast fyrir.
Hofsósprestur, sr. Halla Rut Stefánsdóttir, sagðist ætla að verða með stuttar helgistundir og þeim yrði streymt á Facebókar-síðunni Kirkjan í Skagafirði. Tími er ekki enn ákveðinn að hennar sögn.
Þau í Lindakirkju verða með helgistund á sunnudagskvöldið og kl. 20.00 fer hún „í loftið“ eins og sr. Guðmundur Karl Brynjarsson orðaði það.
Sr. Haraldur M. Kristjánsson, í Vík í Mýrdal, er og með streymi í undirbúningi, og einnig sr. Þorgrímur Daníelsson, á Grenjaðarstað, svo kirkjan.is sveifli sér nú milli landshluta – og stifta!
Sr. Sigurður Ægisson, Siglufirði, segir að í október verði „miklu streymt“.
Rafrænt helgihald verður einnig í Grafarvogskirkju og þar er margt í bígerð að sögn sr. Guðrúnar Karls Helgudóttur.
Og þau í Dómkirkjunni verða með helgihald sem tekið er upp og sýnt.
Háteigskirkja undirbýr einfaldar helgistundir með organleik og stuttri hugvekju og bæn, að sögn sr. Eiríks Jóhannssonar.
Seljakirkja í Breiðholti hefur fest kaup á öflugum streymisbúnaði sem þau vonast til að verði settur upp í næstu viku. Hann er á leiðinni til landsins að sögn sr. Ólafs Jóhanns Borgþórssonar. Spennandi verður að fylgjast með þeim í Seljakirkju þegar búnaðurinn verður ræstur. Góður búnaður skiptir miklu máli.
Guðsþjónustum verður streymt frá Árbæjarkirkju að sögn sr. Þórs Haukssonar og þau í Lauganesi munu taka upp nokkrar helgistundir og setja á heimasíðu sína.
Nýr Stafholtsprestur, sr. Anna Eiríksdóttir, stefnir að því að flytja hugvekjur í streymi, og er hún að undirbúa það.
Helgistund verður tekin upp í Patreksfjarðarkirkju og líklega í öðrum kirkjum prestakallsins að sögn sr. Kristjáns Arasonar, en kirkjurnar eru tíu að tölu.
„Já, nú er ég að fara af stað með svipað streymi og ég hélt úti í mars, apríl og maí,“ segir sr. Úrsúla Árnadóttir sem þjónar á Blönduósi. Um er að ræða stutta bænastund og ritningalestur í hádeginu á laugar-,sunnu-, mánu- og þriðjudögum. Hún lætur tæknimálin ekki trufla sig og segist vera að skoða hvort hægt sé að nota tvær Facebókar-síður til birtingar samtímis. „Ég ætla nefnilega að reyna að hafa útsendinguna bæði á Blönduóskirkjusíðunni og Þingeyraklaustursprestakallssíðunni,“ segir sr. Úrsúla og bætir við: „Ég á eftir að skoða tæknimálin aðeins betur.“
Vídalínskirkja hefur haldið úti kröftugu streymi og fjölbreytilegu. Þau streyma fullorðinsfræðslu í hádeginu á miðvikudögum og þar ber margt á góma. Síðast var fjallað um fyrirgefninguna. „Við munum senda stutt myndbönd með barnaefni og helgistundum í þessari og næstu viku,“ segir sr. Jóna Hrönn Bolladóttir. Síðasta sunnudag streymdu þau helgistund, kærleikskveðju, og hefur sú stund náð til rúmlega þrjátíuþúsund manna að sögn sr. Jónu Hrannar. Í dag var kærleikskveðjan þeirra komin á heimasíðu þeirra kl. 8.00 og sr. Jóna Hrönn flutti hugleiðingu og tónlistarmaðurinn KK lék á gítar og söng.
Sr. María Gunnarsdóttir, leysir af á Hvammstanga í vetur. Hún verður með stuttar bænastundir og þær verða teknar upp og settar inn á Facebókar-síðu kirkjunnar. Með henni er organistinn, Pálína Fanney Skúladóttir.
Þau í Áskirkju eru með allt í góðum skorðum. Sr. Sigurður Jónsson sagði kirkjuna vera með Hlaðvarps-helgistund á heimasíðu Áskirkju, askirkja.is, sem þau kalla Hina mætu morgunstund. Henni er varpað tvisvar í viku, á sunnudögum og fimmtudögum kl. 9.30. Þar leikur organistinn þeirra, Bjartur Logi Guðnason, orgeltónlist, en sr. Sigurður og Jóhanna María Eyjólfsdóttir, djákni, sjá um hugvekju og bænaflutning. Auk þess er sr. Sigurður með helgistundir í beinni útsendingu á Facebókar-síðu hjúkrunarheimilisins Skjóls á fimmtudögum. Þessar stundir birtast á sjónvarpsskjá í setustofu hverrar deildar heimilisins.
Laufásklerkur, sr. Gunnar Einar Steingrímsson, hyggst streyma annað hvort stuttum hugleiðingum eða einhverju öðru.
Sr. Ninna Sif Svavarsdóttir, Hveragerði, segir að þau muni streyma helgihaldi eða taka upp og senda út. Hún segir að streymið hafi fengið góðar viðtökur síðast og fólk verið þakklátt. Nefndi sérstaklega fólk sem hafi aldrei sagst fara til kirkju en hlustaði alltaf og horfði á streymið.
Og Þórshafnarprestur, sr. Jarþrúður Árnadóttir, mun streyma í október helgistundum. Það sama segir sr. Ragnheiður Jónsdóttir á Mosfelli og mun verða streymt í prestakallinu á sunnudögum.
Hallgrímskirkjuklerkar í Reykjavík verða með myndskeið og hljóðskrár, skrifaðar hugleiðingar, pistla og prédikarnir.
Þeir í Ástjarnarprestakalli munu streyma og ræða útfærsluna á því.
Ljósleiðari er nýkominn til Ólafsfjarðar og nýi presturinn þar, sr. Guðrún Eggerts Þórudóttir, horfir til þess að vera með streymishelgistund í lok mánaðarins.
Austfirðingar stefna að því að streyma og er það allt í vinnslu hjá þeim sr. Ólöfu Margréti Snorradóttur í Egilsstaðaprestakalli, og Austfjarðarprestakallsfólki, sr. Jónu Kristínu Þorvaldsdóttur, sr. Benjamín Hrafni Böðvarssyni og sr. Alfreð Erni Finnssyni, Djúpavogi.
Sr. Dagur Fannar Magnússon, í Heydölum, er í barneignafríi. Því lýkur í lok mánaðarins og mun hann streyma í nóvember og desember morguntíðum, bænalestri og íhugunum kl. 9. 00 virka morgna hvernig sem allt verður.
Sr. Ingimar Helgason, Kirkjubæjarklaustri er einnig með málið í vinnslu og segir að enda þótt kirkjan þar eigi ekki neinn búnað hyggist hann búa til stutt myndband „með símanum mínum og setja á Facebókar-síðu prestakallsins ef hljóð og mynd verða í lagi.“
Helgistundum verður streymt frá Þorlákskirkju í Þorlákshöfn að sögn sr. Sigríðar Mundu Jónsdóttur, og er það gert í samvinnu innan samstarfsvæðis prestakallanna.
Af þessu stutta yfirliti sést að prestar láta engan bilbug á sér finna og eru mjög lausnamiðaðir eins og það heitir í nútímanum. Skjót viðbrögð þeirra eru til fyrirmyndar sem og hugkvæmni. Þjóðkirkjan getur verið stolt af mannauði sínum.
II. Grunneining kirkjunnar, en þar sem segir svo um þjónustuna:
„Sérhvert sóknarbarn á að eiga kost á guðsþjónustu hvern helgan dag.
Sóknin skal leitast við að hafa reglubundið helgihald og fjölbreytt guðsþjónustulíf til að ná til fólks á ýmsum aldursskeiðum, og nýta þau tækifæri sem athafnir á krossgötum ævinnar veita til boðunar og sálgæslu.
Þar sem ekki er unnt að halda uppi reglubundnu helgihaldi, svo sem vegna fámennis, geta sóknir í sama prestakalli, eða á sama þjónustusvæði, sameinast um helgihald og aðra meginþætti safnaðarstarfs.“
hsh