Frumvarp á Alþingi
Lagt hefur verið fram frumvarp á Alþingi um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008 (kristinfræðikennsla). Í stuttu máli snýst efni þess um að skjóta á undan orðinu trúarbragðafræði í 2. mgr. 25. gr. laganna orðinu kristinfræði.
Með frumvarpinu fylgir ítarleg greinargerð. Þar er farið í stuttu máli yfir sögu kristinfræðikennslu á Íslandi, kristinfræði í aðalnámskrá grunnskóla 1976-2007 athuguð, og fjallað síðan um núgildandi námskrá. Þar kemur og fram það sjónarhorn flutningsmanna að með tillögu þeirra sé trúfrelsi ekki ógnað og að kennslan í grunnskólunum eigi að vera fræðileg en ekki boðandi.
Eðlilegt er og æskilegt að kristinfræði sé kynnt æsku þjóðarinnar í meira mæli en gert er. Æska landsins á rétt á að fá að kynnast trúarbrögðunum sem mótuðu það samfélag sem við búum í. Saga landsins og kristni er að mörgu leyti samofin, þess vegna á kristinfræðin að njóta sérstöðu innan veggja grunnskólanna. Eðlilegt er að hún sé því í forgrunni í kennslu trúarbragða og vegna tengsla trúarinnar við sögu Íslands og menningu. Tengslin eru menningarleg, söguleg og félagsleg. Okkur ber að kynna áhrifin sem kristnin hefur haft á samfélag okkar. Eðlilegt er því að fræða sérstaklega um ríkjandi trú landsins. Það gerir nemendur læsa á íslenska og vestræna menningu og menningararf.
Flutningsmenn vilja semsé gera kristinfræði/kristinni kenningu, hærra undir höfði í grunnskólanum í ljósi þess að íslensk menning og saga sé mótuð af kristinni trú sem og íslenskur hugsunarháttur. Ekki sé verið að vega að þeim sem aðhyllist önnur trúarbrögð heldur sé eingöngu verið að árétta að íslenskur menningararfur á meðal annars djúpar rætur í kristni.
Nú er námsgreinin kristinfræði flokkuð í grunnskólum með öðrum trúarbragðagreinum innan samfélagsgreina. Samfélagsgreinarnar fá tæplega tólf prósent af námstíma grunnskólabarnanna. Ekki er vitað hve stóran bita kristinfræði fær af þeim tíma.
Kirkjan.is sneri sér til dr. Gunnars J. Gunnarssonar, prófessors í trúarbragðafræði og trúarbragðakennslu á menntavísindasviði Háskóla Íslands, sem þekkir manna best til þessara mála.
„Það er ljóst að flutningsmenn frumvarpsins vilja auka veg kristinfræðikennslu í grunnskólum með þessari breytingu, þ.e. með því að breyta nafni greinarinnar í lögum um grunnskóla úr trúarbragðafræði í kristinfræði og trúarbragðafræði“, sagði dr. Gunnar. Hann nefndi að svipaðar breytingar eins og lagðar eru til í frumvarpinu hafi verið gerðar í Noregi árið 2015 þegar nafninu á faginu var breytt úr Religion, livssyn og etikk í Kristendom, religion, livssyn og etikk.
Dr. Gunnar segist efast um að nafnbreytingin á greininni muni breyta miklu en hann taki undir það sjónarmið að efla þurfi trúarbragðafræðslu almennt í skólum landsins og þar með kristinfræðikennsluna í samræmi við það sem Aðalnámskráin gerir ráð fyrir.
„Vandinn er sá að við vitum of lítið um hvernig fræðslunni er í raun og veru háttað í grunnskólunum,“ segir dr. Gunnar. „Sums staðar er kristinfræðinni vel sinnt, sem hluta af trúarbragðafræðinni, en annars staðar lítið og í öðrum tilvikum er kristinfræðikennslan mest tengd hátíðum kristninnar, þ.e. jólum og páskum.“ Hann segir að hér vanti rannsóknir á því hvað skólar og einstakir kennarar leggi áherslu á í samfélagsgreinum og þá sérstaklega trúarbragðafræðum. „Einhverjar vísbendingar má fá með því að skoða skólanámskrár skólanna en það segir þó ekki alla söguna,“ segir hann.
„Svo er einnig umhugsunarvert að hér á landi er svo til engin trúarbragðafræðsla í framhaldsskólum öfugt við nágrannalöndin,“ segir dr. Gunnar.
Trúarbragðafræðin er hluti af samfélagsgreinum í núverandi Aðalnámskrá frá 2013 og þar er hlutverki hennar lýst svo á bls.196: Trúarbragðafræði er ætlað að auka skilning á ríkjandi trúarbrögðum og ólíkum trúarhefðum með umburðarlyndi og víðsýni að leiðarljósi.
Dr. Gunnar skrifaði árið 2014 grein í Ritröð Guðfræðistofnunar um breytingarnar á Aðalnámskránni: Áskoranir fyrir skóla og kirkju.
Flutningsmaður frumvarpsins er Birgir Þórarinsson en meðflutningsmenn hans eru þau Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Gunnar Bragi Sveinsson, Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Páll Jónsson, Þorsteinn Sæmundsson, Ásmundur Friðriksson, og Brynjar Níelsson.
hsh
Úr 2. gr. laga um grunnskóla (nr. 91/2008)
Úr Aðalnámskrá, bls. 52. - Orðið kristinfræði kemur ekki fyrir í aðalnámskránni (orðið: kristni kemur fyrir þrisvar).
Með vaxandi margbreytileika samfélagsins og aukinni alþjóðavæðingu mun áherslan í trúarbragðafræðslu skólans á önnur trúarbrögð og lífsviðhorf halda áfram að aukast á kostnað umfjöllunar um kristni. Breytt staða kristinfræðinnar í grunnskólanum er því bein áskorun til kirkjunnar. Trúfræðsla kirkjunnar og trúaruppeldið á vettvangi hennar skiptir hér miklu máli ásamt því að efla foreldra og heimili til markvissrar trúrækni og trúaruppeldis. Í grunnskólum framtíðarinnar hér á landi verða börn og unglingar með margvíslegan trúarlegan bakgrunn. Í trúarbragðafræðslunni munu þau skiptast á skoðunum við jafnaldra sína í námi og samræðum um helstu trúarbrögð heims og önnur lífsviðhorf. Mikilvægt er að börn og unglingar komi inn í það samhengi og samtal með góðan trúarlegan grundvöll, bæði þekkingu og reynslu, úr kirkjunni sinni og fjölskyldunni.
Áherslan á kristna trú umfram önnur trúarbrögð helgast af menningu okkar og tengslum við sögu kristinnar trúar. Eðlilegt hlýtur að teljast að fjallað sé ítarlegast um þau trúarbrögð sem ríkjandi eru í samfélaginu og þekking á kristni og Biblíunni er forsenda skilnings á vestrænni menningu og samfélagi. Þekking á eigin trú er forsenda til skilnings á trú annarra og leið til umburðarlyndis. Skólanum er ætlað að miðla grundvallargildum þjóðfélagsins, sem hér á landi eru byggð á kristnum rótum. Fræðsla í kristnum fræðum, siðfræði og trúarbragðafræði miðlar nemendum þekkingu á eigin rótum. Kirkjan veitir mikilvæga þjónustu á ýmsum sviðum og er fólki mikilvæg. Reynslan sýnir að aðstæður geta einnig skapast þar sem fólk leitar mjög til kirkjunnar. Má þar nefna náttúruhamfarir og slys. Um síðustu áramót voru um 232 þúsund manns í þjóðkirkjunni eða um það bil 65% þjóðarinnar. Fleiri kristnir söfnuðir eru í landinu og á síðustu árum hefur fjölgað töluvert í söfnuði kaþólskra.