Rafbók: Trú fyrir jörðina
Sameinuðu þjóðirnar hafa gefið út rafbók í beinu framhaldi af hinni viðamiklu ráðstefnu Trú fyrir jörðina – Fjöltrúarlegar aðgerðir (Faith for nature; Multi - faith action) sem haldin var í Skálholti í fyrstu viku þessa mánaðar.
Ráðstefnan markaði tímamót í umhverfismálum og var haldin með rafrænum hætti.
Þetta er þriðja útgáfa af þessari bók, aukin og endurbætt.
Bókin Trú fyrir jörðina – hefjumst handa (Faith for Earth – A Call for Action) lýsir þeirri ábyrgð sem öll trúarbrögð hafa gagnvart sköpuninni og náttúrunni. Jafnframt er rætt um lífríki jarðar og verndun þess. Bókin er gefin út með það í huga að hún veki fólk til umhugsunar um verkefnið og kalli það til verka. Aldrei sem nú er nauðsyn á því að umvefja jörðina með visku og umhyggju.
Vakin er athygli á því að á síðustu sex áratugum hafi meira en 40% vopnaátaka snúist um forræði á auðlindum náttúrunnar eins og landi, olíu og vatni. Loftslagsbreytingar munu gera ástandið verra með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir lífríkið sem manneskjan er háð í einu og öllu. Þessar breytingar munu ráða úrslitum um hvar fólk getur búið, stundað landbúnað, reist borgir, iðkað trú sína, alið upp börn í friði og heilsusamlegu umhverfi.
Loftslagsváin er efst á blaði þegar kemur að mótvægisaðgerðum og það hefur aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Antonio Guterres, verið óþreytandi að ræða. Hann sagði til dæmis í apríl á þessu ári: „Sá vandi sem jarðarbúar horfast nú í augu við vegna kórónuveirufaraldursins er mesta áskorunin sem við höfum staðið frammi fyrir allt frá stofnun Sameinuðu þjóðanna árið 1945.“ Jafnframt sé það óhrekjanleg staðreynd að loftslagsbreytingar haldi áfram að vera ein mesta umhverfisógn sem blasað hafi við mannkyni frá upphafi vega.
Í kynningu á rafbókinni kemur fram að mannkynið hafi knappan tíma til að leysa vandann. Lausnin sé fólgin í pólitískum vilja, nýsköpun, aðlögun og umburðarlyndi, skoðun gilda og siðfræði, fjármögnun og þátttöku. Allar verkfúsar hendur séu vel þegnar og á það hvort heldur við um einstaklinga, opinbera aðila og einkafyrirtæki, og hvers kyns samtök sem byggja á trúarlegum grunni. Þau geti stillt saman strengi í baráttunni gegn loftslagsbreytingum, bætt það sem aflaga hefur farið og slegið tafarlaust skjaldborg um hag jarðar. Ljóst er að vísindalegur skilningur, tæknileg geta sem og fjárhagsleg, er fyrir hendi til að hefjast handa. Mikilvægt er að vanmeta ekki hæfileikana og getuna – og þá er vitaskuld brýnt að leysa verkin af hendi með bjartsýni að leiðarljósi.
Málið snýst ekki um að ókunnugt sé hvað gera skuli heldur hve skjótt hægt sé að vinna verkið. Vandinn er mikill sem staðið er frammi fyrir og svo viðamikil og flókin áskorun krefst hugarfarsbreytingar, innlifunar og gríðarlegra framkvæmda.
Í kynningunni er lögð áhersla á þátttöku trúfélaga, samtaka sem byggja á trúarlegum grunni, og trúaðs fólks. Trúfélög hafi á að skipa víðfeðmu og traustu skipulagi þar sem hægt er að ná til milljóna manna með boðskap þar sem siðfræði og mannúð skipa öndvegi.
Gott er að rifja upp að Græna stúdíóið í umsjón Einars Karls Haraldssonar fjallaði um umhverfismál í tengslum við ráðstefnuna í Skálholti.
Hér má hlusta á þættina:
Fyrsti þáttur Viðmælendur Einars Karls Haraldssonar eru þau sr. Axel Árnason Njarðvík, sr. Hallór Reynisson og sr. Hildur Björk Hörpudóttir.
Annar þáttur Viðmælendur Einars Karls Haraldssonar eru þau sr. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, og dr. Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands.
Þriðji þáttur Viðmælendur Einars Karls Haraldssonar eru þeir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Páll Ásgeir Davíðsson, verkefnisstjóri Skálholts 2.
Kirkjan.is flutti fréttir af ráðstefnunni í Skálholti
Frétt nr. 7 - Yfirlýsing ráðstefnunnar
hsh