Þau sinna heilbrigðismálum

17. október 2020

Þau sinna heilbrigðismálum

Grafarvogskirkja - útvarpsguðsþjónustan á morgun er þaðan

Á morgun er dagur heilbrigðisþjónustunnar. Sá dagur er tengdur 18. október með þeim hætti að þá er Lúkasarmessa og hún er kennd við guðspjallamanninn Lúkas sem jafnframt var læknir.

Dagur heilbrigðisþjónustunnar kallar öll þau fram á vettvang sem sinna heilbrigðismálum og það er býsna stór hópur. Kröftugur hópur sem allir standa í þakkarskuld við.

Í tilefni dags heilbrigðisþjónustunnar hefur sr. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, skrifað prestum og djáknum bréf, og þar segir meðal annars:

Markmið þessa sunnudags er að lyfta upp heilbrigðisþjónustunni til að styðja, styrkja og vekja athygli á því umfangsmikla starfi sem unnið er á vettvangi hennar. Á þessum degi biðjum við sérstaklega fyrir þeim sem þurfa að leita til heilbrigðisþjónustunnar, biðjum fyrir heilbrigðisstarfsfólki hvar sem það er að störfum í þágu þeirra sem á þurfa að halda, biðjum fyrir leiðtogum innan heilbrigðisþjónustunnar sem vinna að stefnumótun og þeim sem grundvallandi ákvarðanir taka. Nú eru sérstakir tímar eins og margoft hefur komið fram og mikið reynt á þau sem starfa í heilbrigðisþjónustu á landinu sem og í heiminum öllum vegna Covid 19.

Þá vekur biskup athygli á því að á heimasíðu kirkjunnar, kirkjan.is, er komin sérstök bænasíða og þar má lesa bænir og skrifa bænir. Þá skrifar sjúkrahúspresturinn, sr. Ingólfur Hartvigsson, stutta hugleiðingu sem finna má á heimasíðu kirkjunnar undir hugleiðingar.

Eins minnir biskup á Kristilegt félag heilbrigðisstétta (KFH) sem er félag fólks sem starfar innan heilbrigðisþjónustu. Á heimasíðu félagsins  má finna margar gagnlegar upplýsingar.

Að lokum segir sr. Agnes í bréfi sínu:

Heilbrigðisstarfsfólk ber mikla ábyrgð, er undir álagi í sínu starfi og stendur oft frammi fyrir flóknum úrlausnarefnum sem krefjast sérhæfðrar þekkingar. Á degi heilbrigðisþjónustunnar kemur kristin kirkja fram í fyrirbæn og vill með því hvetja og styðja við heilbrigðisþjónustuna í landinu. Nálgun Jesú er það sem við horfum til – þar sem hann í allri sinni framgöngu mætti manneskjunni og hennar þörfum í heild sinni. Sú umhyggja sem hann sýndi er hvatinn að þeirri umhyggju sem okkur ber að sýna og á að einkenna allt samfélag okkar sem og heilbrigðisþjónustu.

Hin kunnu orð Matteusarguðspjalls 25.35 eru í raun yfirskrift allra daga heilbrigðisstarfsfólks:

Því hungraður var ég, og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég, og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég, og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín…
Bæn á degi heilbrigðisþjónustunnar 18. október 2020
Drottinn Guð.
Við þökkum þér fyrir loforð þín um að þú heyrir bænir okkar.
Í dag biðjum við sérstaklega fyrir heilbrigðisþjónustunni á Íslandi. Á tímum heimsfaraldurs hefur reynt mikið á starfsfólkið. Við þökkum þér fyrir þau öll og þjónustu þeirra við veika einstaklinga og fjölskyldur þeirra.
Ver nálægur hverjum og einum sem starfar innan heilbrigðisþjónustunnar og annast aðra. Gef þeim að taka á móti styrk og kærleika frá þér og miðla til sjúklinga, samstarfsfólks og annarra sem verða á vegi þeirra.
Styddu þau til að finna leiðir til að mynda sambönd við aðra á vinnustaðnum til að biðja saman og hvetja hvert annað. Gef einnig að kirkjur þeirra veiti þeim hjálp og stuðning.
Við biðjum fyrir þeim sem eru í námi og stefna að því að vinna að lækningum, hjúkrun eða umönnun. Gef þeim góða menntun sem undirbýr þau vel til að axla þá ábyrgð sem störf í heilbrigðisþjónustunni fela í sér. Styddu þau einnig í að fá vinnu að námi loknu.
Góði Guð. Þakka þér fyrir öll þau sem sinna heilsu barna okkar og fyrir þau sem vinna með börnum á leikskólum og í grunnskóla. Gefðu þeim að miðla kærleika þínum og trúfesti.
Guð, við biðjum þig að jákvæð og heilstæð sýn fái ráðið för í heilsugæslu og umönnun.
Drottinn, við biðjum fyrir öllum sem sinna líkamlegum, sálrænum, félagslegum og andlegum þörfum þeirra sem eru alvarlega veik og deyjandi og aðstandendum þeirra.
Drottinn, við biðjum þig að vera sérstaklega nálægur þeim sem þjást í dag vegna heimsfaraldursins og þeim sem búa við andlegt eða líkamlegt heilsuleysi. Vertu þeim nálægur og gef að þau finni þann styrk sem þú gefur og veitir líka með því að senda þeim hjálpara í fagfólki. Drottinn, við biðjum að litið sé á eldra fólk með virðingu og að það fái að halda reisn sinni og fái þá umönnun sem það þarf.
Hugga þau sem syrgja og þau sem búa og lifa við erfiðar aðstæður.
Gef þeim og okkur öllum þá hjálp sem við þörfnumst.
Í Jesú nafni. Amen. 

hsh

  • Covid-19

  • Frétt

  • Kærleiksþjónusta

  • Prestar og djáknar

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Biskup

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls