Stutta viðtalið: Menn bjarga sér

22. október 2020

Stutta viðtalið: Menn bjarga sér

Dalvíkurkirkja - kirkjan var vígð 1960

Prestar hafa margir hverjir verið duglegir við að streyma helgistundum og eru orðnir býsna seigir við það og sumir hverjir njóta stuðnings tæknimanna.

Einyrkinn bjargar sér alltaf.

Sr. Magnús Gunnarsson, sóknarprestur í Dvalvíkurprestakalli, tók upp myndband í gær og sendi út á Facebókar-síðu sinni - og einnig á Facebókar-síðu kirkunnar. Hann var þar einn að störfum, með netta vefmyndavél sem ekki var dýr. Þetta var í fyrsta sinn sem hann reyndi fyrir sér í þessu. Sjálfur lék hann á orgelið í upphafi stundarinnar og gekk síðan að ljósastandi fyrir framan altarið og tendraði ljós þrenningarinnar. Þá las hann sálminn Dag í senn. Fór síðan fyrir altari Dalvíkurkirkju og flutti bæn sem og fyrirbænir fyrir sjúku fólki. Að henni lokinni aftur að orgelinu og lék annað sálmalag.

Sr. Magnús hefur lært á orgel og varði námsleyfi sínu nýlega í viðbótarnám í orgelleik. Hann var meðal annars við nám á sínum tíma í Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og var um skeið organisti á Elli- og dvalarheimilinu Grund í Reykjavík. Sr. Magnús hefur verið prestur frá árinu 1989 en hann var vígður til Ísafjarðarsafnaðar.

Kirkjan.is ræddi við sr. Magnús en hann varð fyrri til og spurði hvernig til hefði tekist með stundina.

„Þetta var fínt,“ svaraði kirkjan.is, „og fallegt var orgelspilið.“ Hljómburðurinn var góður fyrir tónlistina enda Dalvíkurkirkja rómuð fyrir góðan hljómburð. „En það var dálítið bergmál þegar hið talaða orð var flutt en ekki áberandi ef hljóðið var still lágt.“ Það er nefnilega oft vandi með mælt mál í kirkjum og ýmsar leiðir farnar til að það berist betur.

„Ég reyni þetta núna,“ sagði sr. Magnús, „eitthvað verður auðvitað að gera.“ Hann sagði að helgistundum hefði verið áður fleytt í gegnum kapal á dvalarheimilið. Nú væri það ekki fyrir hendi og þyrfti að koma þessu með rafrænum hætti þangað og víðar. Sr. Magnúsi er umhugað um að koma stundinni til gamla fólksins en á tíma kórónufaraldurs eru allar heimsóknir á dvalar- og hjúkrunarheimili óheimilar.

Þetta var einföld og falleg helgistund. Einlæg og trúarsterk. Góð stund fyrir alla.

Kirkjan.is spurði sr. Magnús út í lágmyndina sem er yfir altari Dalvíkurkirkju. Það er gifsmynd eftir Bertel Thorvaldsen. „Það var sjómaður sem keypti hana í Kaupmannahöfn,“ svarar sr. Magnús, „hann var beðinn um að kaupa altaristöflu og kom með þessa lágmynd.“ Sams konar lágmynd, en minni, er til í Akraneskirkju. Altaristaflan byggir á frásögn Lúkasarguðspjalls 24. 13-35 um það þegar tveir lærisveina Jesú Krists mæta honum upprisunum og snæða með honum um kvöldið í Emmaus.

Sr. Magnús er sóknarprestur í Dalvíkurprestakalli. Þar eru ellefu kirkjur. Miðgarðakirkja í Grímsey er undir Dalvíkurprestakalli – annar prestur er og starfandi í prestakallinu, sr. Oddur Bjarni Þorkelsson. Sr. Magnús segir að þeir hafi farið síðustu árin saman út í Grímsey og messað, og hann iðulega verið þá við orgelið.

Gaman verður að fylgjast áfram með streymishaldi sr. Magnúsar á Dalvík á kórónuveirutíð. Kirkjan.is segir bara: Áfram!

Helgistund í Dalvíkurkirkju

hsh
  • Frétt

  • Menning

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Tónlist

  • Trúin

  • Covid-19

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls