Fólkið í kirkjunni: Binni
Það var fagur og bjartur dagur í Borgarfirði þegar kirkjan.is ók þar um og renndi síðan upp að Stafholti. Áður hafði verið slegið á þráðinn til viðmælandans og hann svarað þýðri og hógværi röddu: „Binni.“ Það var meira en sjálfsagt að sýna kirkjuna og ræða málin.
Þegar komið var að kirkjunni voru þar smiðir að störfum. Norðan megin við kirkjuna hafði verið samþykkt að koma fyrir rampi svo fólk sem ætti erfitt með ferilvist kæmist auðveldlega að.
„Það var búið að ræða þetta lengi og alls konar tillögur komu fram,“ segir Brynjólfur, „en þessi leið er sú besta og truflar ásýnd hússins minnst.“ Hann sagði að Minjavernd væri sátt við þetta og þau hafi verið þeim mjög svo hjálpleg í einu og öllu sem snerti kirkjuna. Hún er enda friðað hús.
Brynjólfur Guðmundsson er sóknarnefndarmaður í Stafholtssókn og hefur verið það síðan 2008. Þá hætti nafni hans, sr. Brynjólfur Gíslason, og auk þess urðu umskipti í sóknarnefndinni við það tækifæri. Nýtt fólk kom inn – enda er mikilvægt að endurnýja sóknarnefndir svo að fólk lýist ekki því að seta í sóknarnefnd er sjálfboðastarf og getur stundum verið tímafrekt. Sóknin er grunneining þjóðkirkjunnar.
Bílstjóri, söðlasmiður, kirkjumaður og margt fleira
„Ég er skólabílstjóri,“ segir Brynjólfur, „og sé um hitaveituna hér á svæðinu – vasast í öllu og sinni engu,“ segir hann hlæjandi.
Hann segist líka smíða söðla. Einn söðul á ári. „Lærði það hjá Erlendi Sigurðssyni,“ segir hann og lítur á hann sem sinn meistara og sinn skóla. Söðlasmíðin fer fram í fjósinu en þar er enginn hali. „Ég er uppgjafamjólkurbóndi,“ segir hann með bros á vör.
Þegar inn í kirkju er komið verður ljóst að Brynjólfur er heldur betur sagnafróður maður. Hann kann sögu kirkjunnar og fræðir komumann um hana með skilmerkilegum hætti.
Það er sama hvar er borið niður. Brynjólfur er með svör á reiðum höndum.
Eins og í mörgum kirkjum er Guðbrandsbiblíu gert hátt undir höfði eins og vera ber, það er ljósritaða útgáfan frá 1957. Föðursystkini Brynjólf gáfu Stafholtskirkju 1962 eintak af henni sem komið var fyrir undir gleri á fallegu sérsmíðuðu borði.
Fjögur hundruð stjörnur
„Þær eru fjögur hundruð,“ segir Brynjólfur og bendir á stjörnurnar og bætir við með bros vör að þeim sem leiðist undir prédikun prestsins geti dundað sér við að telja þær. „En altaristaflan er eftir Einar Jónsson, myndhöggvara og kom í kirkjuna 1950“, segir hann. Verkið er olíumálverk og temað er: Komið til mín ... Upp að hægri hlið frelsarans hvílist maður sem á að vera tákn fyrir hinn þreytta mann.
„Listamaðurinn gaf verkið fyrir tilstilli bónda nokkurs, Jósefs Björnssonar, sem hafði umsjón með viðgerð kirkjunnar 1948 – og þá var forkirkjan endurnýjuð,“ segir Brynjólfur. „Altaristafla sem var á undan þessari var eftir Þorstein Guðmundsson, frá Hlíð í Gnúpverjahreppi.“
Fyrir framan altarið er kórpallur, eiginlega löng tunga út frá altarisskáp, tvöfalt lengri en alla jafna er í gömlum kirkjum. Tekur allnokkurt pláss í kirkju sem rúmar um hundrað manns. Kirkjan.is hefur orð á þessu og Brynjólfur segist aldrei hafa velt því fyrir sér en þessi langi kórpallur gefi kirkjunni óneitanlega sterkan svip.
Sigríður í Sólheimatungu
Á altarinu var kaleikur og oblátuöskjur úr silfri. Brynjólfur benti á öskjurnar og sagði þær vera listasmíð frá 1826 og alveg ótrúlegt hvað menn hefðu getað smíðað fyrr á tíma með einföldum áhöldum. Síðan vék hann talinu að ljósakrónu sem var fast upp við suðurvegg. Brynjólfur sagði hana vera frá því um 1700 og hún væri til þess að gera nýkomin í kirkjuna. „Hún var á Byggðasafninu í Borgarnesi en Sigríður Sigurðardóttir (1892-1974) í Sólheimatungu sem var mikill velunnari kirkjunnar, gekk í það að bjarga henni á sínum tíma og kom henni á byggðasafnið, þaðan fengum við hana aftur,“ segir Brynjólfur og telur líklegt að hún hafi verið hífð upp á trissu yfir miðri kirkju.
Brynjólfur segir að kirkjan hafi verið metin ónýt 1948. Bóndinn og smiðurinn Kristján Fr. Björnsson á Steinum kvað hins vegar upp úr um með það að betra væri að gera hana upp en rífa. „Og það var gert,“ segir Brynjólfur, „og allir voru mjög ánægðir og töldu að kirkjunni hefði verið bjargað.“ Forkirkja var endurbyggð og turninn látinn rísa upp af henni, og gluggum breytt.
En gluggum var svo breytt árið 2009. Uppi á kirkjulofti var til gömul gluggaumgjörð, upprunaleg, og eftir henni var smíðað. Gluggarnir eru ögn trapisulaga og sitja djúpt í veggjum – gömlu gluggarnir voru oddmjóir. Þessir gluggar eru fallegir og sérstakir – þeir sjást vel með myndinni sem fylgir viðtalinu.
Fúinn er eilíft verkefni
En það er margt sem sækir að timburhúsum.
Þegar menn eru staddir í gamalli timburkirkju er umræða um fúa aldrei langt undan. Fúinn sækir alltaf á – er óvinur sem verður að berjast gegn. Stafholtskirkja var reist 1875-1877. Það segir sig sjálft að í svo gömlu húsi hefur fúinn margoft sótt hana heim. En hann hefur verið samviskusamlega rekinn á brott.
„Um tíma var hún að síga út af fúa,“ segir Brynjólfur, „en það var farið í endurbætur sem stóðu yfir í nokkur ár.“ Bárujárnið var rifið, skipt út timbri, einangrað og plötur settar á veggi.
Já, fúinn. Ýmist er regnáttin austlæg eða suðlæg. Eða suðaustan. Hér er það suðrið.
Já, suðurhliðin. Bekkir á þeirri hlið voru farnir að skemmast vegna fúa við vegginn. Þeir voru smíðaðir 1977 og fyrir þeim var safnað meðal sóknarbarna, áður fyrr voru bekkirnir einfaldir, setfjöl og bak. Gert var við það sem fúið var og: „Ákveðið var að kaupa lausa stóla,“ segir Brynjólfur og bendir á kost þeirra því að þeim er hægt að stafla upp og nota þar með rýmið í kirkjunni með öðrum hætti eins og oft er gert í barnastarfi svo dæmi sé tekið.
Sameining sókna er viðkvæmt mál
Stafholtssókn er ekki fjölmenn og þegar rýnt er í tölur um fjölda sóknarbarna vakna iðulega spurningar um sameiningu. Hún getur verið viðkvæmt mál í sveitum. Brynjólfur hlær mjúkum hlátri og segir að sóknin hafi fengið þrjá mismunsandi tillögur að sameiningu prestakalla á innan við ári. En sennilega er sameining prestakalla og sókna ekki annað en það sem verður þegar hún verður og það þarf að taka tíma í að ræða kosti og galla.
„Varðandi sameiningu sóknanna þá er umfangið til dæmis hér í prestakallinu ekki svo mikið að það rúmaðist ekki í einni sókn,“ segir Brynjólfur og bætir því við að það myndi hins vegar ekkert sparast af peningum vegna þess að þetta er allt unnið í sjálfboðavinnu. „En það er nú svo að á meðan það er sókn um hverja kirkju þá eru jú að minnsta kosti þrír sem eru að hugsa um kirkjuna sína, en ef sóknirnar verða sameinaðar þá verða þrír að hugsa um þrjár kirkjur,“ segir Brynjólfur.
Fjárhagur kirkjunnar er þokkalegur að sögn Brynjólfs, ekki megi skulda neitt því að vextir séu háir. Hann er þakklátur fyrir jöfnunarsjóð sókna og segir að ef hann væri ekki til þá væri lítið hægt að gera.
Velvilji í garð kirkjunnar
Tíðindamaður spyr hvort Brynjólfur hafi tíma til að fylgja honum að leiði nafna síns sem hann telur sjálfsagt mál. Sr. Brynjólfur var prestur í Stafholti í 39 ár. Vænn maður og traustur.
Kirkjugarðurinn í Stafholti er vel hirtur, stór um sig og með mörgum gömlum minningarmörkum. Áður fyrr var garðurinn sleginn í sjálfboðavinnu, einn sláttur á sumri. Þá söfnuðust upp fjármunir í kirkjugarðssjóðinn, núna er greitt fyrir sláttinn, en garðurinn þyrfti að hafa meiri tekjur til að sinna umhirðunni.
Síðan er gengið að leiði hins ágæta og sómakæra sr. Brynjólfs en hann hvílir í vesturhorni garðsins - og signt yfir.
„Það er mikill velvilji í garð kirkjunnar hér,“ segir Brynjólfur þegar kirkjan.is kveður hann við sáluhliðið, „það skilja allir í sveitinni það góða starf sem hún er að vinna þó að það fari ekki alltaf hátt, mannbætandi og samfélagsbætandi starf.“
Brynjólfur Guðmundsson í Hlöðutúni, hann Binni, sóknarnefndarmaður í Stafholti, er einn af þeim fjölmörgu sem stendur við bakið á kirkjunni sinni.
Kirkjan er söfnuðurinn. Fólkið.
hsh
Kirkjuklukkur Íslands - hér má hlýða á hljóm klukknanna í Stafholtskirkju
Facebókarsíðar Stafholtskirkju
Stafholtskirkja stendur á klettahæð sem heitir Stafholtskastali
Fallegur umbúnaður um Guðbrandsbiblíu
Grafskrift í forkirkju um Hróðnýju Helgadóttur (1792-1825) í Neðranesi
Brynjólfur tyllir sér á bekk í kirkjugarðinum - nauðsynlegt að hafa bekk í öllum kirkjugörðum
Rampurinn kemur vel út - kirkjur eiga að huga að aðgengi fyrir hreyfihamlað fólk