Viðtalið: Síðdegi í Þingholtsstræti

17. nóvember 2020

Viðtalið: Síðdegi í Þingholtsstræti

Fremst er sr. Auður Eir Vilhjálmsdóttir, yst er Elísabet Þorgeirsdóttir, þá Soffía Árnadóttir, Kristín Ragnarsdóttir og Aðalheiður Þorsteinsdóttir

Kvennakirkjukonur búa vel í höfuðstöðvum sínum í Þingholtsstræti 17, í Reykjavík.

Það var gott að koma þar inn úr síðdegisnepjunni í nóvember þó að bjart væri úti og himinninn fagurblár.

Þar tóku þær sr. Auður Eir Vilhjálmsdóttir, Elísabet Þorgeirsdóttir, Soffía Árnadóttir, Kristín Ragnarsdóttir og Aðalheiður Þorsteinsdóttir á móti tíðindamanni kirkjunnar.is. Þær eru í forsvari fyrir nýrri bók sem komin er út á vegum Kvennakirkjunnar.

Það var bjart yfir þeim enda fullt tilefni til. Bókin þeirra Göngum í hús Guðs, bar með sér ekki bara ilminn úr prentsmiðjunni heldur og angan af starfi þeirra enda bralla þær eitt og annað. Einkar smekkleg bók og í hlýjum litum. Efnið er enn athyglisverðra – og það dregur undirtitillinn fram: Guðþjónustan okkar. Og Kvennakirkjukonur skrifa þetta svona, guðþjónusta, eru ekkert að skjóta þarna inn einhverju hvæsandi essi milli Guðs og þjónustunnar - þær eru nefnilega mildar og máttugar eins og eitt kjörorða þeirra hljómar.

„Þessi bók er handbók helgihalds Kvennakirkjunnar sem er grundvallað á lúterskri kvennaguðfræði. Orð Guðs streymir fram eins og marglitur árstraumur þar sem sama vatnið fær sífellt nýja liti. Kvennakirkjan hefur haldið guðþjónustur frá byrjun starfs síns árið 1993 og mótað messuform sitt smátt og smátt.“

Það var nefnilega strax ljóst og Kvennakirkjunni var ýtt úr vör fyrir hátt í þrjátíu árum að sleginn var nýr tónn í kirkjustarfi innan íslensku þjóðkirkjunnar. Þarna voru konur saman komnar sem ætluðu sér að skoða allt kirkjustarf út frá nýju ljósi, ljósi kvenna í nútíð sem fortíð. Þessu starfi veitti sr. Auður Eir forystu.

Og auðvitað kom fljótt í ljós að guðsþjónusta þeirra var með öðrum blæ en tíðkaðist. Það var allt persónulegra og mýkra, skilningsríkara og alúðlegra. Glaðlegra og einlægara. Þar átti frumkvöðullinn, sr. Auður Eir ekki minnstan þátt. Hennar persóna og glöggskyggni.

Kirkjan.is situr til borðs með konunum, sr. Auði Eir, Elísabetu, Soffíu, Kristínu og Aðalheiði. Þær eru sem ein kona og segja frá samfélaginu í Kvennakirkjunni og nýju bókinni. Viðmælandi skynjar skjótt að Kvennakirkjan á hverja taug í þessum konum – þetta samfélag hefur gefið þeim mikið. Þær tala einum munni í hógværð og gleði yfir nýju bókinni, og um mikilvægi vináttunnar í kirkjunni og við Guð, og að vera til. Núna.

Það hefur enginn asi verið á útkomu bókarinnar því að hún hefur nánast verið í smíðum frá fyrsta degi Kvennakirkjunnar og allt til þessa. Orðið til í starfinu, á vettvangi, og tekið margvíslegum breytingum eins og gjarnan á við um dýrmæta steina úti í náttúrunni. Þeir verða ekki til á einni nóttu. Það er tíminn sem skapar þá og oft torsótt ferð þeirra um slóðir hans. Eins er það bókin Göngum í hús Guðs, hún hefur orðið til í kirkjusamfélagi kvennanna í Þingholtsstræti 17. Þær hafa spurt sjálfar sig um það hvernig þær vildu orða þetta og hitt sem snýr að trúarlegri tilbeiðslu, kirkjustarfi, bænahaldi og guðsþjónustuformi. Þær hafa slípað steininn. Og hér er bókin komin. Eflaust á hún líka eftir að taka einhverjum breytingum síðar. En það bíður annarrar stundar.

Það ber margt á góma. Og kirkjan.is spyr með hvaða hætti þær hugsa sér að ná meira til yngri kvenna.

Þær eru á einu máli um að það sé ekki áhyggjuefni út af fyrir sig. Kvennakirkjan er til eins og er og margir vita af henni. Hún hefur gefið út bækur, það er hluti af arfleifð. Eins starfið sem stendur öllum opið. Tímarnir sveiflast – og mannfólkið með. Svo er líka misjafnt hverju fólki nennir.

Og bókin Göngum í hús Guðs, er eins og stórt stórt tré sem breiðir út greinar sínar til samfélagsins – til ungra kvenna sem eldri.

„Það eru svo margar konur,“ sem hafa beðið eftir þessari litlu bók, Göngum í hús Guðs. Þær spyrja: „Er bókin okkar komin?“ Og það gleður viðmælendur mjög svo og vekur með þeim sannfæringu um að starfið hafi borið og beri ávöxt burtséð frá því hvort salurinn hjá þeim sé fullur eða ekki.

Og eins og alltaf, í gömlu húsi við Þingholtsstræti, á síðdegi þegar loftið er orðið þungt af kaffiangan og vínarbrauðsilmi, þá leitar hugur til upphafsins til þess að læra af og skýra.

Inngangsorð bókarinnar, Göngum í hús Guðs, sem allar konur Kvennakirkjunnar standa að, rekja í örstuttu máli sögu kirkjunnar og það er sr. Auður Eir sem ritar þau.

Þar eru málin lögð skýrt fram:

„Guðþjónustan er þjónusta Guðs við okkur. Hún býður okkur til sín í messuna. Messan er boð sem hún heldur fyrir okkur allar sem komum. Hún tekur á móti okkur, situr hjá okkur, talar við okkur, hlustar á okkur og syngur með okkur.“

Kvennakirkjukonur leggja þunga á að þær séu siðbótakirkja, þær styðjast við lútherska kvennaguðfræði. Þess vegna meðal annars lætur hún strauma siðbótarinnar streyma um messuformið. Þær hafa margs konar guðsþjónustuform – og raða messuliðum upp eftir eigin höfði. Og að sjálfsögðu er Biblían þeirra bók; þær prédika, syngja sálma, biðja, játa trú sína ýmist með eigin trúarjátningum eða hefðbundnum. Þær flytja sérstakar þakkir fyrir fyrirgefninguna í stað miskunnarbænar. Þær konur sem vilja tala um Guð í kvenkyni – og þær sem vilja nota málfar beggja kynja. Sr. Auður sjálf leggur þunga áherslu á málfar beggja kynja. Sú barátta hefur skilað nokkru, valdir kaflar Nýja testamentisins í útgáfu Biblíunnar 2007 eru á málfari beggja kynja.

Bókin er mjög fróðleg og textinn er allur aðgengilegur og smekklega uppsettur. Já, fallegur og umvefjandi texti, bænir og messuform. Í bókarlok eru nótur að stefjum sem samin hafa verið fyrir Kvennakirkjuna.

Það var Soffía Árnadóttir sem myndskreytti bókina.

Það er gefið fullkomið frelsi til að nota bókina að hætti hvers og eins, raða því saman sem hugur kýs. Þar segir enginn öðrum fyrir. Sveigjanleiki og mýkt er í fyrirrúmi.

Eitt af kjörorðum Kvennakirkjunnar
Við erum mildar og máttugar af því að við erum vinkonur Guðs.

hsh

Kvennakirkjan

Facebókarsíða Kvennakirkjunnar


Bókin fína sem Kvennakirkjukonur hafa gefið út


Þingholtsstræti 17 - höfuðstöðvar Kvennakirkjunnar 


  • Guðfræði

  • Heimsókn

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Skipulag

  • Trúin

  • Útgáfa

  • Frétt

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls