Átök í Eþíópíu
Lútherska heimssambandið hefur verulegar áhyggjur af versnandi ástandi í Eþíópíu. Þar hafa átök magnast svo að fólk óttast um líf sitt og stöðugleika í samfélaginu er ógnað. Heimssambandið hefur staðið fyrir víðtækri mannúðar- og þróunarstarfsemi í 25 löndum og þar á meðal í Eþíópíu.
Framkvæmdastjóri Lútherska heimssambandsins, dr. Martin Junge, segir fólk hafa týnt lífi í átökum og fjöldinn allur hafi verið fluttur búferlum. Þá hafi fólk misst lífsviðurværi sitt. Hann segir að fólk búi þar við fæðuskort og allar flutningaleiðir séu meira og minna lokaðar. Slæmt ástand komi fyrst og fremst niður á flóttafólki, konum og börnum. Það sé brýn nauðsyn að draga úr átökum og leita sátta og friðar.
Þau í Kristniboðssambandinu eru öllum hnútum kunnug á þessum slóðum og sneri kirkjan.is sér til þeirra.
„Deilur sem þessar eru ekki nýjar af nálinni í Eþíópíu,“ segir sr. Ragnar Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra kristniboðsfélaga, „mikið ófriðarbál logaði í landinu frá 1974-1991 sem lauk með því að Erítrea varð sjálfstætt ríki og Eþíópía missti land að sjó.“ Tigray-þjóðflokkurinn komst til valda þó ekki væri hann stór en hann hafði komið út sem sigurvegari þegar ófriðarbálið var kæft. Hann kom ár sinni vel fyrir borð. Sölsaði undir sig ýmis verðmæti og stóð fyrir flutningi ýmissa stofnana ríkisins norður í landshluta sinn.
Átök standa nú yfir í nyrðri hluta landsins að sögn sr. Ragnars og eru þau mjög alvarleg. Átakasvæðið er í héraði sem heitir Tigray og dregur fyrrnefndur þjóðflokkur nafn af því.
Hart hefur verið sótt að Abiy, forsætisráðherranum, og flokki hans, Velferðarflokknum. Hefur meðal annars verið reynt að ráða hann af dögum.
Abiy fékk friðarverðlaun Nóbels í fyrra fyrir að hafa stýrt friðarviðræðum við Erítreu og komið á fót miklum umbótum í Eþíópíu.
Eþíópía er sambandslýðveldi og eru stærstu þjóðflokkarnir tveir, Oromo, tæp 35%, og Amhara, rúm 27%. Tigray-menn eru aðeins rúm 6%. Spenna er á milli þjóðflokkanna en stofnun sambandslýðsveldis átti að draga úr henni. Í landinu búa um 110 milljónir manna.
En það eru ekki aðeins átök í norðrinu heldur og suðrinu og þá ekki síst í Konsó. „Við erum ekki með Íslendinga í landinu eins og er,“ segir sr. Ragnar og bætir því við að enginn hafi getað heimsótt landið vegna kórónuveirufaraldurs. „Við erum þó í sambandi við starfsfólk kirkjunnar í suðri, bæði í Konsó og Arba Minch,“ segir hann.
Hann segir gamlar erjur milli þjóðflokka og ættbálka hafa gosið upp og þær staðið yfir í nær hálft ár. „Þetta hefur til dæmis bein áhrif á starf kirkjunnar á Konsó-svæðinu,“ segir sr. Ragnar. Þorp og hús hafi verið brennd niður og fólk drepið í þessum erjum. Í stríðs- og óeirðarástandi fari svo skálkar á kreik og herja á fólk rænandi og ruplandi.
Sr. Ragnar segist ekki átta sig á hver þáttur kórónuveirufaraldursins sé í þessum kringumstæðum.
„Samstarfshreyfing okkar í Noregi, NLM, er með kristniboða í landinu sem reyna að halda sínu striki,“ segir sr. Ragnar. „Þeir hafa boð um að fara varlega, mega til dæmis ekki fara inn á átakasvæði né heldur ferðast að óþörfu, helst ekkert eftir myrkur.“ Og að sjálfsögðu sé allra sóttvarnareglna gætt í hvívetna.
„Eþíópía hefur verið á góðri leið hvað uppbyggingu innviða snertir sem og þróunarstarf,“ segir sr. Ragnar. Helsta ógn flestra ríkja í Afríku fyrir utan plágur, sjúkdóma og spillingu, séu stríðsátök en í þeim sé oft áratuga uppbyggingarstarf lagt í rúst.
Mekane Yesu kirkjan (EECMY - Ethiopian Evangelical Church of Mekane Yesu) telur nú rúmar 10 milljónir og um 10% þjóðarinnar tilheyra henni.
Framkvæmdastjóri Lútherska heimssambandsins, dr. Martin Junge, sem getið var hér í upphafi, hefur einmitt ritað hvatningarbréf til Mekane-kirkjunnar í Eþíópíu, þar sem hann lýsir samstöðu með henni í þessum aðstæðum og biður fyrir henni.
hsh
Sjá einnig frétt í Morgunblaðinu í dag.
Fáni Eþíópíu - geislandi fimmhyrnd stjarna stendur fyrir einingu landsmanna