Lesið í hús

21. nóvember 2020

Lesið í hús

Fróðleg bók og upplýsandi um kirkjur og táknheim kristninnar

Bók dr. Sigurjóns Árna Eyjólfssonar, Augljóst en hulið – að skilja táknheim kirkjubygginga, kom út fyrir nokkru. Það er Skálholtsútgáfan-útgáfufélag þjóðkirkjunnar sem gefur út. Hún er 256 blaðsíður.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um að kirkjubyggingar eru með merkustu byggingum hverrar þjóðar. Skiptir þá engu hvort þær eru litlar eða stórar því að allar geyma þær sögu og eru menningarmerki, geyma arfleifð fólks. Litlar kirkjur geta geymt stórmerka og dýrmæta gripi eins og hinar stóru enda þótt þær séu einfaldari að formi til og arkitektúr en hinar stærri.

Í öllum byggingum er að finna merki tímans, nýja stíla og óm af gömlum. Sums staðar einhver dulin tákn í samræmi við tilgang byggingarinnar og markmið.

Heimur kristninnar er fullur af táknum og þau hafa auðvitað borist inn í guðshús kristinna manna og meira en það: húsin sjálf verið tákn.

Í bókinni leitast höfundur við að skýra fyrir lesendum það sem hann kallar merkingarheim kirkjubygginga og nota guðfræðina til þess. Hann bendir að sjálfsögðu á hina stórglæsilegu ritröð, Kirkjur Íslands, 31 bindi, en saknar í þeim bindum guðfræðilegra útlistana á einu og öðru í öllum þeim kirkjum sem fjallað er um. Í ritröðinni eru það einkum timburkirkjur 19du aldar sem og þeirrar 20stu sem eru viðfangsefnið. Íslensk byggingarlist er svo sem ekki gömul enda var byggingarefnið sjálft fráleitt endingargott, torf og grjót, og byggði hver kynslóð úr því það sem stóð meðan hún stóð sjálf uppi og hneig svo nánast að foldu samtímis henni.

Höfundur fjallar í upphafi um samhengi rannsóknanna og ræðir um nýlegar rannsóknir á táknheimi kirkjubygginga. Síðan fer hann í sögu kirkjubygginga og þar kemur frumsöfnuðurinn við sögu. Þegar fram líða aldir verða kirkjubyggingar hvort tveggja tákn hins veraldlega valds og andlega. Þá fjallar höfundur um hina himnesku Jerúsalem og leggst ofan í Opinberunarbókina. Í næst síðasta kafla ræðir hann um einstaka hluta kirkjubygginga eins og turn, klukkur, glugga, altari o.fl. Skoðar það í sögulegu samhengi og varpar guðfræðilegu ljósi á efnið. Og botninn er sleginn með umfjöllum um tónlist í kirkjum og stuttri vangaveltu um guðfræði höggna í stein.

Bókin er stórfróðleg eins og vera ber þegar menningarsaga er skoðuð út frá sjónarhorni guðfræði, sögu og listar.

Í frumkristni kom fólk saman á heimilum og síðar verður til þörf fyrir einhvers konar húsaskjól til að iðka trúna – og þá einkum neyslu kvöldmáltíðarinnar. Reyndar hafði postulinn sagt þeim að þau væru musteri Guðs. Það er ekki lítið. Líkaminn er að sönnu hús persónuleikans og vitundarlífsins sem við berum ábyrgð á – nú og sú manneskja sem tilbiður í huga sínum og líkama er búin að helga hvort tveggja sem væri það einhvers konar tegund af helgum bústað. En það er helgihús einnar persónu, kristnin kallar ekki aðeins á einstaklinginn heldur og safnar þeim saman í samfélag. Í kirkju. En það er kannski önnur saga, eins og sagt er, þó skyld sé efninu.

Eins og titill bókarinnar ber með sér þá er hverjum kristnum manni margt augljóst þegar hann gengur inn í guðshús ef hann er þokkalega að sér í grundvallarþáttum trúarinnar. Sumt er auðvitað hulið, á djúpar guðfræðilegar forsendur t.d. í táknfræði talna o.s.frv. Þróun í byggingaraðferðum hvers tíma birtist fljótt í kirkjubyggingum og kannski eins og fram kemur í bókinni augljósast í hinum gotnesku byggingum sem gátu borið hið háleita betur en basilíkur og rómanskar kirkjur.

Höfundur ræðir einnig hið afhelgaða samfélag og kirkjuhúsin. Frægustu kirkjubyggingar heimsins eru eftirsóttar og þangað leggja leið sína milljónir manna. Bæði í trúarlegum tilgangi sem og veraldlegum, að berja augum list og menningu liðins tíma. Það sem einn sér, sér annar ekki. Annar upplifir listaverk með sínum hætti og sá næsti með sínum. Skilningur listar er ekki klappaður í stein, hann er upplifun, verður til hið innra.

Oft er sagt að kirkjur prédiki út af fyrir sig. Hús eru nefnilega ákveðin tegund skáldskapar og formlistar – eins og Nóbelsskáldið sagði í grein frá 1929 og heitir: Um hús. Kirkjuhús eru líka ákveðin tegund af trúarjátningu, hið ytra sem innra. Sveitaprestur á Snæfellsnesi svaraði því svo þegar einhver fín frú að sunnan taldi of sjaldan messað í kirkjum þar vestra að þær prédikuðu sjálfar þar sem þær stæðu inni í fegurð landsins. Lágreist hús með turni væri tákn þakklætis og auðmýktar sem frúr að sunnan skildu lítt enda þær með prjón í hatti.

Þegar gengið er inn í kirkju blasir iðulega harla margt við. Hvað nær að fanga skynjun gestsins fyrst er alls óvitað. En það er eitthvað af öllu því sem í einu kirkjuhúsi er að finna. Hvort heldur steindur gluggi, kross á altari, altaristafla, fúablettur á suðurvegg eða sprunga milli kórs og kirkjuskips, hið forgengilega í musteri óforgengileikans.

Næsta verkefni væri að huga sérstaklega að íslenskum kirkjum í þessu guðfræðilega ljósi – og kennslufræði kirkjubygginga – en vettvangur bókar dr. Sigurjóns Árna er einkum Mið-Evrópa þó hann taki einnig ýmis dæmi úr íslenskri byggingasögu í umfjöllun sinni.

Gengið í guðshús, eftir dr. Gunnar Kristjánsson, var eitt fyrsta skrefið í þá átt að skoða kirkjur bæði út frá fagurfræði, arkitektúr og guðfræði. Sú bók er löngu uppseld. Einnig má vísa á góðan erindabækling, Þá þú gengur í guðshús inn, sem Kjalarnessprófastsdæmi gaf út 2008, en hann geymir erindi af málþingi um varðveislu og breytingar á kirkjum. Þar er margt fróðlegt af hendi presta og listamanna.
Hér má líka geta um stórskemmtilega og fræðandi þætti sem sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson, hefur gert um kirkjur í prestakalli sínu, Hrunaprestakalli, og fleytt áfram á Facebók, til dæmis þessi. Þar er saga og guðfræði ofin í eitt við hæfi nútímamanna.

Kirkjan.is mælir með þessari ágætu bók dr. Sigurjóns Árna og óskar höfundi til hamingju með hana.

hsh



  • Guðfræði

  • List og kirkja

  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Útgáfa

  • Frétt

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls