Prestur og fuglar
Íslensku fuglarnir og þjóðtrúin er bók sem sr. Sigurður Ægisson, sóknarprestur á Siglufirði, sendir frá sér nú fyrir jólin. Þetta er ekki fyrsta bókin af hendi hans um fugla né annað forvitnilegt efni. Fuglabók hans Ísfygla kom út 1996. Þá kom út árið 2015 lítil og nett bók um sögu íslensku Biblíunnar. Í fyrra kom svo út bók hans um Gústa guðsmann. Auk þess hefur hann skrifað margar greinar í blöð og tímarit, ort kvæði og samið lög, svo nokkuð sé nefnt. Hann er prestur, skáld og listamaður.
Bókaútgáfan Hólar gefur út. Þetta er stór og falleg bók, 472 blaðsíður, og fjallar um tvennt sem höfundi er afar kært, fuglana og þjóðtrúna. Hann hefur unnið að bókinni í rúman aldarfjórðung.
Sr. Sigurður segist hafa stuðst við viðmið Náttúrufræðistofnunar þegar þurfti að velja hvaða tegundir skyldi fjalla um í bókinni. Stofnunin gengur út frá því að 75 fuglar verpi hér á landi að staðaldri. Sr. Sigurður bætir nokkrum fuglum við.
Bókin er skipulega sett upp. Fjöldi mynda prýðir hana. Margar þeirra hefur sr. Sigurður tekið sjálfur enda snjall ljósmyndari. Sumar myndanna eru listaverk, eins og myndin af kríunni á blaðsíðu 194. Hún er hreint út sagt meistarastykki.
Það er gamla góða stafrófsröðin sem er notuð og hver fugl tekur við af öðrum. Sögð eru önnur nöfn á fuglinum en það sem algengast er. Sílamáfurinn er vorboðinn hrjúfi – allir vita hver hinn ljúfi er og þarflaust að taka það fram. Sumir hafa mörg önnur nöfn en aðrir færri eins og krían – hrafninn hefur fjölda nafna og að auki er enginn fugl eins rúmfrekur í sagnaheimi norrænna þjóða. Hrafninn á sér til dæmis hið fagra nafn sigursvanur. Nú svo er kallaður í Reykhólasveitinni urragurra og arrimarr.
Nafnalisti fuglanna er mjög skemmtilegur aflestrar, lesandi kannast við sum aukanafnanna en flest þeirra hefur hann sennilega ekki heyrt.
Höfundur fjallar um hvern fugl bókarinnar undir sérstökum fyrirsögnum og er önnur þeirra Ísland og hin Útlönd. Þá fylgir hverjum fugli útbreiðslukort sem eru mjög fróðleg til athugunar, skýr og einföld. Þau segja líka til um hvar hann dvelst sumar, vetur – eða árið um kring.
Þá vindur höfundur sér í þjóðfræðina og segir frá því hvað hún hafi um hvern fugl að segja. Það er mismikið um hvern fugl eins og gengur. En allt er það hið áhugaverðasta efni og vel fram sett. Alltaf er að sjálfsögðu stutt í einhverjar frásagnir af galdramönnum og kukli eins og vera ber í þjóðtrúnni. Þeir menn, karlar og kerlingar, tóku og eftir ýmsu sérstöku við fuglana og hafa sennilega tengt í huga sínum við eitthvað sem nýta mætti í galdrastússi sínu. Til dæmis var hið dularfulla háttalag keldusvínsins (bls. 177) mjög svo spennandi frá bæjardyrum þeirra séð. Það enda talið furðuskepna og búkfita þess, fjaðrir og goggur, góð áhöld í verkfærakistu galdramannsins.
Fjöldi sagna af fuglum og hátterni þeirra, tengslum við menn og atburði, fylgir svo hverjum fugli. Vitnað er til bókmennta, fornra og nýrra, og annarra rita þar sem fjallað er um fugla. Ljóð um fugla birt og vísur. Allt eru þetta hinar skemmtilegustu frásagnir – og margar þeirra eru merktar þjóðtrú sem áður segir og sögnum. Þá styðst höfundur einnig við svör sem fólk hefur gefið Þjóðháttadeild Þjóminjasafnsins – en það er mikil náma af fróðleik og sögnum fólks um allt land. Innlendar sem erlendar frásagnir eru fullar af lífi, alvöru og gáska. Rjúpnafrásagnir að austan (bls. 273) og úr Hálsasveitinni í Borgarfirði (bls. 280). Þá hinar útlendu eins og rúmenska frásögnin um stél maríuerlunnar (bls. 233n), hún er hreint út sagt dásamleg – og lærdómsrík. Einnig pólska þjóðsagan um það hvernig æðarfuglinn varð til (bls. 447nn). Margar slíkar sögur prýða bókina þar sem segir frá mönnum og fuglum.
Það er alkunna að fólk hefur á öllum öldum reynt að spá fyrir um sitthvað með því að fylgjast með fyrirbærum náttúrunnar. Veðurspár og fuglar eru nátengt efni. Reynt var að lesa í háttalag fugla til þess að sjá hvernig veður yrði. Hlustað var eftir hljóðum þeirra og horft á sprang þeirra og fylgst með flugi þeirra. Stél gat verið veðurviti – og vængjasláttur. Veður var náttúrlega miklu meira mál fyrir fólk fyrr á öldum en okkur sem horfum á veðurfréttirnar á litfögrum sjónvarpsskjá og förum kannski lítt út í veðrið í orðsins fyllstu merkingu. Mýmörg dæmi eru nefnd um misgóða veðurspáfugla. Hrafninn er nú harla oft nefndur sem býsna drjúgur spáfugl (sjá til dæmis tilvitnun í Austantórur Jóns Pálssonar á bls. 137) – en það eru fleiri. Sumir taldir vera góðir að spá fyrir góðu veðri eins og lómurinn. Himbriminn var enn betri, nánast eins og veðurstofa! Enda er vitnað í marga í sambandi við veðurhljóð þessa fagra og stóra sundfugls. En það var ekki bara reynt að lesa veðrið af fuglum heldur og aflabrögð. Sumir fuglar voru aflaboðar meðan aðrir voru það ekki. Skúmurinn var til dæmis aflaboði.
Allur þessi fróðleikur er vel upp settur og kaffærir engan. Hann er líka með þeim hætti að auðvelt er að grípa niður hér og þar. Þannig hefur bókin líka vissan handbókarbrag sem er mikill stuðningur samhliða að vera almennt rit um þjóðlegan fróðleik og náttúru.
En það eru ekki bara myndir af fuglum sem prýða þessa bók. Margar myndir fylgja frásögnum sem tengjast fuglunum og samskiptum manna við þau bæði í raunheimum og huliðsheimum. Allar þessar frásagnir eru spennandi og skemmtilegar. Mörgum prestum mun eflaust þykja fengur í þeim frásögnum þar sem frelsarinn kemur við sögu – margar þeirra er hægt að segja í sunnudagaskólanum og ræða um fuglana og sköpun Guðs enda syngja börnin meðal annars: Hver hefur skapað fuglana, fuglana... Nú og sjálfur hafði frelsarinn gefið fuglunum gaum og séð að margt mátti af þeim læra - hann sagði: Lítið til fugla himinsins. ... þarf að segja meira? Og hvaða fugl skyldi nú vera kallaður prestalóa?
Það þarf svo sem ekki að segja mörg orð um að fuglar eru misstór hluti af lífi manna. Það veltur reyndar dálítið á því hvar fólk býr. Hvort það er við sjávarströnd eða inn til lands. Eða í borginni, bæjum og þorpum.
Í bókarlok er merkilegur stuttur viðauki sem er alveg sér á parti – eins og sagt er. Þar er meðal annars mynd af bæjarmerki eða skjaldarmerki Hveragerðisbæjar. Blóm, að sjálfsögðu. Líka fugl. En hvaða fugl? Jú, hverafugl. Í viðaukanum er fjallað um frásagnir af fuglum við heita hveri og uppsprettur sem trítla um á hvellheitum leirnum, synda í hverunum, stinga sér niður í hverinn og sjóðandi vatnið. Allt frá 17du öld hafa menn talið sig sjá slíka fugla á þessum heitbullandi stöðum. Nýjasta dæmið er frá fjórða áratug síðustu aldar. Ef fuglar þessir eru til þá flokkast þeir með hinum yfirnáttúrlegu fuglum – eru huldufuglar sem lesa má um í þjóðsögum.
Við sjáum fugla himinsins daglega frá ýmsum sjónarhornum – og þeir eru orðnir svo samvaxnir hversdeginum að við sjáum þá kannski ekki alltaf eins og fugla heldur bara sem eitthvað er flýgur framhjá. Fólk sýnir þeim mismikinn áhuga. Þessi bók gæti hins vegar vakið áhuga og bætt úr hinni brýnu þörf á aðgengilegri bók á mannamáli um fuglana í kringum okkur. Þetta er bók handa fullorðnum og börnum og hún ætti að liggja frammi á hverju heimili, í eldhúsi eða stofu, til að fletta upp í henni, lesa eitt og annað sem tengist viðkomandi fugli þegar tilefni gefst til. Hversdagslegt uppflettirit til menntunar og skemmtunar, menntun er nefnilega líka skemmtun eins og þessi fallega bók prestsins á Siglufirði ber með sér. Sr. Sigurður skrifar auk þess lipran stíl, vandaðan og persónulegan, sem styttir alltaf leiðina milli frásagnar og lesanda, milli höfundar og lesanda.
Kirkjan.is óskar sr. Sigurði til hamingju með þessa fallegu og hlýju bók sem mun eflaust nýtast mörgum vel. Já, og vonandi flýgur hún sem víðast!
hsh