Jöfn staða karla og kvenna

26. nóvember 2020

Jöfn staða karla og kvenna

Dr. Sigríður Guðmarsdóttir

Nýlega var dr. Sigríður Guðmarsdóttir ráðin lektor í kennimannlegum fræðum við Guðfræði- og trúarbragðadeild Háskóla Íslands. Þau tímamót urðu við þessa elstu deild háskólans að með ráðningu dr. Sigríðar er kynjahlutfall í fyrsta sinn jafnt meðal fastráðinna kennara deildarinnar. Þrjár konur og þrír karlar. Auk dr. Sigríðar kenna þær við deildina dr. Arnfríður Guðmundsdóttir og dr. Sólveig Anna Bóasdóttir. Karlarnir sem kenna við deildina eru þeir dr. Gunnlaugar A. Jónsson, dr. Hjalti Hugason og dr. Rúnar M. Þorsteinsson.

Dr. Sigríður útskrifaðist úr guðfræðideild Háskóla Íslands árið 1990. Sama ár var hún vígð til prestsþjónustu á Suðureyri við Súgandafjörð og eftir fimm ára starf þar tók hún við sóknarprestsembætti á Ólafsfirði. Því gegndi hún í fimm ár og hélt árið 2000 utan til náms ásamt manni sínum, Rögnvaldi Guðmundssyni. Hún lauk M. Phil. gráðu í nútímaguðfræði árið 2003 frá Drew háskóla í New Jersey í Bandaríkjunum og doktorsprófi árið 2007.

Árið 2004 tók varð hún prestur í nýstofnuðu prestakalli í Grafarholti, fyrst kvenna til að gegna sóknarpreststöðu í Reykjavík. Þar var hún prestur í áratug.

Noregur heillar

Aftur hélt dr. Sigríður utan til búsetu með manni sínum – árið 2014. Nú til Noregs og tók við starfi prófasts.

„Prófaststarfið í Noregi er stjórnunarhlutverk í fullu starfi, þar sem prófasturinn fer fyrir teymi allra presta í prófastdæminu, stýrir verkefnum og hefur vinnuveitendaábyrgð gagnvart prestunum,“ segir dr. Sigríður þegar hún er innt um prófastsstarfið. Hún segir þetta hafa veið lærdómsríkan tíma og fór hún í gegnum leiðtogaþjálfun með öðrum próföstum og tók þátt í að leiða kirkjuna í sínu prófastdæmi við aðskilnað ríkis og kirkju í Noregi árið 2017.

„Ég nýtti tímann og las norskan kirkjurétt og kirkjusögu og kynnti mér sögu og menningu Sama,“ segir dr. Sigríður. Hún segist hafa verið þremur árum síðar hvött til að sækja um stöðu í kennimannlegri guðfræði við VID háskólann, sem er með starfsstöðvar í Stafangri, Osló, Bergen og Tromsö. „Ég starfa nú þar sem námsbrautarstjóri í praktískri guðfræði,“ segir hún og bætir því við að hún flétti saman langa prestsreynslu og fræðilegt nám í praktísku og þverfaglegu starfsnám. „Auk þess sem ég læri norðursamísku við Háskólann í Tromsö undir norðurljósum og miðnætursól enda hef ég verið nörd frá fæðingu,“ segir hún með bros á vör.

Dr. Sigríður tekur við lektorsstarfi sínu nú um áramótin. Í fyrstu er um að ræða hlutastarf og síðan fullt. Hún er ekki nýgræðingur í háskólakennslu þar sem hún kenndi um tíma við Drew University, Winchester University á Englandi og við guðfræðideild Háskóla Íslands. Þá hefur hún gefið út bók og ritað á annan tug ritrýndra greina og bókakafla auk þess að halda fyrirlestra í fræðasamfélagi og fyrir almenning ásamt preststörfum sínum.

Kennimannleg guðfræði?

„Í sinni víðustu merkingu felst hún í rannsóknum á trúarpraxis, sem fylgir hinum ólíkum sviðum hversdagskristindóms og trúarhátta gegnum ólíkar áherslur guðfræðilegra aðferða, sem snúa að kirkju, akademíu og samfélagi,“ segir dr. Sigríður þegar hún er spurð hvað sé kennimannleg guðfræði. Hún bætir því við að undir þetta víða fræðasvið heyri síðan fjölmörg undirsvið: pastoralguðfræði (kennimannleg guðfræði í þrengri merkingu), sálgæsla, helgisiðafræði, sálmafræði, stjórnun, starfsháttafræði, kirkjuréttur, díakonía, prédikunarfræði, boðun auk fleiri þátta. Hún segist hlakka til að takast á við þetta verkefni, og vinna að fræðistörfum og kennslu á sínu móðurmáli.

Tímamót í jafnrétti

Fastir kennarar við guðfræði- og trúarbragðadeild eru sex talsins. Þegar dr. Sigríður stundaði nám við deildina á níunda áratug síðustu aldar var engin kona sem kenndi við deildina. Dr. Sigríður verður þriðja konan sem hefur fasta kennslustöðu við guðfræðideild sem áður sagði og þar með verður þar jafnt kynjahlutfall í fyrsta sinn í tæplega tveggja alda sögu Prestaskólans.

Dr. Sigríður telur að þetta sé heillaskref í jafnréttissögunni. Af þúsund ára sögu kristni á Íslandi hafa konur starfað sem prestar í innan við fimmtíu ár og lengst af þessarar kirkjusögu voru allir guðfræðingar, kennarar, prestar og biskupar karlkyns.

„Það tekur langan tíma að breyta hugmyndum um að þekking og reynsla karlmanna sé verðugri þess að vera sett fram í guðfræðirýminu og skapa hefð þar sem konur og karlar hafi aðgang að ólíkum fyrirmyndum guðfræðiþekkingar frá fólki af ólíkum kynjum,“ segir dr. Sigríður.

Dr. Sigríður hefur lagt rækt við það í kennslu að raddir kvenna heyrist til jafns við karla í námsefni og að ólíkum aðferðum sem vitna um fjölbreytileika sé beitt við kennslu og fræðistörf.

Kirkjan.is samfagnar dr. Sigríði með stöðuna og tímamótin í jafnréttismálum við hina gömlu og virðulegu deild í stofu V. (sem mun reyndar vera númer A229 í dag) í aðalbyggingu Háskóla Íslands.

hsh


  • Guðfræði

  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Frétt

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls