Tónlist og kirkja

27. nóvember 2020

Tónlist og kirkja

Jónas Þórir og félagar úr Kammerkór Bústaðakirkju - skjáskot

Jónas Þórir Þórisson, organisti í Bústaðakirkju, og tónlistarmaður með meiru, er hugmyndaríkur maður og starfsamur.

Kófið, kórónuveirufaraldurinn, hefur legið yfir landslýðnum og truflað margt. En Jónas Þórir grípur til sinna ráða til að lyfta brúninni á fólki – hann er enda maður gleði og umhyggju.

Tónleikar með perlum Sigfúsar Halldórssonar eru teknir upp í Bústaðakirkju með glæsibrag. Kammerkór kirkjunnar stígur fram og við píanóið sest Jónas Þórir Þórisson, hver annar.

Kynnir er sr. Eva Björk Valdimarsdóttir.

„Ég fékk þessa hugmynd fyrir ári síðan þegar ég áttaði mig á að vinur minn Sigfús Halldórsson ætti 100 ára afmæli 7. september 2020,“ svarar Jónas Þórir þegar kirkjan.is spyr hann nánar út í tiltækið.

Hann segir að upphaflega hafi staðið til að bjóða upp á ýmislegt í tengslum við listamánuð í Bústaðakirkju, og það sem kallast bleikur október.

„Okkur sr. Evu Björk fannst alveg gráupplagt að taka upp og streyma minningartónleikum um Sigfús,“ segir Jónas Þórir.

En þekkti Jónas Þórir, hinn kunna lagahöfund, Litlu flugunnar, svo eitthvað sé nefnt?

„Kynni mín af honum voru upprunalega í kringum föður minn, Jónas Þóri Dagbjartsson, fiðluleikara, og svo í gegnum frímúrarastarfið en Sigfús var góður frímúrari og mætti þar afar vel,“ segir Jónas Þórir. „Ég hafði unnið með honum lítillega meðal annars að plötu þar sem Sigfús söng en ég spilaði undir.“ Hann segist líka hafa útsett fyrir hann ýmis lög. 

En hvert er uppáhaldslag Sigfúsar hjá Jónasi Þóri?

Ég vildi að ung ég væri rós.....líklegast skýrist það af minningu um mömmu spila þetta lag heima þar sem Kristinn Bergþórsson söng þetta lag listavel,“ segir Jónas Þórir.

Það er Kammerkór Bústaðakirkju sem flytur lögin sem áður sagði. Kórinn er skipaður öflugu menntuðu söngfólki. Þau syngja óperutónlist, kirkjutónlist sem sönglög og dægurflugur.

„Það var gaman að gera þetta og með því reyna að létta lundina í þessu kófi sem við erum stödd í,“ segir Jónas Þórir með bros á vör og gleðin skín úr augum hans.

hsh

 

Sigfús Halldórsson, tónskáld (1920-1996)
Foreldrar hans voru Guðrún Eymundsdóttir húsmóðir og Halldór Sigurðsson úrsmiður og var Sigfús yngstur átta barna þeirra hjóna. Kona Sigfúsar var Steinunn Jónsdóttir (1923-2014) og áttu þau tvö börn.

Sigfús nam við málaraskóla Björns Björnssonar og Marteins Guðmundssonar og söngnám stundaði hann hjá Pétri Á. Jónssyni óperusöngvara. Hann lauk prófi í leiktjaldahönnun og málaralist frá Slade Fine Art School, University of London, árið 1945.

Hann var við nám og störf við Stokkhólmsóperuna 1947 til 1948. Sigfús hélt margar málverkasýningar bæði einn og með öðrum. Hann stóð m.a. að fyrstu leiktjaldasýningunni hér á landi árið 1947.

Sigfús samdi fjölda sönglaga og tónverka auk kórverka. Meðal verka hans eru Stjáni blái, við ljóð Arnar Arnarsonar, Til sjómannsekkjunnar, við ljóð Sigurðar Einarssonar, Arnarrím, við nokkur ljóð Arnar Arnarsonar og Austurstræti, lagaflokkur við kvæði Tómasar Guðmundssonar. Af sönglögum hans má nefna Dagný, Við Vatnsmýrina, Tondeleyo, Litla flugan, Vegir liggja til allra átta, og fleiri kunn lög.

Sigfús hlaut fjölda viðurkenninga fyrir störf sín á sviði menningar og lista. Þar á meðal Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu árið 1979. Hann hlaut heiðurslaun frá Alþingi og var heiðurslistamaður og heiðursborgari Kópavogs.

Tónleikana má sjá og heyra á Facebókarsíðu Bústaðakirkja


Málverk af Kópavogskirkju sem Sigfús málaði - mynd: hsh

 


  • Frétt

  • List og kirkja

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Tónlist

  • Trúin

  • Covid-19

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls