Aðventa á Hringbraut
Aðventa er heiti á fjórum sjónvarpsþáttum sem sýndir verða á Hringbraut næstu fjóra sunnudaga. Það er sr. Guðrún Karls Helgudóttir, sem stjórnar þeim.
Kirkjan.is spurði hana nánar út í málið.
„Þættirnir eru hálftími að lengd og við ætlum að varpa ljósi á kærleiksþjónustu kirkjunnar,“ segir sr. Guðrún, „skoða hvernig kirkjan mætir fólki í ólíkum aðstæðum og þá ekki síst á aðventunni á tímum heimsfaraldurs.“
Hún segir að hugað verði að þeirri kirkjulega þjónustu sem veitt er fólki sem býr við fátækt, fólki sem dvelst á sjúkrahúsum og er í fangelsi. Eins verði fjallað um heimilislausar konur.
„Falleg sálmalög verða flutt og biskup Íslands mun flytja nærandi orð í anda aðventu,“ segir sr. Guðrún.
Fyrstu viðmælendur í þættinum eru Vilborg Oddsdóttir, frá Hjálparstarfi kirkjunnar, og Rósa Björg Brynjarsdóttir, frá dagsetri kirkjunnar fyrir heimilislausar konur í Grensáskirkju.
Sr. Guðrún segist aldrei hafa stýrt sjónvarpsþætti áður á ævinni og því sé þetta mikil reynsla og hún hafi bara stungið sér í „djúpu laugina“. „En Sigmundur Ernir gaf mér þó mikið af góðum ráðum sem ég reyndi að nýta mér,“ segir hún.
Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi, frá Hjálparstarfi kirkjunnar
Rósa Björg Brynjarsdóttir, forstöðukona dagsetursins fyrir heimilislausar konur í Grensáskirkju
Sr. Ingólfur Hartvigsson, sjúkrahúsprestur og Rósa Kristjánsdóttir, sjúkrahúsdjákni
Andrea Baldursdóttir, félagsráðgjafi, og Guðrún Kolbrún Ottersted, félagsráðgjafi, frá Fjölskylduþjónustu kirkjunnar
Sr. Sigrún Óskarsdóttir, fangaprestur þjóðkirkjunnar.
Biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, segir nokkur orð
Tónlistin í þáttunum
Barnakór Hafnarfjarðarkirkju sem Helga Loftsdóttir stjórnar
Barbörukórinn í Hafnarfjarðarkirkju sem Guðmundur Sigurðsson stjórnar
Vox Populi í Grafarvogskirkju sem Hilmar Örn Agnarsson stjórnar
hsh
Þátturinn er á dagskrá sjónvarpsstöðvarinnar Hringbrautar næstu sunnudaga kl. 21.00