Gengið til altaris á ný
Á tíma kórónuveiru er mikilvægara en oft áður að hugsa í lausnum. Fjöldatakmarkanir og nálægðarmörk kalla á nýja nálgun í kirkjustarfi.
Eitt af því sem fyrirmæli yfirvalda á kórónuveirutíð hafa breytt tímabundið eru altarisgöngur. Kirkjur hafa að sjálfsögðu haft fullan skilning á því og lítið aðhafst í því sem snertir þann mikilvæga þátt í kristinni trú.
En jákvæðar lausnir eru oftast nær innan seilingar hafi fólk augun opin.
Alltaf má reyna eitthvað nýtt til að styrkja þjónustu kirkjunnar. Það eru þau í Grafarvogskirkju meðvituð um.
Þau í Grafarvogskirkju – en það er stærsta sókn landsins – bjóða upp á altarisgöngu í kirkjunni núna á sunnudaginn 13. desember með nýstárlegum hætti.
Hvað með fjöldatakmarkanir? spyr einhver.
Fullt tilliti er tekið til þeirra sem og nálægðarmarka.
Þau sem vilja ganga til altaris skrá sig fyrirfram en hægt er að velja sér tíma: kl. 11.00, 12.00, 13.00 og 14.00. Átta einstaklingar geta gengið til altaris í hverjum hópi í senn. Og það sem meira er: öll sem ætla til altaris koma með sinn bolla. Já, og hví ekki uppáhaldsbollann?
Spennandi verður að heyra frá þeim í Grafarvoginum hvernig til tekst með þessa nýjung í kirkjulegu starfi á kórónuveirutíð.
Skráning til altarisgöngu: grafarvogskirkja@grafarvogskirkja.is. Hægt er að hafa samband símleiðis: 587-9070.
Það þarf varla að taka það fram svo sjálfsagt er það að tveggjametra nálægðarreglan verður í hávegum höfð sem og fjöldatakmörkunin sem er hámark tíu manns í sama rými - grímunotkun einnig virt.
Prestar í Grafarvogskirkju eru þau sr. Guðrún Karls Helgudóttir, sr. Arna Ýrr Sigurðardóttir, sr. Sigurður Grétar Helgason og og sr. Grétar Halldór Gunnarsson.
hsh