Bænabók kirkjunnar
Bænabækur hafa fylgt kristinni trú frá upphafi vega. Kannski er kunnasta bænabókin Sálmarnir (Davíðssálmar), eða Saltarinn, í Biblíunni. Þeir hafa verið notaðir á öllum öldum í bæna- og trúarlífi fólks. Þá hefur sálmabókin einnig gegnt mikilvægu hlutverki sem bænabók.
Margar kirkjudeildir hafa eignast sína eigin bænabók sem skipa veglegan sess í formlegu helgihaldi sem og persónulegu og einslegu. Kannski er ein sú frægasta The Book of Common Prayer sem enska biskupakirkjan notar.
Á íslensku hafa komið út öldum saman sérstakar bænabækur. Kirkjan.is er með í höndum bænabók sem sr. Sigurður Pálsson, vígslubiskup, tók saman og kom út 1947. Eins bænabók sem sr. Jón Bjarman stóð að og kom út 1966. Þær eru góðar með sínum hætti en náðu ekki að festa sig í sessi. Þá gaf Skálholtsútgáfan út fyrir nokkrum árum Bænir karla og Bænir kvenna - einnig bók um bænir barna.
Árið 2006 kom út bænabók sem sr. Karl Sigurbjörnsson, biskup, tók saman: Bænabókin. Fyrirmynd hennar var sænsk. Bókin var snotur og vel upp sett. Það sem mestu máli skiptir var auðvitað efni hennar og innihald. Bænirnar voru fjölbreytilegar, gamlar og nýjar, og frá ýmsum löndum. Auk þess var margvíslegum nytsömum fróðleik komið til lesandans sem sneri að persónulegu bænalífi og helgihaldi kirkjunnar.
Þessi bænabók náði miklum vinsældum meðal almennings og presta. Hún seldist upp.
Nú er komin 2. útgáfa þessarar bænabókar og endurskoðuð. Það er mikill fengur. Skálholtsútgáfan – útgáfufélag þjóðkirkjunnar gefur hana út eins og þá fyrri.
Segja má að Bænabók sr. Karls sé orðin bænabók kirkjunnar svo almennri útbreiðslu hefur hún náð í krafti gæða sinna. Það er nefnilega svo að allt prófast við notkun eða bænaiðkun kynslóðanna. Fólk sér og finnur að það er með góða bók i höndum, bók sem talar fyrir munn þess og styrkir. Slík bók skýtur auðvitað rótum í hjarta og huga fólks.
Bókin er sem fjársjóður fyrir trúarlífið og það er alltaf hægt að finna eitthvað nýtt í henni. Svo sannarlega leiðsögn á vegi trúarinnar eins og undirtitill hennar ber með sér.
Í raun má segja að Bænabókin sem sr. Karl tók saman sé orðin að bænabók kirkjunnar og önnur útgáfa hennar staðfestir það. Þess vegna er hvort tveggja hægt: að færa sr. Karli þakkir fyrir að hafa tekið Bænabókina saman af smekkvísi sinni og glöggskyggni, og að óska íslensku þjóðkirkjunni til hamingju með að hafa eignast trausta og vandaða bænabók.
hsh
Sr. Karl með bænabókina góðu