Aðventan heima í stofu
Sunnudagshelgihaldið er á sínum stað eins og flestum ætti að vera ljóst. Það er þriðji sunnudagur í aðventu og kveikt á þriðja kerti aðventustjakans, hirðakertinu.
Ekki skortir streymi frá mjög fjölbreytilegum helgistundum. Heimasíður kirkna og Feisbókarsíður eru farvegurinn og langflestir kunna að nýta sér það. Einkum er það eldra fólk sem á hugsanlega í einhverjum vanda með að sækja sér þetta efni en því er hægt að leiðbeina.
Opinberir miðlar láta ekki á sér standa.
Ríkisútvarpið er með sína útvarpsmessu kl. 11.00. Hún er með þrennum hætti. Sýnd á sama tíma á RÚV 2, og síðar um daginn í Ríkisjónvarpinu kl. 15.00.
Guðsþjónusta dagsins kemur frá Seljakirkju. Þar valinn maður í hverju rúmi. Sr. Bryndís Malla Elídóttir þjónar fyrir altari og sr. Ólafur Jóhann Borgþórsson prédikar. Ritningarlestra les Kristín Ísfeld. Tómas Guðni Eggertsson stjórnar söng nokkurra félaga úr kór kirkjunnar og leikur á orgel. Þórður Högnason leikur lagið Þá nýfæddur Jesús... á kontrabassa.
Það er óhætt að taka undir sálmasönginn heima í stofunni eða hvar sem er – aðventusálmar sem ná beint til hjartans – með því að slá á númerið kemur texti sálmsins fram svo lesandi getur tekið vandkvæðalaust undir sönginn:
Við kveikjum einu kerti á nr. 560
Slá þú hjartans hörpu strengi nr. 57
Kom þú, kom, vor Immanúel nr. 70
Mig huldi dimm og döpur nótt nr. 562
Þá nýfæddur Jesús nr. 563
Fögur er foldin nr. 96
Þá skal minnt á aðventustund fyrir syrgjendur á vegum þjóðkirkjunnar, Landspítalans og Sorgarmiðstöðvarinnar sem kirkjan.is fjallaði um hér. Hún hefst í Ríkissjónvarpinu í dag kl. 17.00 en kl. 16.40 er henni sjónvarpað á Rúv 2 með táknmáli.
Loks er rétt að benda á viðtalsþátt sr. Guðrúnar Karls Helgudóttur, Aðventu, í kvöld kl. 21.00 á Hringbraut. Í þetta sinn eru viðmælendur hennar frá Fjölskylduþjónustu kirkjunnar, þær Andrea Baldursdóttir, félagsráðgjafi, og Guðrún Kolbrún Ottersted, félagsráðgjafi.
Eins og sjá má er dagskráin býsna fjölbreytt og hægt að njóta stundanna heima í stofu í kyrrð og ró. Heima er best, og kannski aldrei sem nú á kórónuveirutíð sem mun líða hjá fyrr en síðar.
hsh