Baksviðs í Betlehem...
Mörg eru þau sem hafa tekið þátt í jólaundirbúningi í skólum þar sem jólaguðspjallið hefur verið sett á svið. Stundum hafa það meira að segja verið fyrstu sport viðkomandi á sviði. Og eftirminnilegt fyrir vikið. Það er gaman að búa sig upp sem engil eða fjárhirði. Gamall sloppur af afa breytist skyndilega í þennan líka fína hirðabúning! Og lúinn fermingarkyrtill getur orðið að englabúningi – líka gullin skikkja úr samkvæmislífinu. Allt breytist með sögunni eilífu af Jesúbarninu.
Í gær var jólaguðspjallið æft og sett upp á svið í Áskirkju. Það var glatt á hjalla. Eins og barnið væri vaknað til lífs að nýju í öllum viðstöddum.
Þó voru þetta ekki nein skólabörn. Nei, fólk á besta aldri.
Það var Nikulás Tumi Hlynsson sem stóð við tökuvélina. Að sjálfsögðu með grímu. Kirkjan.is mun ekki þekkja hann aftur nema hann kynni sig grímulaus eftir kórónuveirutímann. Nikulás nemur kvikmyndafræði við Listaháskólann og er á öðru ári. Þess á milli tekur hann upptökuverkefni að sér og bakar auk þess pizzur í gríð og erg hjá flatkökufyrirtæki hér í borg. Ungur maður með mörg járn í eldi.
En hverja var hann að taka upp? Starfsfólk nokkurra sókna í Reykjavík. Þar voru þrír prestar og þrír djáknar. Öll með hlutverk. Einstök hlutverk!
Þetta var Aðventustund barnanna sem hefur notið mikilla vinsælda.
Ætli megi ekki segja að það hafi verið Kristný Rós Gústafsdóttir, djákni, sem var leikstjórinn enda þótt hver hefði svo sem sitt að segja eins og jafnan er í góðum hópi. Henni fórst vel úr hendi að stjórna þeim sr. Ásu Laufeyju Sæmundsdóttur sem lék Maríu mey, og Daníel Ágústi Gautasyni, djákna, sem lék Jósef. Einnig kom þar við sögu sr. Aldís Rut Gísladóttir sem lék engil. Sr. Hjalti Jón Sverrisson brá sér í hlutverk hirðis með miklum sóma. Jóhanna María Eyjólfsdóttir var á heimavelli því að hún er djákni í Áskirkju og hún brá sér í hlutverk vitrings ásamt Kristnýju Rós, sem er framkvæmdastjóri fræðslu- og fjölskylduþjónustusviðs Hallgrímskirkju.
Ekkert gerist án undirbúnings. Eins og kirkjufólk veit þá hefur verið streymt miklu efni frá söfnuðum um allt land. Fjöldi fólks hefur komið að undirbúningi og lagt fram mikla vinnu.
Jólaguðspjallið í kór Áskirkju sem tekið var upp verður svo klippt og snurfusað af Nikulási Tuma og sent út fjórða sunnudags í aðventu.
Þetta var fjórði og síðasti þátturinn í aðventustund barnanna sem unninn var sem samstarfsverkefni kirkna í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra eða: Áskirkju, Bústaðakirkju, Grensáskirkju, Hallgrímskirkju, Langholtskirkju, Laugarneskirkju, Neskirkju og Seltjarnarneskirkju. Stundirnar hafa verið teknar upp til skiptis í samstarfskirkjunum. Og það eru ofangreindir djáknar og prestar sem halda utan um þetta samstarf.
Nú er bara að sjá hvernig til hefur tekist með því að fylgjast með á sunnudaginn 20. desember. Þáttinn má sjá á heimasíðum kirknanna og Feisbókarsíðum þeirra. En þangað er kannski rétt að kíkja á þriðju aðventustund barnanna.
Þjóðkirkjan er svo sannarlega ekki á flæðiskeri stödd þegar svo kröftugt fólk eins og sjá mátti þetta síðdegi í Áskirkju er innan hennar raða. Þetta er mikill mannauður sem ber að hlúa að og þakka fyrir.
hsh
Hér eru þau öll sem stigu á svið: Jóhanna María, Kristný Rós, sr. Ása Laufey, Daníel Ágúst, sr. Aldís Rut og sr. Hjalti Jón
Skipulagt á staðnum og leikstýrt: Kristný Rós, sr. Ása Laufey, Daníel Ágúst, sr. Hjalti Jón og Nikulás Tumi
Glatt á hjalla og María hlær dátt...
Margt þurfti að ræða
Sr. Halti Jón lék hirði
Nikulás Tumi, sr. Ása Laufey, Daníel Ágúst og sr. Aldís Rut sem lék engil
Nikulás Tumi hagræðir upptökuvélinni
Engill hlær glaðlega
Jósef segir eitthvað spaklegt, vitringur kann vel við það sem og María
Jóhanna María lék vitring, sr. Ása Laufey og Daníel Ágúst