Viðtalið: KSH, KSS, KSF...

17. desember 2020

Viðtalið: KSH, KSS, KSF...

Úr starfinu - skjáskot úr Tengli

Það er alltaf áskorun að ná til ungs fólks með kristna trú. Þess vegna eru til samtök á borð við KFUM og KFUK. Reyndar hafa þau nánast alla aldurshópa innan sinna vébanda – en sjónum er einkum beint að ungu fólki.

En það eru líka önnur samtök sem kalla ungt fólk til liðs við sig. Það er Kristilega skólahreyfingin, eða KSH. Innan þeirrar hreyfingar eru tvö félög, annars vegar Kristilegt stúdentafélag (KSF) og í því er fólk frá tvítugu og upp í þrítugt. Svo er hins vegar KSS, Kristileg skólasamtök, og þau eru ætluð framhaldsskólanemum, sextán ára og upp í tvítugt. 

Innan KSS hefur verið mikill kraftur í tónlistarlífi enda er tónlistin einu sinni mikið sameiningarafl og ekki síst hjá ungu fólki.

Sigurður Már Hannesson er nýráðinn starfsmaður Kristilegu skólahreyfingarinnar. Það er hálft starf sem hann var ráðinn í og hann hóf störf um miðjan ágúst s.l. Hann er guðfræðingur að mennt og skrifaði lokaritgerð um Steinsbiblíu og um það má lesa hér.

Kórónuveirutíð breytir öllu. Ekki síst mörgu hjá ungu fólki.

Kristilega skólahreyfingin hefur lengi staðið fyrir tónleikum á aðventu. Hin margfræga kórónuveira bregður nú fæti fyrir þá tónleika en þá kemur krókur á móti bragði. Tónleikunum verðum streymt. Hlekkina má svo finna inni á heimasíðum samtakanna.

Kirkjan.is spyr Sigurð Má nánar út í málið.

„Já, við grípum til þessa ráðs eins og svo margir aðrir,“ segir Sigurður Már. „Við streymum 20. desember, kl. 17.00.“

Hann segir að viðburðurinn verði öllum aðgengilegur. Tónleikar KSH hafa gjarnan verið styrktartónleikar og því hvetur Sigurður Már öll þau sem vilja láta stuðning af hendi rakna að senda inn styrk. En mikilvægast sé þó að njóta tónleikanna.

Og hvað verður um að vera?

„Hljómsveit KSS og stjórn KSS munu láta ljós sitt skína á tónleikunum“, segir Sigurður Már með bros á vör, „en einnig koma fram aðrir meðlimir félagsins – allt ungt og hæfileikaríkt fólk á aldrinum sextán og upp í tvítugt.“

Dagskráin er að sjálfsögðu stútföll af sígildum jólalögum og þess á milli verða hressandi skemmtiatriði. Félagar í KSH hafa staðið undanfarna daga upp fyrir haus í undirbúningi fyrir tónleikana. Sigurður Már segir að þau hafi sýnt ótrúlegan dugnað og séu mikil tæknitröll.

En hvað gerir starfsmaður Kristilegu skólahreyfingarinnar? 

Sigurður Már svarar:
„Starfið mitt felst í stuttu máli í því að styðja við bakið á stjórnum aðildarfélaga Kristilegu skólahreyfingarinnar, þ.e.a.s. KSF (sem er í grunninn félag fyrir stúdenta á aldrinum 20-30 ára) og KSS (sem er félag fyrir ungt fólk á aldrinum 16-20 ára). Í kófinu hefur starfsemi KSF þó legið alfarið í dvala, en stjórn KSS hefur þó sýnt mikinn dugnað og streymt alla laugardaga frá fundum sínum. Þau eiga mikið hrós skilið fyrir það, enda allt sjálfboðaliðar, sem sinna svo námi og í sumum tilvikum hlutastarfi samhliða þessu öllu. - Mitt hlutverk er semsé að aðstoða þau þar sem ég get við að skipuleggja vikulega fundi og aðra viðburði – t.d. við að finna ræðumenn á fundina eða að flytja hugvekjur sjálfur. Þá er það einnig í mínum verkahring að sinna ýmsum tilfallandi verkefnum fyrir Kristilegu skólahreyfinguna sjálfa, til dæmis við útgáfu fréttablaðs hreyfingarinnar, Tengils.

Sigurður Már segist vinna með fjölda sjálfboðaliða og þá einkum þeim er starfa í stjórnun KSH, KSS og KSF (og nú reynir á lesandann að lesa úr skammstöfunum). Þessi stóri hópur sýni svart á hvítu að fólki þyki mjög vænt um hreyfinguna og vilji að vel sé staðið að starfsemi hennar.

„Starfsemin er því mjög blómleg,“ segir Sigurður Már, „Ég hef svo starfsaðstöðu á Holtaveginum, í húsakynnum KFUM og KFUK, þar sem ég vinn með fullt af flottu fólki, sem tekið hefur gríðarlega vel á móti mér.“ Hann segist vinna samhliða starfinu að æskulýðsmálum á vegum KFUM og KFUK í Ástjarnarkirkju í Hafnarfirði. „Það er óhætt að segja að þetta sé allt mjög góð reynsla fyrir mig,“ segir Sigurður Már.

Augljóst er að starf Kristilegu skólahreyfingarinnar er mikilvægt og aldrei fullþakkað.

„Það eru ekki margir möguleikar í boði fyrir ungt fólk á þessum aldri til að hittast og rækta sína trú saman, í samfélagi við jafningja sína,“ segir Sigurður Már og telur að það sé mikilvægt að sem flestum sé kunnugt um starf þessara samtaka, KSH.

„Ég heyrði það þegar ég byrjaði í guðfræðinámi á sínum tíma, að eitt stærsta vandamál kirkjunnar væri að halda fólki í þjónustu, frá því er það fermist og klárar æskulýðsstarfið, fram að því er það er komið á þann aldur að það lætur skíra börnin sín.“ Hann segir að það sé varla hægt að búast við því að ungt fólk (16-20 ára) hafi almennt vilja eða þolinmæði til að mæta í hefðbundna guðsþjónustu sem eru í boði úti í söfnuðunum.

„En svo komst ég að því í lok sumars að starfsemina sem brúar þetta bil er að finna í Kristilegri skólahreyfingu,“ segir hann fullur bjartsýni, og bætir við að lokum: „Þessu þurfum við að sinna vel, til að tryggja framtíð kirkjunnar okkar.“

hsh

Tengill


Sigurður Már Hannesson

Nýtt merki


  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Covid-19

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls