Kirkjan og hamfarir fyrir austan
Hamfarirnar á Seyðisfirði hafa ekki farið fram hjá neinum.
Það hvílir skuggi yfir mannlífinu þar eystra á aðventunni. Svona atburðir rétt fyrir jólahátíðina setja margt úr skorðum.
Kirkjan.is hafði samband við sr. Sigríði Rún Tryggvadóttur, prest og prófast, á Seyðisfirði.
„Hér eru allir óendanlega þakklátir fyrir að ekki varð manntjón,“ segir sr. Sigríður Rún. „En ástandið á Seyðisfirði er erfitt og þungt.“ Hún segir að hættustigi hafi verið lýst yfir og það sé uggur í fólki því að þetta vatnsveður hafi staðið yfir í nokkra daga. Það sjái vart fyrir endann á því.
„Heldur hefur bætt í rigningu og hreinsunarstarf gengur illa“, segir sr. Sigríður Rún. „Fólk er skekið og börnunum brugðið að uppgötva að heimilið er ekki öruggur staður.“
Þó nokkurt eignatjón hefur orðið og fólki er ekki heimilt að fara inn á hættusvæði og huga að eigum sínum segir sr. Sigríður Rún. Það sé mörgum ekki þrautalaust.
„Þetta er líka erfiður tíma af mörgum ástæðum,“ segir hún. „Þetta er dimmasti tími ársins og það birtir varla vegna úrkomunnar.“
Þetta setur auk þess strik í jólahald marga.
„En það er samhugur í Seyðfirðingum,“ segir sr. Sigríður Rún. Hún er með fasta viðveru í fjöldahjálparstöðinni í kringum matartímana. „Sömuleiðis kollegar mínir af Héraði og félagsþjónustan.“
Samráðshópur um áfallahjálp hefur komið að atburðum liðinna daga. Sr. Sigríður Rún segir að kirkjan hafi ekki verið opnuð, vegna samkomutakmarkana en kórinn mætti á æfingu í fyrsta sinn í gærkvöldi.
„Ég held að það hafi verið gefandi fyrir þær að koma saman og syngja jólalög,“ segir sr. Sigríður Rún. „Söngur er góður fyrir sálina.“
„Það er skrítið að finna svona áþreifanlega hvað við erum smá gagnvart náttúruöflunum,“ segir sr. Sigríður Rún. „Og ég bið og bið, fyrir söfnuðinum hér, fyrir þeim sem þurftu að yfirgefa heimili sín og okkur öllum.“
„Við tökum upp helgistund í kirkjunni á morgun,“ segir sr. Sigríður Rún. Stundin endurspeglar vissulega þessar aðstæður og það eru aðeins konur í kórnum. Karlmennirnir eru allir úti við í hreinsunar- og dælustörfum.
Sr. Sigríður Rún hefur staðið í ströngu og haft samband við mörg þeirra sem þurftu að yfirgefa heimili sín og standa höllum fæti. Sum af þeim eiga ekki bakland og eru af erlendu bergi brotin.
Þjóðin stendur við bakið á Seyðfirðingum í þessum hörmungum og biður þeim blessunar Guðs.
hsh