Viðtalið: Birtu brugðið yfir skugga
Öllum finnst sjálfsagt og eðlilegt að vera með sínum nánustu um jólahátíðina. Jólin enda ekki aðeins hátíð ljóss og friðar, trúar og kærleika, heldur og hátíð fjölskyldunnar. Sá tími þegar fólk vill vera umvafið sínum nánustu.
En sum hver þurfa að vera fjarri sínum nánustu á þessari hátíð. Og jafnvel enn fjær en venjulega nú um stundir vegna kórónuveirunnar.
Þetta á meðal annars við um þau sem eru á sjúkrahúsum.
Dr. Guðlaug Helga Ásgeirsdóttir er sjúkrahúsprestur þjóðkirkjunnar og hefur lengi starfað á þeim vettvangi. Hún segir helgihaldið á Landspítalanum verða með öðrum hætti á þessum jólum en hinum fyrri.
Það þarf varla að taka það fram að aðventan hefur einnig verið með öðrum blæ á spítalanum en áður og prestar og djákni hafa þurft að aðlaga sálgæsluleiðir sínar að þessum aðstæðum.
„Við eigum svo margt tónlistarfólk sem hefur komið á spítalann á aðventu og jólum og glatt sjúklinga, aðstandendur og starfsfólk með tónlist sinni,“ segir dr. Guðlaug Helga. Sú dýrmæta og þakkarverða þjónusta var fjarri að þessu sinni vegna sóttvarnaraðgerða. En hún segir að þeim skilaboðum hafi verið komið til þeirra að þau mættu svo sannarlega leita til tónlistarfólksins á næstu aðventu og jólum. „Við stefnum að sjálfsögðu að því,“ segir dr. Guðlaug Helga full tilhlökkunar enda eru öll búin að fá nóg af kórónuveirutrufluninni þó þolinmóð séu.
„Við sem störfum á vettvangi sálgæslu presta og djákna finnum glöggt hversu aðventan og jólin eiga sterkan sess í hugum fólks,“ segir dr. Guðlaug Helga. „Það er mikið leitað til okkar á þessum tíma og jafnvel meira en aðra daga ársins.“
Er einhver skýring á því?
„Vafalaust er hún sú að jólin og aðventan vekja með sér ákveðnar tilfinningar og hughrif,“ svarar dr. Guðlaug Helga. „Þetta er tími þar sem tengsl og samskipti við þau sem standa fólki næst eru svo dýrmæt og það er erfitt að vera að glíma við veikindi og áföll á þessum tíma.“
Hún segir að fólk leiði oft hugann til fyrri jóla sem það hefur upplifað og deili minningum sem geta bæði verið góðar og innihaldsríkar en einnig erfiðar og sársaukafullar. „Við sjúkrahúsprestar- og djákni á spítalanum skrifuðum einmitt stutta grein sem birtist á visir.is þar sem við fjölluðum um jólin á spítala,“ segir dr. Guðlaug Helga.
En í hverju felst sálgæsla sjúkrahúspresta- og djákna?
„Það er fyrst og fremst samfylgd með fólki á erfiðum tímum í lífi þess,“ svarar dr. Guðlaug Helga. „Samfylgdin byggir á nærveru sem einkennist af virðingu, trúnaði og umhyggju fyrir hverri manneskju og aðstæðum hennar.“
Hún segir að samtölin geti verið margs konar og snúist um mikla tilvistarkreppu fólks og markmiðsleit í lífinu. Stundum sé þó bara setið í þögninni og um leið fái djúpar og sárar tilfinningar ákveðinn farveg. Þjónustan sé alltaf veitt á forsendum þeirra sem hana þiggja. „Í því felst samfylgdin meðal annars,“ segir dr. Guðlaug Helga.
Þá segir hún að þau sinni fjölskyldum í aðdraganda andláts eða við andlát og veiti sálgæslu með ýmsum hætti og hafi um hönd sérstaka kveðjustund við dánarbeð. „Okkar faglega þekking er á sviði guðfræði og menntunar í áfalla- og sorgarvinnu, handleiðslufræðum og fjölskyldumeðferð,“ segir dr. Guðlaug Helga.
Flest breyttist með veirunni
Sjúkrahúsprestar- og djákni urðu eins og annað starfsfólk að beygja sig fyrir breyttum aðstæðum á sjúkrahúsinu. Það hafði töluverð áhrif á þjónustuna og brá öðrum svip yfir hana enda þótt hún breyttist ekki í eðli sínu.
„Við erum klædd í spítalaföt frá toppi til táar,“ segir dr. Guðlaug Helga, „setjum upp maska eins og annað starfsfólk og jafnvel hanska.“ Þau þeirra sem hafi sinnt kóvid-sjúklingum hafi síðan þurft að fara í sérstakan klæðnað.
„Jól á spítala hafa verið stór hluti af lífi mínu,“ segir dr. Guðlaug Helga. „Á bernsku- og unglingsárum ólst ég upp við það að jólin hjá mér og minni fjölskyldu hófust á spítala. Ég man eftir mér frá blautu barnsbeini þar sem ég fylgdi föður mínum í jólahelgihald en hann starfaði sem læknir lengstum á Grensásdeild en einnig í Svíþjóð. Það eru dýrmætar minningar og ég þrátt fyrir í fyrstu ungan aldur fann vel að jólin koma einnig til þeirra sem dveljast á sjúkrastofnunum. Síðustu rúm 20 ár hef ég síðan notið þeirra forréttinda að fá að byrja jólin á líknardeildinni. Í ár mun ég fara á deildina og heilsa upp á sjúklingana sem þar dvelja um jólin og aðstandendur þeirra.“
En hvað með eftirfylgd með sjúklingum og aðstandendum?
„Hún hefur að miklu leyti farið fram í gegnum símaviðtöl,“ svarar dr. Guðlaug Helga.
Hún segir að þrátt fyrir allar sóttvarnaraðgerðir og þær skorður sem þær hafi sett þeim í sambandi við að hitta fólk með sama hætti og áður þá geti þau sinnt samfylgdinni og staðið við hlið annarrar manneskju á viðkvæmum og erfiðum tíma í lífi hennar.
Það er gjarnan sagt svo að jólahátíðin komi hvernig svo sem stendur á í lífi fólks. Hátíðin gengur í garð þegar klukkur hringja inn jólin á aðfangadagskvöld. Sá klukknahljómur berst um allt. Líka inn á spítalana og þá eru jólin komin. Hvernig svo sem stendur þar á í lífi fólks: sjúklinga sem starfsfólks.
Boðskapurinn sem er einstakur:
„Ljósið, friðurinn og samkenndin eru allt gildi sem tala sterkt inn í mannlegar aðstæður og ekki síst þegar verið er að takast á við erfið veikindi og áföll,“ segir dr. Guðlaug Helga. „En það erfiðasta er líklega það að geta ekki verið í sínum eigin aðstæðum, á sínu eigin heimili.“
Glíma við veikindi og öryggisleysið taki á alla sem og að horfast í augu við takmarkaðan tíma með fjölskyldu og nánum vinum.
„Það er einstakt að vinna á jólum á spítalanum þegar hann er í hátíðarbúningi eins og hægt er ef svo má segja,“ segir dr. Guðlaug Helga. Þá sé góður hátíðarmatur borinn fram og starfsfólk spítalans leggi sig í framkróka með að skapa hlýlegt og notalegt andrúmsloft.
Dr. Guðlaug Helga segir að stundirnar sem hún hafi átt með sjúklingum, aðstandendum og starfsfólki bæði á aðventu og á aðfangadag í kapellu líknardeildar séu einstakar. Þær skipti fólk gífurlega miklu máli. „Þau sem geta taka undir jólasálmana okkar og sérstaklega Heims um ból,“ segir hún og bætir við að þá verði helgi jólanna með einhverjum hætti svo áþreifanleg og öll viðstödd sameinist um það sem skipti máli.
hsh