Viðtalið: Jólamynd í skólaglugga

23. desember 2020

Viðtalið: Jólamynd í skólaglugga

Jólaglugginn í Laugarnesskóla er mikið listaverk og hverfisprýði

Þegar gengið er framhjá Laugarnesskóla Kirkjuteigsmegin á aðventunni blasir við glæsilegt listaverk í stærsta glugga skólans. Þetta eru myndir þar sem margvísleg jóla- og kirkjustef koma fram - til dæmis kerti og engill. Já, og að ógleymdri Maríu og Jósef. Upp úr miðri myndinni rís feiknalega stór Betlehemsstjarna. Þetta kemur mjög vel út þar sem glugginn er hár og breiður svo einna helst minnir á steindan kirkjuglugga.

Það var haustið 1935 sem Laugarnesskóli tók til starfa og hann telst því með grónustu skólum borgarinnar. Húsið er fallegt og við það hefur verið byggt.

Laugarnesskóli í Reykjavík hefur svo áratugum skiptir skreytt nokkurra metra háan glugga í sal skólans með fallegum myndum. Þetta er sterk jólahefð í skólanum.

Kirkjan.is heilsaði upp á tvo kennara í Laugarnesskóla sem vita sitthvað um þessar fallegu myndir. Það eru þau Vignir Ljósálfur Jónsson, bókasafnskennari, og Sólborg Gunnarsdóttir, fyrrum myndmenntakennari en nú umsjónarkennari.

„Engin myndanna er upprunaleg,“ segir Sólborg Gunnarsdóttir þegar spurt er út í aldur þeirra „þær hafa verið endurnýjaðar á svona þriggja til fimm ára fresti“.

Þau segja að jólaglugginn – sem þau kalla svo – hafi verið með ýmsum myndum í þessum mörgu gluggum – en tekið smávægilegum breytingum frá því í upphafi. En alltaf hefur meginstefið haldist sem eru þau María og Jósef ýmist með jesúbarnið nýfætt eða á leið til Betlehem. Og stjarnan góða sem eitt sinn skein yfir bænum Betlehem hefur verið í forgrunni – í raun eins og allt streymi út frá geislum hennar.

Myndirnar eru gerðar úr silkipappír. „Það er viðkvæmur pappír og rifnar við minnsta hnjask,“ segir Sólborg. Myndmenntakennarar skólans hafa haft það á sinni könnu að gera við myndir sem skemmast og endurnýja ef þarf. „Myndirnar liggja við gluggana og það myndast móða og raki innan á þeim sem hefur áhrif á pappírinn,“ útskýrir Vignir Ljósálfur. Það er því mikilvægt að fylgjast með myndunum.

Oft hefur þurft að lagfæra myndirnar með því líma yfir skemmdir eða þá að endurnýja þær í svipuðum dúr. „Þó var brugðið út frá nokkrum þeirra í lok tíunda áratugar síðustu aldar,“ segir Vignir Ljósálfur. „Þá þurfti að endurnýja nokkrar myndir í hornunum og settum við svona rósamyndir sem minna á skreytingar í Notre Dame dómkirkjunni í París“.

Bjart er yfir Betlehem
„Svo má bæta þeim fróðleiksmola við,“ segir Vignir Ljósálfur, „að þegar morgunsöngurinn var tekinn upp hér í skólanum árið 1951 að frumkvæði Ingólfs Guðbrandssonar (1923-2009), tónlistarfrömuðar og kennara, þá var hér kennari nokkur við skólann sem orti mörg ljóð sem voru sungin.“ Þetta var Ingólfur Jónsson (1918-1993), sem kenndi sig við Prestbakka. „Hann orti ljóðið eða sálminn Bjart er yfir Betlehem,“ segir Vignir Ljósálfur, „og það var sungið hér í fyrsta sinn undir glugganum fallega.“

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um að þessi texti kennarans í Laugarnesskóla hefur farið sigurför um landið. Hitti svo sannarlega í mark.

Þjóðin þekkir þennan texta og börn eru sérstaklega hrifin af honum. Hægt er að hlusta á lag og texta hér neðar.

Þau í Laugarnesskóla eru stolt af jólaglugga sínum og ríkri sönghefð.

En hvenær eru myndirnar í glugganum settar upp?

„Þær eru settar upp fyrir fyrsta sunnudag í aðventu hvert ár,“ segir Sólborg. „Í fyrstu voru notaðir stigar og því að hæstu gluggarnir eru býsna hátt uppi,“ segir Vignir Ljósálfur. „Kennarar fikruðu sig upp stigana og settu myndirnar í af mikilli varfærni.“ Hann segir að þetta hafi auðvitað verið varasamt og félli einhver úr stiga þá gat það verið býsna hátt fall. „Stundum voru sett gúmmístígvél undir stigafæturna til að þeir yrðu stamari og stöðugri fyrir vikið,“ segir Vignir Ljósálfur. „Einum kennara fannst þetta vera mikið hættuspil og kom eitt árið þegar setja átti myndirnar upp með sigbúnað,“ segir Sólborg. Þetta var Guðmundur nokkur Finnbogason. Og þó hann sé hættur störfum við skólann þá mætir hann alltaf með sinn búnað til að setja myndirnar upp. „Það tekur ekki nema um klukkutíma,“ segir Sólborg, „en áður tók þetta marga klukkutíma.“

Þegar myndirnar eru komnar upp og börnin koma í skólann er vakin athygli á þeim í morgunsöngnum. Þau barnanna sem eru nýkomin í skólann hafa ekki séð þær en þau eldri hafa séð þær. En alltaf er hrifning barnanna söm. Þegar myndirnar eru komnar í gluggana vita þau að stutt er til jóla. Allt tekur á sig jólablæ í skólanum þeirra.

Og allt starfslið skólans er líka ánægt með gluggann sem er einstakur í sinni röð.

Í lok jóla eru svo myndirnar teknar niður. Það er sama vinnan og að setja þær upp – og áðurnefndur hollvinur skólans og fyrrum kennari kemur með sigbúnaðinn! Varlega eru myndirnar teknar úr gluggunum, ein af annari og staflað upp. Síðan er þeim komið fyrir í geymslu skólans þar sem þær bíða næstu jóla.

Þetta er dæmi um hefð. Góða jólahefð. Sem hefur staðið yfir í meira en hálfa öld.

Laugarnesskóli státar af ýmsum listmunum. Hann á gott listasafn eftir Jóhann Briem sem sjá má á göngum skólans en hann var myndmenntakennari þar í mörg ár. Grindverk í kringum svalir í sal skólans er eftir Ásmund Sveinsson. Eins er í sal skólans náttúrgripasafn í glerskápum þar sem geymd eru mörg framandi dýr og fjöldi þeirra er uppstoppaður. Auk þess er byggingin falleg og ber tíma sínum fagurt vitni, bæði gamla byggingin og sú nýja.

Og þegar kirkjan.is kveður kennarana með fallegu nöfnin, Sólborgu og Vigni Ljósálf, og þakkar fyrir sig, óma að sjálfsögðu um allan skólann fjörlegar raddir æskunnar eins og vera ber í þessu húsi. Börnin eru náttúrlega mesta gersemin sem skólinn á og við öll. Þess vegna er gott til þess að vita að þau séu umvafin fallegu skólahúsnæði, góðum kennurum og jólaglugganum stóra.

hsh


Vignir Ljósálfur og Sólborg


Jólaglugginn að innan


Miðjumynd jólagluggans að innanverðu


Ein af mörgum myndum Jóhanns Briem sem prýða veggi skólans


Hér má svo hlýða á Bjart er yfir Betlehem sem ómaði fyrst í Laugarnesskóla fyrir margt löngu





  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Fræðsla

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls