Stutta viðtalið: Hótel Skálholt

4. janúar 2021

Stutta viðtalið: Hótel Skálholt

Fagurt er í Skálholti

Fólk horfir bjartsýnum augum til ársins sem gengið er í garð og vonar að böndum verði komið á kórónuveirufaraldurinn. Takist það mun þjóðlífið færast smám saman í hefðbundinn takt en þó með einhverjum breytingum eins og gengur. Miklu máli skiptir að allt athafnalíf og allur menningarrekstur nái sér sem fyrst á strik. Og að hin frægu hjól atvinnulífsins fari að snúast.

Um mitt síðasta ár var nýtt hótel skráð hjá Fyrirtækjaskrá. Það eitt og sér sýnir bjartsýni og fyrirhyggju á þeim tíma þegar ferðamenn eru sem sjaldséðir hvítir hrafnar miðað við það sem áður var. En nýja hótelið er á sögufrægum stað. Í Skálholti. Og það er komið árið 2021!

Lengi hefur verið rekin veitingasala í Skálholti og einnig gistirekstur.

Það eru Sigurbjörg Bjarney Ólafsdóttir sem er í forsvari fyrir veitinga- og gististarfsemi í Skálholti undir heitinu: Hótel Skálholt.

Sigurbjörg kom til starfa í Skálholti 1. ágúst s.l. Hún hefur reynslu af margvíslegum rekstri og var mannauðsstjóri hjá Landgræðslu ríkisins í Gunnarsholti áður en hún réðist til Skálholts.

„Við skrifuðum undir starfssamning rétt áður en seinni bylgja kórónuveirufaraldursins skall á,“ segir Sigurbjörg en kófið hefur vitaskuld sett svip sinn á allt starf í Skálholti eins og annars staðar.

Kirkjan.is óskar henni til hamingju með nafnið á nýja rekstrinum, Hótel Skálholt. Það var skráð formlega 19. júní s.l. – sem er kvenréttindadagurinn. Einhver tenging við það? spyr kirkjan.is.

„Ja, svona óbeint,“ svarar Sigurbjörg glaðlega, „það var svona í bakþankanum að ég sem kona væri að taka til starfa á þessum vettvangi.“ Hún bætir því svo við að afi hennar hafi átt afmæli þennan dag og við það séu góðar minningar bundnar.

En verða einhverjar breytingar á veitingarekstrinum?
„Það er í bígerð að skipuleggja matseðilinn út frá hollustusjónarmiðum og hafa til dæmis veglegan salatbar í hádeginu með sem mestu af hráefni frá garðyrkjubændum í héraðinu,“ segir Sigurbjörg. Auk þess er hún að velta fyrir sér ýmsum temum á matseðlinum eins og svo kölluðum biblíumat. Það er því margt á döfinni og hún full af framkvæmdahug. Hún leggur líka áherslu á að mikilvægt sé í öllum rekstrinum að halda fast við sérstöðu Skálholts sem kirkju- og menningarseturs þjóðarinnar.

Sigurbjörg er bjartsýn og full atorku. Henni finnst árstalan 2021 vera glæsileg tala og horfir full tilhlökkunar til ársins og vonar eins og aðrir að vel takist til með að ráða niðurlögum kórónuveirunnar með bólusetningu.

Skálholt

Heimasíða Skálholts

hsh









  • Menning

  • Nýjung

  • Samfélag

  • Skipulag

  • Frétt

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls