Þrettándi dagur jóla

6. janúar 2021

Þrettándi dagur jóla

Sr. Sigurður Ægisson

Í dag er þrettándi dagur jóla, 6. janúar. Sá dagur var fyrrum talinn fæðingardagur Krists og kallaður opinberunarhátíð vegna þess. Síðan festist um tíma nafnið gömlu jólin á þrettándann og margir töldu þrettándanóttina vera öðrum nóttum magnaðri. En það er önnur saga.

Þrettándinn og vitringar þrír. Það er nátengt.

Kirkjan.is sló á þráðinn til séra Sigurðar Ægissonar, sóknarprests og þjóðfræðings, á Siglufirði og spurði hann ögn út í þrettándann og sitthvað er honum tengist.

„Sagan af vitringum þremur frá Austurlöndum er náttúrlega meðal þekktustu frásagna Biblíunnar,“ segir sr. Sigurður, „og þá frásögn er að finna hjá Matteusi guðspjallamanni.“

Frásögn Matteusar
Þegar Jesús var fæddur í Betlehem í Júdeu á dögum Heródesar konungs komu vitringar frá Austurlöndum til Jerúsalem og sögðu: „Hvar er hinn nýfæddi konungur Gyðinga? Við sáum stjörnu hans renna upp og erum komnir að veita honum lotningu.“ (2.1-2)

Og stjarnan, sem þeir sáu austur þar, fór fyrir þeim uns hana bar þar yfir sem barnið var. Þegar þeir sáu stjörnuna glöddust þeir harla mjög, þeir gengu inn í húsið og sáu barnið og Maríu, móður þess, féllu fram og veittu því lotningu. Síðan luku þeir upp fjárhirslum sínum og færðu því gjafir, gull, reykelsi og myrru. (2.9-11)

„Matteusi guðspjallamanni fannst greinilega heimsókn þessara manna úr austri vera afar mikilvæg,“ segir sr. Sigurður. Hann segir vitringana vera fyrst og síðast tákn fyrir heiðingjana sem fagna komu sonar Guðs. „Þeir lúta honum í auðmýkt,“ segir sr. Sigurður, „Jesús er ekki bara Messías Gyðinga heldur allra manna.“ Hann bendir á að hinar frægu gjafir, gull, reykelsi og myrra, varpi sérstöku ljósi á frásögnina: Þetta voru dýrar gjafir, lúxusgjafir, sem sögðu mikið til um þá sem gáfu og ekki síst um virðingu fyrir þeim sem fékk þær að gjöf.

Herra Jón Vídalín mælir svo í Vídalínspostillu á þrettánda degi jóla
Samt lét Guð hann ekki aldeilis hjálparlausan heldur sendi þessa ókenndu menn af fjarlægu landi til að bæta hans nauðþurft og hans fátækrar móður.

Hann sendi þessa framandi menn svo sem í umboði heiðingjanna til að hylla þennan nýfædda konung yfir sig, til þess að hann drottna skyldi til ystu veraldarinnar endimarka. (R. 1995, bls. 147).

Sr. Sigurður segir þessa menn sem færðu Jesúbarninu gjafirnar frægu hafa alltaf verið kallaða vitringa í öllum íslensku biblíuútgáfunum, allt frá Guðbrandsbiblíu og til Biblíunnar frá 2007. Hann segir þá hins vegar gjarnan kallaða Austurvegskonunga í ýmsum íslenskum heimildum – til dæmis í Íslensku hómilíubókinni.

Og hvaðan komu þessir ágætu menn, spyr kirkjan.is.

„Um það eru menn nú ekki á einu máli,“ svarar sr. Sigurður, „höfundur Matteusarguðspjalls veit aðeins að þeir komu úr austri og þekktu himintungl og gátu ráðið í gang þeirra.“ Hann segir að í ljósi þess komi margar austrænar þjóðir til greina enda hafi stjörnuspeki átt þar djúpar rætur, til dæmis í Arabíu.

Stundum hefur verið talað um vitringana undir nöfnunum Kaspar, Melkíor og Baltasar. Þeir voru dýrkaðir sem dýrlingar og þrettándadagurinn tengdur þeim með því að kalla hann þriggjakonungadag. Enn eru víða búin til þriggja arma kerti í tilefni þrettándans sem ganga upp úr einum stofni til að minna á þessa þrjá kónga. Hins vegar segir Matteus guðspjallamaður ekki að þessir gestir hafi verið þrír – aftur á móti færðu þeir barninu þrjár gjafir svo sem frægt er.

Í lokin má svo benda á að orðatiltækin að rota jólin og að spila út jólin tengjast síðasta degi jóla. Þá var oft mikið umstang á bæjum, setið lengi við spil og afgangar frá jólum hesthúsaðir.

hsh


Jólablað Alþýðublaðsins 1961 (Tekið úr Jólavöku Jóhannesar úr Kötlum, R. 1945, bls. 26)


Þriggja arma kerti fyrir þrettándann



  • Guðfræði

  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Frétt

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls