„...gefandi og uppbyggjandi...“
Tónskóli þjóðkirkjunnar og söngmálastjóri láta ekki kórónuveirufaraldur bregða fæti fyrir skóla- og námskeiðahald. Þegar naprir vindar hvína á þorra og góu er tilvalið að skella sér á námskeið og auka færni sína.
Nú er blásið til átta vikna einkanámskeiða og hefjast þau 1. febrúar og lýkur þeim 29. mars.
Og hvað stendur til boða?
Margrét Bóasdóttir, söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, svarar því:
„Raddbeiting er alltaf ofarlega á blaði og þar erum við með framúrskarandi kennara eins og í öllu, þær Sigríði Ósk Kristjánsdóttur og Laufeyju Helgu Geirsdóttur. Kennarar Tónskóla þjóðkirkjunnar sjá um kennslu í orgelleik og Gunnar Gunnarsson, er með hljómsetningu á sinni könnu sem og leik eftir bókstafshljómum.“
„Hver kennslustund stendur yfir í 45 mínútur og um er að ræða átta skipti,“ segir Margrét. Kennarar og nemendur velja tíma kennslustundarinnar og námskeiðið kostar kr. 64.000 og vekur Margrét athygli á því að stéttarfélög greiða námskeið af þessu tagi eða styrkja þau.
Umsóknarfrestur er til föstudagsins 29. janúar og umsókn sendist á netfang: tonskoli@tonskoli.is
Sigríður Ósk Kristjánsdóttir, mezzosópran, er reynslumikil söngkona og söngkennari ásamt því að vera píanókennari.
Laufey Helga Geirsdóttir er söngkennari Tónskólans og hefur þjálfað bæði kórsöngvara og einsöngvara.
Orgelkennarar koma úr röðum kennara Tónskólans.
Gunnar Gunnarsson, organisti, er landsþekktur fyrir þátttöku sína í kirkjulegri tónlist, spunatónlist og að útsetja fyrir kóra. Hann er einn þeirra sem hljómsetur sálma nýrrar sálmabókar.
Þau sem sótt hafa fyrri námskeið láta vel af þeim:
„Ég er mjög sátt með námskeiðið í heild sinni að öllu leyti. Þetta var góð raddþjálfun og skemmtilegir tímar.“
„Að mörgu leyti krefjandi en gefandi og uppbyggjandi.“
„Undir hennar leiðsögn hef ég náð að tileinka mér meiri mildi og léttleika í hátíðartóni Bjarna Þorsteinssonar og vera meðvituð um hvað það er sem hjálpar mér .....auk hátíðartónsins unnum við líka með íslensk sönglög til að finna á hvern hátt röddin mín nýtur sín best, bæði í tali og tónum. Ég mæli hiklaust með þessu námskeiði...“