Hin hliðin: Listamaður, prestur...
Það hefur alltaf blundað listræn taug í honum. Hann hefur málað frá árinu 1996 og haldið nokkrar sýningar. Nú stendur yfir sýning á verkum hans í Hafnarfjarðarkirkju. Það eru trúarleg verk með rætur í stefjum Davíðsálma sem hann vann í Myndlistarskóla Kópavogs undir handleiðslu Sigtryggs Bjarna Baldvinssonar, listmálara.
Hann er kominn í hálft starf og þjónar eins og sakir standa í Hafnarfjarðarkirkju. Býr senn í Kópavogi á efstu hæð í fjölbýlishúsi og mun sjá vítt til hafs og fjalla.
Þau voru nærri því þrjátíu og fjögur árin á Húsavík. Það voru reynslumikil og gefandi þjónustuár í þjóðkirkjunni.
Kirkjan.is leit við hjá sr. Sighvati Karlssyni, sérþjónustupresti, þar sem hann var að mála í Myndlistarskóla Kópavogs.
„Þetta er mjög góð aðstaða hér,“ segir sr. Sighvatur, „birtan streymir hér í gegn og það er hátt til lofts.“
Hann segist hafa farið áður en kórónukófið skall á með fullum þunga á nokkra fyrirlestra hjá kollega sínum, sr. Sigurði Árna Þórðarsyni í Hallgrímskirkju, en hann var að fjalla um vatnið. „Ég varð alveg uppnuminn,“ segir sr. Sighvatur, „þetta var mjög gefandi og ég ákvað að leiða vatnið sem tema inn í myndir mínar.“ Hann bendir á mynd af samversku konunni við brunninn, himinblár depill á góðum stað á myndfletinum dregur augað til sín. „Svo er það þessi,“ segir hann og bendir á mynd þar sem bók nemur við hafsbrún og hendur halda utan um hana. „Biblían er vatn,“ sagði sr. Sigurður Árni í einum fyrirlestra sinna, „og ég sá þessa mynd í hendi minni ef svo má segja.“
Vatnið er alls staðar í kringum okkur, satt er það. Það er lífið. Og listin.
Sr. Sighvatur var að mála í stórum sal og þar var fleira fólk. Sumt af því hafði haft bækistöð sína í skólanum í mörg ár. Myndlistarskóli Kópavogs býður upp á námskeið fyrir fólk á öllum aldri. Frístundamálarar og aðrir geta leigt þar aðstöðu og fengið leiðsögn aðra hverja viku en þá kemur leiðbeinandi sem fer á milli trana listamannanna og gefur góð ráð sem vel eru þegin. Í haust naut Sighvatur leiðsagnar Svanborgar Matthíasdóttur.
Reyndar var sr. Sighvatur ekki að mála vatnstema mynd þegar kirkjan.is staldraði við hjá honum í gær. Það var karlinn á kassanum á Lækjartorgi. Stóð á kassa og prédikaði orð Guðs í asa smábæjarins, eða eins og oft var sagt: ofvaxna fiskiþorpinu við Faxaflóa, á fjórða áratug síðustu aldar. „Ég nota pallettuhnífa við gerð þessarar myndar,“ segir sr. Sighvatur. Eins og sjá má hér fyrir neðan þá er myndin enn í sköpun og spennandi verður að sjá hvað kemur út.
Rétt er að margar hliðar eru á hverjum einstaklingi. Þetta er hin hliðin á prestinum sr. Sighvati. Sköpunarkrafturinn og myndgleðin leyna sér ekki þar sem hann stendur við trönurnar í bláa vinnusloppnum sínum með hattinn fræga. Og að sjálfsögðu var hann höfuðpaur Hattafélags Húsavíkur! Hann er að velta fyrir sér að stofna deild í félaginu á höfuðborgarsvæðinu!
„Svo verður náttúrlega haldin sýning,“ segir sr. Sighvatur. Hvenær? Tíminn er afstæður og það verður einhvern tímann og sá tími er með þeim skemmtilegri. En hann kemur. Það er nefnilega það sem gerir hann spennandi þegar hann er í fæðingu.
Já, þetta einhvern timann!
hsh
Tveir prédikarar ...
Biblían er vatn
Jesús og samverska konan við brunninn - geometrian hefur alltaf heillað listamanninn
Pallettuhnífar og hin skapandi hönd ...
Þegar gengið er inn í Myndlistarskóla Kópavogs blasir þetta listaverk við á vinstri hönd og vísar í hina frægu Pietahöggmynd Michelangelo (1475-1564) sem sjá má í Péturskirkjunni í Róm - þessi er eftir Andreu Haralds og er gerð úr pappamassa - en Michelangelo notaði marmara frá Carrara