Hvað finnst þér um kirkjuna?
Í gær kynnti danska þjóðkirkjan niðurstöður úr könnun þar sem leitað var eftir viðhorfi fólks til kirkjunnar og hvernig þjónusta hennar kæmi fyrir augu þeirra er hennar njóta.
Könnunin ber einfaldlega heitið Danir og þjóðkirkjan 2020, og var unnin af viðurkenndu og virtu fyrirtæki (Norstat Danmark A/S) fyrir Fræðslu- og þekkingarsetur dönsku þjóðkirkjunnar (Folkekirkens Uddannelses- og Videnscenter.) Markmiðið var að kanna hvernig Danir nýttu sér þjónustu kirkjunnar á síðasta ári og hvernig sambandi þeirra við hana væri háttað. Stefnt er að því að svona könnun fari fram árlega.
Spurt var um eitt og annað í könnuninni. Til dæmis um hug fólk til guðsþjónustunnar og helgihalds. Um 52% töldu upplifun sína af síðustu guðsþjónustu sem þau sóttu vera jákvæða, og 64% voru mjög jákvæð gagnvart síðasta kirkjubrúðkaupi sem þau voru viðstödd, sem og skírn og fermingu. Þá var reynt að komast að því hve mörg sæktu þessa þjónustu kirkjunnar.
Meginniðurstöðurnar eru þær að fólk er afar jákvætt gagnvart kirkjunni í nærumhverfi sínu, sóknarkirkju sinni. Og fólk treystir henni. Víða er gott samband milli sveitarfélaga og kirkjunnar og samvinna í ýmsum málum og þá einkum þeim er tengjast skólum og menningarstarfi.
Starf kirkjunnar er fjölbreytilegt og fólk kann að meta það. Þjónusta presta og djákna, sálusorgun, guðsþjónustur, foreldrastarf, barna- og æskulýðsstarf, eldriborgarastarf, og þannig mætti lengi telja það sem sóknarkirkjur bjóða sínu fólki. Um 50% aðspurðra töldu að kirkjan hefði mikilvægu hlutverki að gegna í sókninni, aðeins 2% töldu svo ekki vera. Það voru um 30% sem töldu hugsanlegt að þau myndu ræða við prest ef persónuleg vandamál kæmu upp í lífi þeirra. Svo voru það 20% sem sögðust sannarlega myndu tala við prest ef persónuleg vandamál létu á sér kræla. Þetta síðastnefnda sýnir að Danir eru tilbúnir til að sækja sálusorgun til kirkjunnar þegar þannig stendur á.
Könnunin ber óneitanlega svipmót skertrar starfsemi kirkjunnar á liðnu ári en við því var að búast. Til dæmis voru aðeins 40% svarenda í einhvers konar sambandi við þjóðkirkjuna árið 2020 - mun færri en áður og þar er kórónuveirufaraldrinum um að kenna.
Danska þjóðkirkjan er að sjálfsögðu afar ánægð með niðurstöðuna þegar kemur að traustsmælingu en 68% treysta kirkjunni mjög svo.
Svör við spurningum bárust frá 1031 einstaklingi og telja þau sem eru í fyrirsvari fyrir málið svörin vera 95% örugg og að skekkjumörkin séu +-3,1 %. Svarhlutfall milli kynja var: Karlar 46% og konur 54%. Flest - eða 22% - þeirra sem svöruðu voru á aldrinum 18-29 ára.
Forvitnilegt væri að kanna hug Íslendinga til þjóðkirkjunnar með svipuðum hætti.
Til dæmis þetta
* Hefur þú séð eða heyrt umfjöllun um þjóðkirkjuna í öðrum miðlun en hennar eigin á árinu 2020?
* Varstu í einhverju sambandi við þjóðkirkjuna árið 2020?
* Sóttirðu guðsþjónustu þjóðkirkjunnar á aðfangadag 2020? En 2019?
* Varstu við skírn, brúðkaup, útför eða fermingu á vegum þjóðkirkjunnar árið 2020?
* Hve oft fórstu í guðsþjónustu þjóðkirkjunnar árið 2020?
* Hve oft tókstu þátt í viðburðum á vegum þjóðkirkjunnar 2020?
* Hve oft nýttir þú þér rafrænt tilboð frá þjóðkirkjunni 2020?
* Sástu efni frá þjóðkirkjunni á samfélagsmiðlum árið 2020?
* Hvernig upplifðir þú síðustu guðsþjónustu þjóðkirkjunnar sem þú tókst þátt í á árinu 2020?
* Hvar fékkstu upplýsingar um þjóðkirkjuna?
* Telur þú að helgisiðir þjóðkirkjunnar séu hluti af danskri hefð?
* Einnig var spurt um upplifun af þátttöku í skírnarathöfn, brúðkaupi, útför og fermingu.
Kristeligt Dagblad / Folkekirkens Uddannelses- og Videnscenter / hsh