Er einhver þarna úti?

6. febrúar 2021

Er einhver þarna úti?

Tölur segja marg og ýmislegt er hægt að lesa út úr þeim

Svo sem kunnugt er hefur kirkjustarf leitað inn á brautir streymis á netinu þar sem fjöldatakmarkanir og nálægðarreglur hafa sett hefðbundið starf úr skorðum.

Fjöldi kirkna hefur streymt efni með ýmsu móti á netinu. Á Feisbók, heimasíðum, youtube og víðar. Segja má að gróska í kirkjunetstarfi hafi verið ótrúlega mikil. Þjóðkirkjan varð mjög sýnileg og brást við gerbreyttum aðstæðum með kröftugum hætti og ekki síst í ljósi þess að kirkja er samfélag fólks augliti til auglitis í raunheimum en skyndilega voru þau tengsl rofin að mestu og samfélaginu vísað í netheima.

Sú umræða vaknar oft hve mikið sé horft og hlustað á efnið. Margir hafa efasemdir um að horft sé til enda á streymið. Aðrir segja jújú. Enn aðrir segja að menn valhoppi eða velji sér búta úr myndbandsefninu. Þetta sé eðli miðla af þessum toga. Nú, svo benda nú aðrir á það að engin trygging sé fyrir hendi að sá eða sú sem sitji á kirkjubekk hlusti eða fylgist með. Hann eða hún getur setið á bekknum í sínum draumaheimi. Enginn veit neitt af því. Og kannski kemur engum það heldur við. Það er önnur saga.

En er hægt að gera sér einhverja mynd af því hvernig hið mikla streymi á kirkjuefni á síðasta ári hefur skilað sér?

Margrét Hannesdóttir, verkefnastjóri á Biskupsstofu, hefur skoðað þessi mál en það er nokkuð tímafrek vinna þar sem halda þarf utan um á annað þúsund færslur. Kirkjan.is ræddi við hana um málið.

Margrét tók saman upplýsingar um áhorf á myndbönd fyrir tvö tímabil: 13. mars 2020 -15. maí 2020 og 1. nóvember 2020-5. janúar 2021, sem sett voru á heimasíður og Feisbókarsíður prestakalla og kirkna.

Smám saman tóku prestaköllin við sér - góðir hlutir gerast líka hægt! Þátttaka í streymi var 67% á fyrra tímabilinu og fór upp í 92% um jólahátíðina – á seinna tímabilinu sem skoðað var. Bæði tímabilin voru auðvitað umgirt af kórónuveirukófi, fjöldatakmörkunum og nálægðartakmörkunum.

„Þetta var mikill fjöldi myndbanda og ef meðaltal er skoðað fyrir hefðbundinn mánuð sem stórhátíðir falla ekki inn í þá voru sendar út í hverjum mánuði um 140 helgistundir, 31 barnastund, 55 hugvekjur og 30 kyrrðar- og bænastundir. ,“ segir Margrét. Þess má geta að samtals eru sjötíu prestaköll í landinu.

„Það sást strax að nethelgistundirnar skiluðu góðu áhorfi og má nefna að sú barnastund sem mest var horft á á fyrra tímabilinu mældist með tæplega 20.000 áhorfendur. Að meðaltali voru svo 2778 áhorf á hvert myndband af páskaguðsþjónustu sem 29 prestaköll settu á netið,“ segir Margrét.

Á aðfangadag voru áhorfin 1463 að meðaltali á hverja aðfangadagsstund sem 48 prestaköll birtu á netinu og mátti sjá í athugasemdum færslnanna við myndböndin á Feisbók að brottfluttir heimamenn voru ánægðir með að geta notið helgistundar í gömlu kirkjunni sinni.

En hvenær er áhorf mælt sem áhorf?

Áhorf og ekki áhorf
„Feisbók skráir áhorf eftir þrjár sekúndur og youtube eftir hálfa mínútu,“ segir Margrét. Í því geti margt falist og þar með að sjálfsögðu áhorf til enda. Sem fyrr skiptir mestu máli að ná athygli áhorfandans á fyrstu sekúndum og takist það er líklegra að hann horfi áfram og til enda. Þá bætir hún við að hvert myndband sé í raun og veru mjög góð auglýsing fyrir kirkjuna burtséð frá því hve lengi er horft á hvert og eitt þeirra.

„Nú, ef myndbandi er bústað eins og sagt er þá getur það náð allt í 100 þúsund áhorf,“ segir Margrét og nefnir sem dæmi hið vel heppnaða myndband Grafarvogskirkju.

Margrét nefnir líka að komið hafi á óvart hversu mikið áhorf hafi verið á myndbönd frá söfnuði innflytjenda en í honum eru innflytjendur sem helst kunni tungumálið farsi eða ensku. Myndbönd send frá söfnuðinum hafi náð til 5050 áhorfenda og eru margir í söfnuðinum frá löndum þar sem kristin trú er ekki ríkjandi og jafnvel ekki leyfð. Telur hún því þjóðkirkjuna vera að ná nokkuð vel til þessa hóps með þessum hætti.

Svokölluð jóladagatöl voru sýnd á aðventunni. Það voru sex prófastsdæmi sem sendu þau út eða átján prestaköll. Mælt heildaráhorf á þau var 169387 og að meðaltali sáu 921 hvert myndband. Mörg þessara jóladagatala fluttu örstutt viðtöl eða umfjöllun fólks úr grasrót kirkjunnar. Sum myndbandanna voru kirkjukynningar þar sem prestar og safnaðarfólk kom fram. Það var Kjalarnessprófastsdæmi sem skoraði hæst í áhorfi að meðaltali á hverja jóladagatalsstund en það var 2666.

Og meginniðurstaðan?

Brugðist var við með myndarlegum hætti
„Efnið sem söfnuðirnir setja á netið nær til fólksins. Starfsfólk kirkjunnar hefur verið að læra á þetta nýja form og átta sig á því hvernig það getur nýst okkur til að koma boðskapnum á framfæri. Þegar á heildina er litið þá hefur þjóðkirkjan brugðist við með myndarlegum hætti,“ segir Margrét. Hún bendir líka á að við streymisgerð hafi ólík prestaköll unnið saman sem og sóknir. „Mikill fjölbreytileiki hafi verið í helgihaldinu og framsetningu á efni,“ segir Margrét og nefnir í því sambandi samstarf Grensássóknar og Bústaðasóknar í Fossvogsprestakalli.

hsh



-----------------

Sr. Henning Emil Magnússon, prestur í Vídalínskirkju, kemur í þessu athyglisverða myndbandi inn á tengsl áhorfanda og prests:

 









  • Frétt

  • Menning

  • Prestar og djáknar

  • Safnaðarstarf

  • Samstarf

  • Skipulag

  • Trúin

  • Covid-19

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls