Gídeon, Biblían og töframaður
„Ég er verulega bjartsýnn fyrir framtíð félagsins,“ segir hann og brosir breitt. „Það er ýmislegt framundan og við eigum mikið inni.“
Hann er ungur maður og björt og kraumandi framtíðin vefst ekki fyrir honum vegna þess að þau tvö eru ferðafélagar.
„Tæknin hefur verið svo gott sem ónýtt og margir möguleikar sem tengjast henni án þess að fara mikið nánar út í það að sinni en það er ýmislegt á teikniborðinu sem tíminn verður að leiða í ljós hvort og hvernig það verði framkvæmt.“
Einar Aron Fjalarsson heitir hann og horfir móti spennandi tíma. Hann er framkvæmdastjóri Gídeonfélagsins.
Og í dag er Biblíudagurinn. Sá dagur og Gídeonfélagið tengjast.
Það er margt á könnu Gídeonfélagsins.
En hverfum frá þessari kaffikönnu og matarinnskoti á þorra og kirkjan.is spyr:
Gídeonfélagið, hvað er nú það?
„Gídeonfélagið hefur stundum verið kallað hinn framlengdi armur kirkjunnar,“ segir Einar Aron „en í félaginu er fólk með margvíslegan kirkjubakgrunn og með ýmsar skoðanir en sameinast um eitt markmið.“
Og hvað skyld það vera?
„Markmið Gídeonfélagsins er að færa þeim von sem ekki þekkja Jesú Krist,“ segir Einar Aron. „Þess vegna dreifa félagsmenn Nýja testamentinu svo fólk geti lesið um frelsarann.“
Gídeonfélagið hefur gefið yfir 400.000 eintök af Nýja testamentinu á þeim 75 árum sem það hefur starfað.
Einar Aron segir að í Gídeonfélaginu á Íslandi séu á þriðja hundrað félagar sem starfi í þrettán deildum um allt land.
Í stjórn félagsins er góður hópur. Það eru Elfar Eiðsson, Ellen Símonardóttir, Eva Susanne Andersson, Gísli Davíð Karlsson, Jóhanna Benný Hannesdóttir, Kristín Sverrisdóttir, Þórsteinn Arnórsson og Þorsteinn K. Óskarsson.
Þau eru mörg sem þekkja litla bláa Nýja testamentið sem Gídeonfélagið hefur gefið skólabörnum. Stundum eru fréttir af því að einhverjir vilji bregða fæti fyrir þá starfsemi – hvernig er staðan í því núna?
„Við megum gefa Nýja testamentin í grunnskólum á flestum stöðum á landinu en í flestum tilfellum er það undir skólastjóranum komið hvort það sé í boði,“ segir Einar Aron. „Reykjavík er eina bæjarfélagið sem hefur bannað gjöfina með öllu en það er önnur og lengri saga“. Hann segir að félagsmenn í Gídeon hafði brugðið á það ráð að heimsækja fermingarbörnin í kirkjurnar og gefið þeim bókina góðu í fermingarfræðslutímum og hefur verið mikil ánægja með það fyrirkomulag. „Deildirnar á Akureyri ákváðu sem dæmi að færa sig úr skólunum og inn á vettvang fermingarfræðslunnar þrátt fyrir að mega heimsækja skólana,“ segir Einar Aron.
En hver er hinn ungi framkvæmdastjóri Gídeonfélagsins?
Einar Aron var rúmlega tvítugur þegar hann hóf störf sem framkvæmdastjóri Gídeonfélagsins í janúarbyrjun árið 2017 en hann hafði verið félagi frá 2014.
„Foreldrar mínir og afi og amma hafa öll verið í félaginu í tugi ára og mamma og pabbi sinnt trúnaðarstörfum innan þess,“ segir hann og augljóst að sjaldan fellur eplið langt frá eikinni. „Starfið er hlutastarf og ég var í framhaldsskóla þegar ég hóf störf hjá félaginu og lauk svo stúdentsprófi í desember 2017.“ Og í vor lýkur hann BA-prófi í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands.
En hinn ungi framkvæmdastjóri átti frækinn feril að baki þó árin væru ekki mörg.
Hann er nefnilega töframaður. Og það er náttúrlega ekki ónýtt fyrir félag að hafa töframann sem framkvæmdastjóra. Er hægt að vera heppnari?
„Ég hef verið sjálfstætt starfandi töframaður síðan ég var um tíu ára gamall og því vanur að koma fram,“ segir Einar Aron - og hefur rekið sitt eigið fyrirtæki í tæp sjö ár. Hann hefur staðið fyrir fjölmörgum viðburðum, haldið til dæmis leiðtoganámskeið og unglingamót, staðið að komu á þriðja tug kennara, fyrirlesara, námskeiðsgesta, kokka og skemmtikrafta til landsins og setið í stjórn félagasamtaka svo nokkur atriði séu nefnd. „Ég var því kannski ekki alveg reynslulaus,“ segir hann stoltur og hógvær í senn.
Kirkjan.is þakkar Einari Aroni fyrir hið hressilega samtal og óskar honum og Gídeonfélaginu alls hins besta. Kristni á Íslandi býr svo sannarlega að góðum og traustum mannauði og fyrir það ber að þakka.
Biblíudagurinn er í dag eins og áður sagði og þá er svo sannarlega við hæfi að þakka meðal annars Gídeonfélögum fyrir að hafa dreift Nýja testamentinu af krafti í nær hundrað ár.
hsh
Margir þekkkja merki Gídeonfélaganna en það er stílfærð eftirlíking á vopninu sem menn Gídeons beittu í baráttunni við óvinina. Hvítt leirker á bláum grunni og logar rauður logi upp úr því sem kyndill. Kerið er svo umlukið gylltum hring út á jaðri merkisins. Blár bakgrunnur er táknar hollustu, hringur úr gulli sem er tákn fyrir eign Guðs en mest áberandi hluturinn er sjálft kerið sem minnir okkur á það hvernig Gídeon notaði kerin til að vinna bug á óvinum sínum í Dómarabókinni 7.16.
Sögu Gídeons má lesa í Dómarabókinni, köflum 6 og 7. Hann var kallaður til þjónustu til að leiða fólkið sitt til sigurs.
Og Drottinn sagði við hann: „Friður sé með þér. Óttastu ekki, þú munt ekki deyja.“ (Dómarabókin 6.23).