Nýstárleg bók

23. febrúar 2021

Nýstárleg bók

Jóhannes guðspjallamaður og merki hans, örninn – nýja bókin svarar kannski ýmsum spurningum um hið sérstaka guðspjall hans. - Ein mynd af fjórum á prédikunarstóli úr Bræðratungukirkju í Biskupstungum frá 17. öld – sjá neðar mynd af framhlið stólsins

Hún er einstök bók í sinni röð sem sr. Þórhallur Heimisson er með í smíðum um þessar mundir. Hún hefur þegar fengið nafn: Allt sem þú vilt vita um Biblíuna (en þorðir ekki að spyrja um). Bókin fjallar um Biblíuna eins og nafn hennar gefur til kynna. Höfundur segist ætla að fjalla um hana á gagnrýninn hátt út frá ýmsum hliðum í ljósi nýjustu rannsókna. Hann grefst fyrir um hvernig bækur hennar urðu til og rekur sögu þjóða og trúarbragða fornaldar sem tengjast henni.

Hjálpartæki höfundar eru meðal annars rannsóknir sagnfræðinnar og fornleifafræðanna og skoðar hann hvert rit Biblíunnar í ljósi þessara fræða sem og annarra heimilda.

Sístæðar spurningar vakna sem höfundur hyggst taka fyrir eins og hvað Biblían segi um samkynhneigð, stríð og frið, stöðu kvenna, gyðingahatur og réttlæti. Fjöldi mynda mun prýða bókina en höfundur hefur ferðast undanfarinn aldarfjórðung um Miðausturlönd og lönd hins forna Rómarríkis.

En það eru líka aðrar spurningar sem vakna. Þær eru hjá hugsanlegum lesendum.

Nýjungin við bókina er ekki síst sú að nú geta öll þau sem vilja lagt fram spurningar og ef margar verða í svipuðum dúr er þeim þjappað í eina spurningu og eitt svar. Þess vegna auglýsir höfundur eftir spurningum meðal almennings sem hann mun svo leitast við að svara í bókinni. Þannig getur bókin orðið á vissan hátt samvinnuverkefni lesenda og höfundar. En að sjálfsögðu eru allar spurningar trúnaðarmál milli höfundar og spyrjenda. Segja má að þetta sé spennandi tilraun og frumleg. Gaman verður að sjá hvernig til tekst.

Kirkjan.is spyr höfund hvort þessi bók eigi sér einhverja fyrirmynd og svar hans er skýrt og skorinort: „Nei, þessi bók er algerlega mín hugmynd og byggð upp á minn hátt - en auðvitað eru til allskonar upplýsingabækur um Biblíuna fyrir almenning á erlendum tungumálum. En engin eins og þessi.“

Þegar kirkjan.is innir höfund eftir því hvort bókin verði aðgengileg á netinu eða sem rafbók segir sr. Þórhallur að hún kom út í harðspjaldi næsta haust, 2022. Þar sem útgáfan er hreint og klárt einkaframtak þá sé aðeins hægt að þessu sinni að einbeita sér að hefðbundinni útgáfu.

Sr. Þórhallur hefur sent frá sér fjölda bóka. Um síðustu jól kom út bókin Saga guðanna - ferðahandbók um veröld trúarbragðanna - og fjallaði kirkjan.is um hana.

Þau sem vilja senda honum spurningar leggi netfang hans á minnið: thorhallur33@gmail.com

Spennandi verður að sjá hvernig þessi sérstaka bók og einstaka tilraun kemur til með að ganga. Það er bókaútgáfan Sæmundur sem gefur bókina út.

hsh

Myndir af guðspjallamönnunum á framhlið prédikunarstóls úr Bræðratungukirkju í Biskupstungum frá 17. öld. Það var Björn Grímsson (1570?-1634) sýslumaður sem málaði þær. Efst til vinstri er Matteus og merki hans, engill, þá kemur Markús og ljónið er hans tákn. Lúkas hefur uxa sem tákn og Jóhannes er með örn. Bækur hafa alltaf fylgt kristinni trú og hún var stundum kölluð trú bókarinnar.
  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Frétt

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls