Mögnuð sýning

4. mars 2021

Mögnuð sýning

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, opnar ljósmyndasýningu á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar. Frá vinstri: Þorkell Þorkelsson, ljósmyndarinn, Bjarni Gíslason, framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar, og ráðherrann - mynd: hsh

Síðdegis í gær var opnuð ljósmyndasýning í Smáralind. Myndirnar tók Þorkell Þorkelsson, ljósmyndari, í Úganda og Eþíópíu, af starfsvettvangi Hjálparstarfs kirkjunnar.

Sýningin er á fyrstu hæð Smáralindar, beggja megin við enda verslunargangsins. Á miðju gólfi. Þau sem eiga leið um milli verslana komast ekki hjá því að sjá myndirnar. Þær draga til sín athygli fólks vegna þess hve sterkar þær eru og opna dyr að framandi umhverfi. Fólk og umhverfi úr Afríku, svo ólíkt glampandi gólfi Smáralindar, og þess vegna nemur margur staðar við myndirnar. Þær vekja fólk til umhugsunar, bæði um þau lífsgæði sem flestir Íslendingar lifa við, og um það hvernig sé hægt að að rétta fram hjálparhönd til að styrkja starfið.

Bjarni Gíslason, framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar, bauð gesti velkomna.

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, opnaði sýninguna formlega með stuttu ávarpi. Sagðist hann hafa fylgst með starfi Hjálparstarfs kirkjunnar og lýsti ánægju sinni með það.

Síðan sagði ljósmyndarinn, Þorkell, fáein orð. Lýsti hann reynslu sinni af því að taka myndir á vettvangi. Hann kom fyrst á slóðir Hjálparstarfs kirkjunnar fyrir tæpum þremur áratugum. Sagði hann hjálparstarfsemina miða að því að gera fólkið sjálft sjálfbjarga og kenna því að nýta það sem hendi er næst. Hjálparstarfið væri að vinna aðdáunarverða hluti í nafni kærleika og mannúðar.

Sýning Hjálparstarfs kirkjunnar í verslunarmiðstöðinni vekur athygli þeirra sem þar fara um sem áður sagði. Hún kynnir með afar sterkum hætti hið merka starfs Hjálparstarfsins og sýnir hvað fengist er við á vettvangi í útlöndum. Myndir Þorkels segja einstaka sögu og eru áhrifamiklar. Sjón er sögu ríkari. Kirkjan.is hvetur öll þau sem eiga leið um Smáralindina að skoða sýninguna sem stendur til 14. mars n.k. Eins er svosem fullt tilefni til að gera sér ferð þangað og ganga um sýninguna. Enginn verður svikinn af henni.

hsh


Sýningin er á fyrstu hæð í Smáralind, í sitt hvorum endanum


Þessi mynd er frá Eþíópíu. Undir henni stendur: „Konurnar á svæðinu hafa meðal annars það hlutverk að reisa hústjald fjölskyldunnar. Heimanmundur þeirra felst oft í efni til húsagerðar.“  

 


Um Hjálparstarf kirkjunnar


  • Hjálparstarf

  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Viðburður

  • Frétt

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls