Trú og menning
Þau sem gefa kirkjunni gaum komast fljótt að því að öflugt tónlistarlíf einkennir starf þeirra. Fyrst er til að taka kirkjukórana sem eru stórmerkilegt menningarfyrirbæri og sameina fólk, trú og samfélag á stórum stöðum sem litlum. Þau eru býsna mörg sem tekið hafa þátt í starfi kirkjunnar í gegnum tónlistarstarf með einum eða öðrum hætti.
Tónlistarmenn eiga þakkir skyldir fyrir að sinna kirkjustarfi og gera það af eldmóði og hugsjón. Margir frægustu kórar landsins eru bundnir nöfnum kirkna. Mótetturkór Hallgrímskirkju, kórar Langholtskirkju, Dómkórinn, Barbörukór Hafnarfjarðarkirkju, barnakórar kirkna, og alls konar kórar og að ógleymdu hinu öfluga tónlistarlífi fyrir alla aldurshópa eins og í Bústaðakirkju, svo nokkur dæmi séu nefnd. Auk þess sem fjöldi kirkna hýsir ýmsa kóra sem njóta hins góða hljómburðar sem margar kirkur hafa upp á að bjóða. Upp úr tónlistarstarfi kirknanna hefur svo iðulega sprottið afbragsgott tónlistarfólk og oft á heimsmælikvarða.
Kirkja og tónlist standa bak í bak. Kirkjufólk og tónlistarfólk eru bandamenn. Tónlist er farvegur hins guðlega þegar vel tekst, sagði organisti nokkur.
Með tilsökunum á samkomutakmörkunum og fjöldatakmörkunum er aftur farið að blása til tónleika – það hefur svo sem ekki farið fram hjá neinum til dæmis þegar um hefur verið að ræða nánast þúsund manna tónleika. En það eru líka hinir fámennari og kirkjan.is hefur áður bent á að smátt er fagurt. En gleðin leynir sér ekki hjá tónlistarfólkinu þegar það fær nú aftur tækifæri til að miðla list sinni til fólksins. Og ekki er gleðin síðri hjá áheyrendum.
Það lét lítið yfir sér skiltið á stéttinni fyrir utan Dómkirkjuna í nepjunni síðdegis í gær þar sem það hneigði sig ótt og títt fyrir þeim er fram hjá gengu. Á því stóð að Kammerkór Dómkirkjunnar væri með tónleika. Það væri ókeypis inn.
Þar sem kirkjan.is var ögn fyrr á ferð gekk hún inn í tíðasöng sem var á undan tónleikunum. Það var dómkirkjupresturinn sr. Sveinn Valgeirsson sem var þar í forystu ásamt Glúmi Gylfasyni, organista.
Sum úr Kammerkórnum voru komin nokkru fyrir tónleikana og lögðu þar af leiðandi sitt í tíðasönginn.
Tíðasöngur ber með sér forna tíð og tign í tónum og orðum. Hann höfðar til margra en ekki allra. Þess vegna er það bráðsnjallt hjá Dómkirkjufólkinu að bjóða upp á þessa hefð í sínu hefðarríka umhverfi. Guðvísir og bænheitir menn hafa haldið þessu formi lifandi um aldir og gera enn. Tíðasöngur er alltaf á fimmtudögum í Dómkirkjunni.
En aftur að síðdegistónleikum Kammerkórsins sem er hluti Dómkórsins og ekki svo ýkja gamall - Dómkórinn sjálfur heldur bráðum upp á fertugsafmæli sitt. Það var Kári Þormar, kantor, sem stýrði sínu fólki með styrkri hendi og mjúkri. Dagskráin var fjölbreytileg og hæfði föstunni vel. Tónleikarnir hófust á íslensku þjóðlagi í útsetningu Smára Ólasonar við sálm sr. Hallgríms Péturssonar: Ég byrja reisu mín... Síðan komu Englar hæstir, lag Þorkels Sigurbjörnssonar, en textinn, sálmur 25, úr smiðju þeirra Blackie og sr. Matthíasar. Þá Ave maris stella og eftir það If ye love me. Faðir vor Jóns Ásgeirssonar var flutt, og Maríukvæði Atla Heimis Sveinssonar við texta Halldórs Laxness. Og fleira var á dagskrá en henni lauk á Bogoroditse Devo, Maríubæn, eftir Sergei Rachmaninoff.
Góðir tónleikar með frábæru tónlistarfólki, sterkri boðun og listilegri auðmýkt fyrir efni og anda.
Nú er tími til að huga að tónleikum hjá kirkjunum og sækja þá, njóta þeirra og styðja við bakið á þessu öfluga kirkju- og menningarlífi. Þar fallast svo sannarlega í faðma trú og menning.
Á hverjum fimmtudegi í allan vetur eru í Dómkirkjunni hálftíma tónleikar – annað hvort kórtónleikar eða orgeltónleikar. Næsta fimmtudag, 18. mars, verða kórtónleikar.
hsh
Tíðasöngur á undan tónleikunum
Sígild áminning skáldsins þá gengið er í guðshús inn - yfir dyrum Dómkirkjunnar í forkirkju