Margt í Kirkjuritinu

29. mars 2021

Margt í Kirkjuritinu

Forsíðumynd Kirkjuritsins heitir Von og er eftir Hólmfríði Ólafsdóttur, djákna og listakonu

Allt kirkjufólk fagnar útgáfu bóka og rita sem fjalla um málefni þjóðkirkjunnar út frá ýmsum sjónarhólum. Í fyrsta lagi sýnir það áhuga fólks á starfi þjóðkirkjunnar, í öðru lagi er kallað til allra þeirra sem áhugasöm eru um málefnið að tjá sig ef þau vilja, og í þriðja lagi endurspeglar slík útgáfa dugnað og hugsjónaeld. Allt hugsandi kirkjufólk les kirkju- og guðfræðilegt efni sem það kemst yfir og sérstaklega ef það er á íslensku og höfðar til þess. Þjóðkirkjan ein og sér er með á annað hundrað starfsmenn sem hlotið hafa guðfræðimenntun og því er þar góður vakandi hópur og frjósöm jörð sem ætti að taka fagnandi á móti öllu vönduðu og uppörvandi lesmáli.

Tímaritsformið er enn lifandi enda þótt mörg tímarit hafi fært sig af pappírnum og yfir á netið. Enn standa nokkur virðuleg tímarit pappírsvaktina og gaman er að Kirkjuritið skuli vera í þeim hópi. Mörg hafa það á tilfinningunni að það sem standi í tímariti, á pappír, sé efnismeira (sem það er eðli máls samkvæmt!) heldur en það sem lesið er á netmiðlum eða nettímariti. Það má líka vera að höfundar efnis nálgist umfjöllun sína með öðrum hætti í pappírstímaritsgreinum en í netgreinum. Hvað sem um það má annars segja þá er hins vegar hinn rafræni samskiptamáti það sem ríkjum ræður og þau sem ekki tileinka sér hann geta stundum komið of seint að umræðuvettvangi og jafnvel á skökkum stað – þegar jafnvel búið er að ræða efnið. Þetta á einkum við almennar greinar en síður um þær sem fræðilegar teljast. Öll tímarit verða að gefa þessu gaum.

Nýlega kom Kirkjuritið út, 86. árgangur, vandað, efnismikið og fjörugt, 112 blaðsíður. Efni þess er fjölbreytilegt og tekin eru fyrir fimm stef ef svo má segja: Þjóðkirkjan og samtökin ´78; Handbók og helgisiðir; Kirkjan og kófið; Skipulagsbreytingar í þjóðkirkjunni; og Úr ýmsum áttum. Flestar greinanna fjalla um Kirkjuna og kófið en umfjöllun um skipulagsbreytingar er rúmfrekust hvað blaðsíðufjölda snertir.

Ekki verður neinn ritdómur felldur hér um einstakar greinar Kirkjuritsins – enda hvað er ritdómur annað en skoðanir og tilfinningar þess sem les. Efnið talar til lesenda með ýmsum hætti og viðbrögðin eru líka ýmisleg – það er hið mannlega og lýðræðislega.

Kirkjan.is hvetur öll til að lesa Kirkjuritið og velta fyrir sér efni þess. Það er hægt að hafa til dæmis ýmsar skoðanir á skipulagsmálum kirkjunnar og sérstaklega á sameiningu sókna. Sameining er víðkvæmt mál og opnar oft kviku safnaðanna – en hún er nauðsynleg og hefur farið fram á öllum tímum og mun fara fram. Handbók kirkjunnar er líka tilvalið efni fyrir allt kirkjufólk til að skoða og lesa um – sérstaklega þyrfti að kalla til hin óvígðu og heyra hvað þau hafa um málið að segja enda þurfa þau að sitja undir handbókinni ef svo má segja – slíkt væri skref í að afprestsvæða handbókina en fráleitt taka allir undir nauðsyn þess en þeirri skoðun hefur verið varpað fram. Handbókin leggur meginlínur fyrir helgihald þjóðkirkjunnar og er ákveðið einingarband sem ekki má gleyma. Gildandi handbók er frá 1981 og gefin út „til reynslu“ eins og kirkjuþing orðaði það á sínum tíma. Síðan hafa verið tillögur lagðar fram um endurbætur á Handbókinni – ný útgáfu bíður þess að sjá dagsins ljós. Árið 2015 rann út skipunartími handbókarnefndar sem þáverandi vígslubiskup í Skálholti, sr. Kristján Valur Ingólfsson, fór fyrir, og var umboð hennar ekki endurnýjað eftir því sem kirkjan.is veit best. Sérstakur starfshópur hefur skilað inn tillögu að nýju skírnarformi og períkópíunefndin skilaði inn athugasemdum sínum í fyrra. Kemst þó hægt fari, var sagt í eina tíð, og góðir hlutir gerast hægt.

Dr. Haukur Ingi Jónasson er í viðtali. Þar er margt látið flakka.

Viðtalið við dr. Hauk Inga er hressilegt stúkuviðtal og undir margt má taka. Viðtal af þess tagi má nota sem umræðuplagg í kirkjunni og spyrja einfaldlega: „Er þetta rétt? Hvað finnst þér?“ Því að allt er betra í kirkjunni en að þegja og þumbast. Í viðtalinu er farið yfir margt kunnuglegt eins og gefur að skilja (var annars eitthvað nýtt undir sólinni?) málfar kirkjulegrar boðunar, hefðina, túlkun á trú, þröngri eða víðri, starfsumhverfi kirkjunnar þar sem vikið er meðal annars með gagnrýnum augum á kirkjuarkitektúr og guðfræði með því að nefna að kirkjubekkir séu í sumum nýjum kirkjum sem bíóbekkir og sumar kirkjur teiknaðar sem dómsalir – já og bæta má við straumlínulöguðum kirkjukontórum eins og hjá verðbréfafyrirtækjum. Starfsbúningur presta kemst í sviðsljósið og hann fær sína gagnrýni, hún er kannski ekki ný, en ekki örgrannt um að starfsbúningavitund prestastéttarinnar hafi aukist og spyrja má hvers vegna. Hvers vegna alltaf að vera með prestaflibbann? Af hverju þarf alltaf að segja með ytri búningi að þú sért prestur? Er eitthvað merkilegra við það en að vera vörubílstjóri? Eru ekki báðir við sinn sóla? Eða: Hvað er svona merkilegt við það að vera vígð/ur? À la: Hvað er svona merkilegt við það að vera karlmaður? - sungu Grýlurnar í kvikmyndinni Með allt á hreinu. Kirkjan hefur svo sannarlega þörf á uppbyggilegri gagnrýni og og fengið hana á undanförnum áratugum. Þar á bæ ríkir nokkur rörsýni, segir viðmælandi, og hvetur til þess að hollt væri að slökkva og endurræsa. Dr. Haukur Ingi, eða líka séra Haukur Ingi!, honum finnst stundum vanta prótein og vítamín í boðun kirkjunnar. Rétt er það og svo hefur sennilega alltaf verið – prédikanir eru ýmist góðar eða slæmar, það þekkja öll þau sem fást vi þá iðju. Og: „Kirkjan getur ekki snúist um dýrð, vald og virðingu hennar sjálfrar.“ Um þessa fullyrðingu má segja margt úr djúpi guðfræðinnar hvernig sjálfsupphafning og kirkjuþjónadýrkun tekur völdin og oft með hrapallegum afleiðingum eins og kirkjusagan geymir mörg dæmi um. Lífgandi var tilvísun til dr. Þóris Kr. Þórðarsonar um að þörf væri á að „leggja kirkjuna niður og taka hana upp á nýtt.“ Það var svo sannarlega semper reformanda-þanki í anda starfsfélaga hans dr. Björn Björnssonar – blessuð veri minning þeirra beggja. Þá kemur dr. Haukur Ingi með þá ábendingu að kirkjan þurfi að leita sér góðrar ráðgjafar varðandi til dæmis „stjórnskipulag, forystu, samskipti, stjórnum, lög...“ Öll kirkjugagnrýni er holl, minnumst bara kirkjugagnrýni Marteins Lúthers, tökum henni fagnandi og reynum að gera betur. Glapsýn hellisins fræga er svo þægileg um stundarsakir en leiðir til ófarnaðar. Kirkjan þarf sennilega eins og öll fyrirbæri sem fara með einhvers konar vald (sem er vandasamt og nauðsynlegt í vissum aðstæðum) að hafa innan ákvörðunarhringsins harðsnúið fylgisfólk ákvörðunarinnar sem tekin er og að auki enn harðsnúnari gagnrýnendur til þess að farsæl niðurstaða fáist í það sem til umfjöllunar er.

Sem sagt gott viðtal. Viðmælandinn er bjartsýnn fyrir hönd þjóðkirkjunnar eftir endurræsingu og segir hana geta orðið framúrskarandi vettvang til að svara ýmsum tilvistarlegum spurningum fólks og geti jafnframt miðlað til fólks „ærlegum“ tilgangi.

Kannski mætti segja svona í lokin að viðtalið sé á köflum ögn síð-militarískt, um það hvernig kirkjan geti náð vopnum sínum og fyrri stöðu í krafti þess að uppfylla ákveðin nútímaleg skilyrði sem snúast um aðferðir við boðun, stjórnun og skipulag. Samtímis verður nefnilega að huga að hinni sterku þróun samfélaga á Vesturlöndum (einkum í Evrópu) þar sem kirkjan færist sífellt nær köldum skugga afskiptaleysis og fráhvarfs en aðrar menningar- og samfélagslegar hreyfingar taka hlutverk hennar yfir í sumum tilvikum, hvort tveggja trúarlegar og veraldlegar. Eða með öðrum orðum: samfélagsþróunin gefur ákveðið til kynna að þjóðkirkjur/kirkjusamfélög verði minnihlutahreyfingar í samfélaginu – sumum finnst það kannski súrt í broti og fara í harða samkeppni með því að bjóða upp á í einum pakka hið trúarlega og veraldlega og þú lest um það hjá Smartlandinu að kirkjan og heimurinn séu nýjasta heita parið - meðan aðrir segja að hugsanlega verði kirkjan bara trúrri erindinu sem henni var falið að boða í öndverðu við vatnið fræga og margir hafi spurt hvað um það hafi orðið á ferðinni yfir heiðina til mannfólksins í dalnum.

Samantekið: Rífandi gott Kirkjurit sem ætti að fá alla til að lifna við og brosa, ræða stöðu mála og bjóða góðan dag!

Kirkjuritið
Prestafélag Íslands gefur út Kirkjuritið. Ritstjóri þess er sr. Þorgeir Arason og með honum í ritnefnd eru: sr. Arnaldur Máni Finnsson, sr. Hildur Inga Rúnarsdóttir, sr. Kristín Þórunn Tómasdóttir og sr. Ólöf Margrét Snorradóttir.

Hér má lesa Kirkjuritið.

hsh





  • Frétt

  • Guðfræði

  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Útgáfa

  • Fræðsla

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls