List á laugardegi: Sjáið manninn!
Listaverkamaður lýtur að sjálfsögðu lögmálum framboðs og eftirspurnar.
Kirkjan.is las í blaðútgáfu The Daily Telegraph í gær að í vikunni hafi staðið til að bjóða upp á listaverkauppboði í Madrid lítið olíumálverk (111sm x 86sm) sem talið var vera eftir spænska 17du aldar listmálarann, Jose de Ribera (1591-1652). Listaverk sem kallast eins og mörg önnur með sama tema, Ecce homo, og útleggst: Sjáið manninn!
Jesús kom þá út fyrir með þyrnikórónuna og í purpurakápunni. Pílatus segir við fólkið: „Sjáið manninn!“
En málverkið var skyndilega fjarlægt af uppboðinu.
Hvers vegna?
Listfræðingar fengu pata af því að verkið kynni að vera eftir annan listmálara. Og sá var ekki af lakari endanum, sjálfur ítalski barokkmálarinn Michelangelo Merisi Caravaggio (1571-1610). Menningarmálaráðherra Spánar skarst og í leikinn og bannaði sölu á verkinu. Hins vegar vaknaði strax grunur um að verkið hefði verið þá þegar selt en forsvarsmenn uppboðsins vörðust allra frétta og sögðu að það hefði aðeins verið tekið af uppboðinu.
Umrætt verk gæti semsé verið eftir Caravaggio og borist til Spánar ásamt öðru verki eftir hann á 17du öld en heimildir geta um flutning tveggja málverka eftir hann þangað. Annað þeirra sýnd aftöku Jóhannesar skírara og hitt var í flokki fyrrnefndra listaverka sem kallast Ecce homo og sýndi Pílatus klæða Krist í purpurakápu.
Málverkið sem tekið var af uppboðinu sýnir einmitt skeggjaðan Pílatus standa að baki Kristi og færa hann í kápu.
En það er ekki aðeins dularfull svipbrigði sem duga á uppboðum þegar boðið er í verk. Þegar kaupendur fá tilfinningu fyrir því að verk sem boðið er upp sé í raun annað verk og verðmætara en það sem verið er að bjóða upp þá fer titringur um mannskapinn (sem ekki tekst að leyna) og viðkomandi verki er snarlega kippt út svo hægt sé að athuga það nánar. Eftirspurn eftir Caravaggio er náttúrlega langtum meiri en eftir Jose de Ribera.
Mörgu dæmi eru til um að dýrmætir gripir hafi leynst á ótrúlegustu stöðum sem engum datt í hug að geymdu verðmæti - til gamans má benda á heimildamyndina Leyndarmálið, sem fjallar um Biblíubréfið svokallaða og sýnd var í sjónvarpinu s.l. miðvikudagskvöld.
Listaverk eftir Cimabue (1240-1302, frá 13du öld fannst í Compiègne í Norður-Frakklandi þegar hús nokkurt var tæmt. Verkið seldist fyrir 20 milljónir punda.
Maður nokkur keypti mynd í Pennsylvaníu og hafði nú aðeins augastað á rammanum, og gaf fyrir hann 4 dollara. Í rammanum leyndist svo fyrsta prentun af sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna frá 1776. Selt svo fyrir 2.4 milljónir dollara.
Safnari nokkur keypti hinar og þessar skissur, rusl að eigin áliti, á bílskúrssölu í Bandaríkjunum, gaf fyrir það 3 pund. Ein skissanna reyndist vera eftir Andy Warhol. Seldist svo fyrir 1.3 milljónir punda.
Málaralist Caravaggíós var á margan hátt byltingarkennd, en einkum var það fólgið í því, að hann beitti miskunnarlausu sálrænu raunsæi, sem hann magnaði svo með leifturljósum og skuggadýpt. Þetta kom sérstaklega fram í trúarmyndum hans, þar sem hann reis upp gegn því ríkjandi sjónarmiði að klæða postula og dýrlinga í virðuleikahjúp. Hann benti á það, að postularnir hefðu í rauninni verið fátækir alþýðumenn, bændur og fiskimenn. Þeir áttu því að vera litlir fyrir menn að sjá, veðurbitnir, markaðir hrukkum erfiðleika og strits, jafnvel kýttir. (Listasaga Fjölva, 3. bindi, Nýöld -nútími, Gina Pischel og Þorsteinn Thorarensen, R. 1977, bls. 459.)
The Daily Telegraph (bls. 66) /hsh