Flottir fræðslumorgnar
Margir söfnuðir standa fyrir fjölbreytilegri og vandaðri fræðslustarfsemi sem snertir kristna trú og sitthvað er henni tengist. Kirkjufólk veit af reynslu að öll slík fræðsla er vel þegin og laðar að. Þessi safnaðarfræðsla hefur birst í margs konar formi og verið í anda fræðslustefnu þjóðkirkjunnar sem lesa má hér. Hver söfnuður finnur sinn tíma fyrir fræðsluna úti í söfnuðunum. Kórónuveirutíðin hefur truflað þessa starfsemi eins og svo margt annað. Engu að síður er reynt að halda henni úti í þeim mæli sem hægt er að öllum sóttvarnareglum virtum.
Seltjarnarneskirkja er með fræðslumorgna á hverjum sunnudegi og segja má að þeir séu liður í öflugri fullorðinsfræðslu safnaðarins. Til þessa fræðslufunda eru fengnir ýmsir einstaklingar og oft sérfróðir um tiltekin mál til að fræða og spjalla um áhugaverð efni sem í mörgum tilvikum tengjast kristni og kirkjulífi - en þó ekki alltaf. Fræðslumorgnar kirkjunnar hafa tekist mjög vel og skipuleggjendur þeirra með sóknarprestinn, sr. Bjarna Þór Bjarnason, í broddi fylkingar hafa verið fundvísir á góð mál til að ræða og fræða um. Stundin er notaleg og fólk fær sér kaffisopa og meðlæti meðan hlýtt er á fyrirlesarann.
Það ánægjulega er líka að þessir fræðslumorgnar eru vel sóttir. Góð aðsókn segir líka nefnilega sína sögu. Hér er fléttað saman uppbyggilegri fræðslu og þátttöku í helgihaldi. Ljómandi fín og holl blanda. Þegar fræðslustundin er búin tekur við guðsþjónusta.
Í gærmorgunn kom Pétur H. Ármannsson, arkitekt, á fræðslumorgunn í Seltjarnarneskirkju, og sagði frá kirkjum og öðrum húsum sem Guðjón Samúelsson (1887-1950), húsameistari ríkisins, teiknaði. Þess skal getið að stundinni var einnig streymt.
Fyrir jólin kom út hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi mikil bók Péturs um Guðjón og fékk hann viðurkenningu Hagþenkis fyrir hana fyrir nokkru. Þetta er tímamótaverk og hefur vakið verðskuldaða athygli. Bókin er 448 blaðsíður og prýdd fjölda mynda af teikningum Guðjóns sem og myndum af fólki og úr þjóðlífinu frá tíma hans.
Fræðsluerindi Péturs var stórfróðlegt og margar spurningar vöknuðu hjá áheyrendum og í raun er fullt tilefni til framhaldsfræðslustundar um þennan mikilvirka húsameistara ríkisins á síðustu öld.
Reistar voru fjörutíu kirkjur eftir teikningum Guðjóns.
Kirkjan.is spyr Pétur hvort Guðjón hafi verið einn að störfum á skrifstofu Húsameistara.
„Fyrstu fimmtán árin voru þeir Guðjón og Einar Erlendsson einir að störfum á skrifstofu Húsameistara,“ segir Pétur „og var skrifstofan í einu herbergi í íbúð Guðjóns á Skólavörðustíg 35. Embættið flutti svo í Arnarhvál, í herbergin fyrir ofan innganginn.“ Einar var aðstoðarmaður Guðjóns og staðgengill.
Hann segir að Guðjón hafi haft gríðarlega mikið á sinni könnu í aðdraganda Alþingishátíðarinnar og það hafi reynst honum erfitt. Síðan fékk hann arkitekt til embættisins, Bárð Ísleifsson. Þá var Björn Rögnvaldsson, byggingameistari, ráðinn sem eftirlitsmaður. „En það var ekki gert eins vel við embætti Húsameistara ríkisins og önnur opinber embætti,“ segir Pétur og bætir því við að Guðjón hafi kvartað undan því og með réttu. Þegar mörg verkefni voru í takinu hafi húsameistarinn þurft til dæmis að ganga út í Háskóla á hverjum degi til að kanna hvernig staðið væri þar að verki við byggingaframkvæmdirnar.
Nú um stundir eru ekki margar kirkjur teiknaðar á Íslandi.
„Það er miður,“ segir Pétur, „byggingalistin líður fyrir það í dag að það er ekki verið að byggja kirkjur.“ Pétur segir að menn hafi fengið hér áður fyrr tækifæri til að hefja sig upp úr hinu veraldlega og velta fyrir sér æðri gildum. „Byggingalist snerist um það í aldir að reisa kirkjur, guðshús,“ segir Pétur, „Arkitektúrinn er búinn að missa dálítið frá sér vegna þessa.“ Svo bætir hann við til umhugsunar: „Arkitektúrinn þarf meira á kirkjunni að halda en kirkjan byggingalistinni.“
Sérstaða Guðjóns húsameistara er ekki bara sú að hann hafi fengið hið einstæða tækifæri að teikna fjölda opinberra byggingar í samfélagi sem var að taka miklum breytingum og öðlast sjálfstæði. Landakotskirkja, Þjóðleikhúsið, Landspítalinn, Háskólinn og Hallgrímskirkja, eru stórvirki frá honum komin eins og alkunna er og eru þá aðeins fáar höfuðbyggingar landsins nefndar. Svo teiknaði enginn eins margar kirkjur eins og Guðjón, fjörutíu voru reistar eftir teikningum hans sem fyrr sagði. Stórar sem litlar.
Í lokin berst talið að kirkjubyggingum samtímans og nefnir Pétur að nytsemissjónarmið séu nokkuð ráðandi í byggingarmálum. Það sé vissulega skiljanlegt. Þó megi ekki gleyma hinum háleitu sjónarmiðum þegar kirkja er teiknuð.
Kirkjan.is hvetur kirkjufólk til að kynna sér efni bókar Péturs H. Ármannssonar um Guðjón Samúelsson. Enginn verður svikinn af því.
Þá skal bent á góðan þátt í Ríkisútvarpinu þar sem dr. Þröstur Helgason ræðir við Pétur.
hsh