Samstaða í verki
„Ég tel þessa viðurkenningu mjög mikilvæga fyrir kirkjuna og var bæði stolt og glöð þegar hún var veitt,“ segir sr. Sigríður Rún Tryggvadóttir, prófastur í Austurlandsprófastsdæmi, þegar kirkjan.is spyr hana út í heiðursviðurkenningu sem Hinsegin Austurland veitti henni fyrir stuðning við málstað hinsegins fólks í þessum landsfjórðungi á aðalfundi sínum í síðustu viku.
Sr. Sigríður Rún hefur veitt sýnilegan stuðning við félagið og málstað þess frá fyrstu tíð, segja samtökin Hinsegin Austurland. Þess má geta að forsíðumyndin sem fylgir þessari frétt áréttar það en regnbogagangstéttin liðast fagnandi í átt til sóknarkirkjunnar á Seyðisfirði. Svo sannarlega falleg sjón.
„... tók til máls og þakkaði fyrir viðurkenninguna. Henni þyki mjög vænt um samstarfið við félagið og það sé afar mikilvægt. Hún minntist á verkefni Þjóðkirkjunnar. Ein saga, eitt skref, sem flestar kirkjur á Austurlandi hefðu tekið þátt í og hún sé viss um að allar kirkjur muni gera það í framtíðinni.“ (Úr fundargerð aðalfundar Hinsegins Austurlands, haldinn 10. apríl 2021).
Hinsegin Austurland eru samtök sem stofnuð voru í fyrra og var þetta í fyrsta sinn sem heiðursviðurkenningin er veitt. Jódís Skúladóttir, formaður Hinsegins Austurlands, segir að viðurkenning af þessu tagi verði veitt hér eftir á hverju ári.
Við þetta tækifæri var Alcoa Fjarðaráli einnig veitt heiðursviðurkenning.
Kirkjan.is óskar prófastinum til hamingju með þessa viðurkenningu sem og Fjarðaráli.
hsh
Sr. Sigríður Rún Tryggvadóttir við útimessu