Nýtt hlutverk

21. apríl 2021

Nýtt hlutverk

Strømsøkirkja í Drammen í Noregi er frá 1669 - mynd: Vårt land

Elsta kirkjan í Drammen í Noregi er frá 1669. Það er Strømsøkirkja. Sögufrægt hús sem fólki þykir vænt um og hefur fylgt kynslóðum bæjarins um aldir.

Í Strømsø-sókn voru á fjórða þúsund sóknarbörn og verður hún lögð niður ef fram fer sem horfir og skipt upp á milli nágrannasókna. Eftir stendur gamla kirkjan.

Nú fær  Strømsøkirkja nýtt hlutverk. Henni hlotnast heiðurstitillinn kærleiksþjónustu- og menningarkirkja og á að þjóna öllum bænum. Verður fjölnotahús í þeirri merkingu að hvers kyns menningar- og kirkjuviðburðir munu fara þar fram í því skyni að standa vörð um trú og sögu og vekja fólk til vitundar um hvort tveggja.

Enda þótt hin aldna Strømsøkirkja verði ekki lengur sóknarkirkja verður messað þar einn dag í viku. Einnig verður hægt að hafa um hönd skírnir og hjónavígslur. Útfarir munu líka fara fram frá henni.

Kirkjufólk í Drammen horfir björtum augum til þessa nýja hlutverks kirkjunnar og telur að það muni auðga kirkjulífið í bænum. Trú, list og menning fléttast sem fyrr saman í eitt. 

Eins og hér á landi hefur þróunin í Noregi verið sú að sameina sóknir og prestaköll. Það er viðkvæmt mál og tekur sinn tíma. Breyttar aðstæður í samfélaginu hafa knúið fólk til að endurskoða sóknar- og prestakallaskipun.

En fjöldi kirkna er mikill í nokkrum prestaköllum. Í sumum er messað reglulega en í öðrum kannski einu sinni á ári eða jafnvel annað hvert ár.

Kirkjurnar eiga sterk ítök í fólki. Við þær eru bundnar margs konar tilfinningar. Margir standa þétt við bakið á gömlu kirkjunni sinni hvort heldur hún er nú í sveitinni eða litla þorpinu, bænum eða borginni. Hollvinafélög hafa verið stofnuð um einstaka kirkjur sem standa fjárhagslega höllum fæti.

Kirkjur eru eins og önnur hús hvað snertir viðhald og umsjón. Slíkt kostar fjármuni og litlar sóknir eiga oft í erfiðleikum með að standa undir því.

Hver sókn á sína sóknarkirkju og með sameiningu sókna blasir við að tvær kirkjur eru komnar til sögu. Þá getur verið úr vöndu að ráða. Flestir sjá að ekki er þörf á tveimur húsum svo ekki sé talað um allan rekstarkostnaðinn sem fylgir með. Þá horfa margir til þess kosts að afhelga aðra kirkjuna og selja - eða nota í annað. Danir hafa sennilega mesta reynslu Norðurlandaþjóðanna í kirkjusölu.

Sameining sókna og prestakalla er sístætt verkefni, vandasamt og viðkvæmt. En þó nauðsynlegt.

Nýtt hlutverk hinnar sögufrægu Strømsøkirkju í Drammen í Noregi getur verið fordæmi sem vert er að íhuga.

Dröfn
Drammen er í Dramsfirði, suðvestur af Ósló. Í borginni og nágrannabyggðum innan hennar búa á annað hundrað þúsund manns. Borgin er stundum kölluð Dröfn á íslensku og er vinabær Stykkishólms.

Vårt land/hsh


  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Erlend frétt

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls