Tímamótaflutningur

25. apríl 2021

Tímamótaflutningur

Sr. Kristján Björnsson, vígslubiskup í Skálholti, blaðar í fornri bók - mynd: hsh

Í sumar verða þau tímamót í Skálholti að bóksafn staðarins verður flutt ofan úr turni og í Gestastofu sem svo er kölluð en hún hýsti áður rektor Skálholtsskóla.

Safnið var flutt í turn Skálholtsdómkirkju árið 1965 eða fyrir hálfri öld og sex árum betur.

Vinna hefur staðið yfir í kjallara Gestastofunnar og henni verður senn lokið. Þar verður bókasafninu komið fyrir með tryggilegum hætti. Einnig verður þar Prentsögusafn Íslands. Alls bókaöryggis verður gætt og einnig verður aðstaða fyrir gesti sem skoða vilja einstaka bækur sérstaklega.

Kirkjan.is fór með sr. Kristjáni Björnssyni, vígslubiskupi í Skálholti, upp í turn kirkjunnar til að skoða umrætt bókasafn.

Það var svalt uppi í turninum og gott loft. Rakamælar voru víða í bókahillum og allt var eins og það átti að vera. Ótrúlegt en satt að þarna hefur þetta dýrmæta bókasafn verið frá því að það kom í Skálholt 1965. Bráðabirgðageymslan dugði ögn lengur en ráð var fyrir gert og allt er í stakasta lagi.

Vígslubiskupinn er margfróður um safnið og hefur kynnt sér þá sögu vel. „Að stofni til er safnið komið frá Þorsteini Þorsteinssyni, fyrrum sýslumanni Dalamanna,“ segir hann. „Þorsteinn átti eitt verðmætasta bókasafn í einkaeigu og í því eru margar gersemar sem ekki finnast annars staðar.“ Eftir lát sýslumannsins fyrrverandi komst safnið í eigu Kára Borgfjörðs Helgasonar sem var athafnamaður í Reykjavík. Hann jók við safnið og sýndi því mikla alúð og þjóðkirkjan keypti það svo af honum í febrúar 1965. Skálholtsnefndin hafði ýtt úr vör söfnunarátaki í marsmánuði sama ár og hvatti landsmenn til að leggja sitt af mörkum svo Skálholt gæti eignast bókasafnið. Í ávarpinu kom meðal annars fram athyglisverð og ákveðin sýn til Skálholtsstaðar sem hefur ekki enn ræst og ekki víst að allir yrðu nú sáttir við en þar sagði:


Morgunblaðið 15. apríl 1965


Morgunblaðið 10. febrúar 1965

Sr. Kristján segir að í safninu megi finna prent frá gömlum prentstöðum á Íslandi eins og Skálholti, Hólum, Hrappsey, Beitistöðum, Leirá, Núpafelli og Viðey.

Dýrmætustu bækurnar eru prentverk frá því fyrir 1800. Þar má finna til dæmis Guðbrandsbiblíu, Þorláksbiblíu og Steinsbiblíu. Einnig Íslendingabók og Kristni sögu - hvort tveggja prentað í Skálholti 1688. Þá 1. útgáfu Landnámu, prentuð í Skálholti 1688. Í safninu eru hátt í fimm þúsund titlar. 


Úr skrá yfir bækur úr safni sýslumannsins, Þorsteins Þorsteinssonar, R. 1962, prentað sem handrit, bls. 234

Ekki skal farið í launkofa með að flestir titlanna í umræddu bókasafni eru til í öðrum söfnun hér á landi. En fágætin eru nokkur svo ekki sé meira sagt og fyrir vikið er þetta safn dýrmætara en mörg önnur. „Guðbrandsbiblía, árituð af Guðbrandi sjálfum og sá er þess heiðurs naut var ráðsmaður biskups, Þorkell nokkur Gamlason,“ segir sr. Kristján. „Nú, svo er hér frumútgáfa af Andlegir sálmar og kvæði Hallgríms Péturssonar frá 1755.“

Á sínum tíma voru ekki allir á einu máli um að safn þetta ætti heima í Skálholti. Enda þótt safnið hafi sætt þeim örlögum að vera í geymslu í rúma hálfa öld þá er ekki vitað hvað hefði orðið um það ef það hefði farið annað. En þarna er það. Eign kirkjunnar. Vel varðveitt og menningarfjársjóður.

Þegar safnið var keypt til Skálholts voru strax uppi hugmyndir um að reisa bókhlöðu. Upp úr aldamótunum 2000 var ákveðið að reisa tveggja hæða hús í Skálholti, 950 fermetra, sem hýsa átti sýningar- og ráðstefnusal og bókhlöðu. Þetta verkefni komst á hönnunarstig – en ekki lengra. Hrunið margfræga batt endi á það. 

En tímamótin miklu verða þegar safnið flyst úr turni og yfir í Gestastofuna. Þá munu margar hendur vinna létt verk því fyrirhugað er að handlanga bækurnar í kössum ofan úr turni og í Gestastofuna.

Það verður söguleg stund.

Sá sumardagur verður einkar bjartur í sögu Skálholts og mun lengi verða í minnum hafður.

Síðar verður almenningi gefin kostur á að virða fyrir sér einstaka dýrgripi safnsins.

hsh


Dr. Sigurbjörn Einarsson, Kirkjuritið, 5. -6. tbl. 1965, Ávarp og yfirlitsskýrsla á prestastefnunni 1965, bls. 261


Hluti af gersemum safnsins


Vígslubiskupinn er léttur í lund - þarna sér í stálskápana þar sem hinar dýrmætu bækur eru geymdar


Kristni saga (Christendoms saga), prentuð í Skálholti 1688


Landnáma (Sagan Landnáma um fyrstu bygging Islands af Norðmönnum), prentuð í Skálholti 1688, 1. útgáfa 

Íslendingabók Ara fróða (Schedae Ara prests froda), prentuð í Skálholti 1688


Morgunblaðið 30. janúar 1981


Bókamerki Þorsteins Þorsteinssonar, (1884-1961), sýslumanns
  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Frétt

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls