Má funda
Vorið er oft fundartími í kirkjunni.
Aðalsafnaðarfundir eru gjarnan haldnir á vorin en það eru mikilvægir fundir þar sem gerð er grein fyrir starfsemi og rekstri sóknanna á liðnu starfsári, reikningar afgreiddir, kosið í sóknarnefnd og margvísleg mál rædd.
Héraðsfundi á að halda fyrir 15. júní samkvæmt starfsreglum. Héraðsfundur er aðalfundur prófastsdæmisins og þar er rætt um mál sem snúast um starfsemi þjóðkirkjunnar í viðkomandi prófastsdæmi.
Kórónuverirufaraldur hefur þokað mörgum fundum yfir í rafrænt form. Það eru öðruvísi fundir en þeir þar sem fólk hittist augliti til auglitis.
Nú hefur verið kveðið upp úr með að héraðsfundi, aðalsafnaðarfundi og aðra slíka fundi megi halda og geta allt að 100 manns í einu sótt þá gegn því að uppfyllt séu öll skilyrði sem fram komu í reglugerð heilbrigðisráðuneytisins og sem biskup ítrekaði fyrir nokkru í bréfi sínu til til presta, djákna, organista, sóknarnefnda og útfararstjóra.
Ef ekki er hægt að uppfylla skilyrðin verða fundir að fara fram í samræmi 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 404/2021 þar sem segir í 1. ml: „Í takmörkun á samkomum felst að fjöldasamkomur eru óheimilar á gildistíma þessarar reglugerðar. Með fjöldasamkomum er átt við það þegar fleiri en 20 einstaklingar koma saman, hvort sem er í opinberum rýmumeða einkarýmum.“
Einnig skal í þessu sambandi gætt að ákvæðum 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar þar sem segir: „Á samkomum, öllum vinnustöðum og í allri annarri starfsemi, meðal annars þeirri sem talin er upp í 3. gr., skal tryggja að hægt sé að hafa a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum.“
Tilmæli Almannavarna frá 20. apríl 2021 eru engu að síður góð leiðsögn á tíma kórónuveirunnar: „Við höldum mannamótum í lágmarki og ferðumst ekki á milli landshluta nema brýna nauðsyn beri til.“
Reglugerð heilbrigðisráðuneytisins - frá 20. apríl 2021
hsh