Vatnið er indælt...

30. apríl 2021

Vatnið er indælt...

Jóhann Baldvinsson og sr. Henning Emil Magnússon- mynd: hsh

Samstarf er alltaf af hinu góðu.

Fólkið í kirkjunni er hugmyndaríkt. Ekki verða allar hugmyndir að veruleika en með því að kalla mörg að verki er líklegra að hægt sé að ýta góðri hugmynd úr vör svo allir fái notið hennar.

Kórónuveirufaraldurinn hefur verið frjósamur að því leyti til að fólk hefur gripið til ýmissa óhefðbundinna aðferða í kirkjustarfi og víðar. Þegar reglur sögðu til um að fólk gæti ekki komið til mannamóta eins og í kirkju þá tók kirkjan til sinna ráða því að hún leggur aldrei árar í bát frekar en lærisveinarnir forðum daga við Galíleuvatn og hún reri inn á ný mið, sigldi þöndum seglum inn á rafrænu miðin - til netheima.

Öll þekkjum við streymi frá kirkjum. Það streymi hefur oft verið bundið við ákveðinn sunnudag í hinu margfræga kirkjuári og texta. Þegar sá dagur safnast til feðra sinna og mæðra finnst mörgum skiljanlega langt í að hann stigi aftur á sviðið. Og það sem sagt var á honum eða sungið í hinu kirkjulega samhengi eigi kannski ekki eins mikið við á næstu dögum enda þótt gott og gilt sé.

Kirkjurnar í Hafnarfirði, Garðabæ og Álftanesi hafa með sér samstarf um helgihald af ýmsu tagi. Sumarkirkjan er dæmi um samstarf sem hefur gengið vel.

En hvað með fljótandi myndbönd – eins og vatnið – sem væru á vissan hátt tímalaus? Rynnu eftir einhverri síðu sem væri sem farvegur eða uppspretta og væru ekki merkt neinum sérstökum degi í kirkjuárinu. En væru þó klárlega á sömu nótum og kirkjuárið góða þegar litið væri yfir allt sviðið.

Þá varð til snjöll hugmynd sem ákveðið var að hrinda i framkvæmd og til verksins kallaður vaskur hópur kirkjufólks úr ýmsum áttum. Sem reyndist enn eitt gott dæmi um vel heppnað samstarf kirknanna í Hafnarfirði, Garðabæ og Álftanesi. 

Helgistundin mín, hvað er það nú eiginlega? spyr kirkjan.is.

Það eru þeir félagarnir, sr. Henning Emil Magnússon, prestur í Vídalínskirkju, og Jóhann Baldvinsson, organisti í sömu kirkju, sem eru til svara.

Sr. Henning Emil átti hugmyndina.

„Kannski ekki mjög svo flókin hugmynd,“ segir sr. Henning Emil, „streymið hefur tekist vel hjá okkur eins og svo hjá mörgum öðrum en það er dálítið bundið við stundina sjálfa sem verið er að streyma.“ Hann segir að þegar streyminu sé lokið þá sé efnið á vissan hátt komið upp í skáp eins og bók sem búið er að lesa eða blaða í – hún verði vissulega lesin aftur, en seinna.

„Þess vegna skaut þessari hugmynd upp hjá mér hvort ekki væri hægt að gera efni sem stæði lengur, væri á vissan hátt tímalaust,“ segir sr. Henning Emil. Heimasíða var stofnuð og inn á hana sett myndbönd, nú eru komin 23 á síðuna.

Stundinni var gefið nafn sem áhorfandanum félli vel í geð, já væri stund hennar eða hans: Helgistundin mín.

Vatn tengir allt saman – þráður Guðs.

Meginstef myndbandanna er vatn. Ekkert þrífst án vatns.

Vatn er líf – og það gengur sem rauður þráður – eða blár – í gegnum Biblíuna. Vatnið er alls staðar enda grunnur lífsins. Allir geta nefnt einhverjar sögur úr Biblíunni þar sem allt snýst um vatn.

Helgistund.net  heitir síðan – efnið er býsna fjölbreytilegt. Í raun lítill andlegur banki af stuttum og grípandi helgistundum, í tali, tónum og leik.

Nokkuð stór hópur kemur að þessu verki og hefur unnið vel saman. Það er líka kostur þegar margir leggja hönd á plóg því allt verður fjölbreytilegra og auk þess líklegra að hróður verksins berist víðar út fyrir vikið

„Form stundarinnar er líka frjálst og þau sem standa að stundunum hafa fullt frelsi til að raða myndbandinu saman eftir eigin hætti,“ segir sr. Henning Emil, „kannski vill einhver hafa fleiri bænir en eina, þennan sönginn eða hinn. Hugmyndin er að gefa fleirum kost á að raða upp sinni eigin helgistund.“ Dæmi um svona stund er sú sem kemur frá Ástjarnarkirkju en hún er í umsjón sr. Kjartans Jónssonar.

„Ég sé um hljóðvinnsluna – blanda hana og geri hana eins aðgengilega og hægt er,“ segir Jóhann. Og Jóhann er snjall hljóðvinnslumaður svo að gæði hljóðs og myndar smella saman – sem er lykilatriði og ekki síst í stuttum myndböndum.

Myndböndin eru tekin upp bæði inni í kirkjum samstarfssóknanna og úti. Hver kirkja sendi frá sér tónlistaratriði, hugvekju og bæn. Síðan voru lagðar fram spurningar sem tengdust vatni og þeim svarað með ýmsum móti.

Arína Vala Þórðardóttir, sá um upptökur, hennar fræði eru kvikmyndir, en bæði sr. Henning Emil og Jóhann luku miklu lofsorði á hana: „Hún gaf sér góðan tíma og kann vel til verka, við vorum mjög heppin að fá hana til samstarfs við okkur.“ Hún lét líka innsæið ráða för, gaman hefði verið að vinna með henni.

Og samstarf organistanna hefur líka verið ljómandi gott. „Í einni stundinni lék einn á orgel, annar á harmonikku og sá þriðji á píanó,“ segir Jóhann.

Í þessu eins og svo mörgu öðru er sjón sögu ríkari. Kirkjan.is hvetur lesendur sínar til að fara inn á síðuna, helgistund.net  og skoða – og njóta. Og deila. Mikilvægt er að fleyta stundinni sem víðast og þá er Feisbók hinn heppilegasti farvegur fyrir þennan holla boðskap sem er tær og fagurblár eins og vatnið. Svalandi boðskapur og kröftugur. 

Þetta framtak samstarfskirknanna í Hafnarfirði, Garðabæ og Álftanesi, er til fyrirmyndar og er líka gott dæmi um að fjölbreytilegt samstarf skilar góðu verki sem allir njóta.

Hér eru nöfn nokkurra sem koma að myndböndunum og hvað þau gera

Margrét Gunnarsdóttir, djákni í Bessastaðasókn, flytur bæn

Sr. Stefán Már Gunnlaugsson, héraðsprestur, svarar spurningum um vatn

Kamma Níelsdóttir og Nína Grazia H. Andrésdóttir, svara líka spurningum um vatn. Það gerir einnig Bjarni Jónsson, tenór í kór Víðistaðasóknar

Inga Rut Hlöðversdóttir, kirkjuvörður í Ástjarnarkirkju, flytur bæn

Sr. Bragi J. Ingibergsson, sóknarprestur í Víðistaðasókn, flytur hugvekju

Davíð Sigurgeirsson, tónlistarstjóri Ástjarnarkirkju, flytur tónlist

Réttlæti og vatn, sr. Sigurvin Lárus Jónsson, prestur í Fríkirkjunni í Hafnarfirði tekur það fyrir

Vigdís Jónsdóttir, svarar spurningum um vatn – það gerir líka Hjalti Skaftason

Lagið sígilda, Teardrop, flutt af bræðrunum Óskari og Ómari Guðjónssonum ásamt Jóhanni Baldvinssyni, organista Vídalínskirkju

Sr. Jón Helgi Þórarinsson, prestur í Hafnarfjarðarkirkju, flytur hugvekju, - og sömuleiðis sr. Margrét Lilja Vilmundardóttir, prestur í Fríkirkjunni í Hafnarfirði – líka sr. Kjartan Jónsson, sóknarprestur í Ástjarnarkirkju, og sr. Jónína Ólafsdóttir, sóknarprestur í Hafnarfjarðarkirkju – já, og prófasturinn nýi, sr. Hans Guðberg Alfreðsson. Þá Matthildur Bjarnadóttir, guðfræðingur og æskulýðsfulltrúi í Vídalínskirkju

Sálmur sr. Sigurbjörns Einarssonar, Dag í senn, fluttur af Erni Arnarsyni, tónlistarstjóra Fríkirkjunnar í Hafnarfirði

Þá leggur Víðistaðakirkja til frumsamið lag Helgu Þórdísar Guðmundsdóttur við ljóð Sigurbjörns Þorkelssonar – kór Víðistaðakirkju syngur og höfundur lagsins leikur undir á flygil
Bænir fluttar af sr. Henning Emil Magnússyni, sr. Margréti Lilju Vilmundardóttur, og Benedikt Axel Gunnarssyni

Og í lokin er það sem varð kveikjan að þessu efni, semsé Lifandi vatnið - Hróp mitt er þögult, lag Ragnhildar Gröndal við texta Sigurðar Pálssonar. Þrír organistar koma við sögu en ekki allir á orgelinu, aðeins Jóhann Baldvinsson, Helga Þórdís Guðmundsdóttir er við flygilinn og Ástvaldur Traustason þenur nikkuna. Særún Rúnudóttir syngur.

hsh


  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Tónlist

  • Trúin

  • Frétt

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls