Innsetning
Á sólbjörtum sunnudegi í Hafnarfirði í gærmorgun var nýr sóknarprestur í Hafnarfjarðarprestakalli, sr. Jónína Ólafsdóttir, settur inn í embætti við hátíðlega athöfn.
Innsetning í embætti er gamall og táknrænn siður. Söfnuðurinn er beðinn um að taka á móti hinum nýja presti í kærleika og prófastur „biður presti virkta hjá söfnuði“ - og presturinn er hvattur til að eiga góð samskipti við sóknarbörn sín.
Það var hátíðleg stund í Hafnarfjarðarkirkju og athöfninni stýrði sr. Hans Guðberg Alfreðsson, prófastur. Sr. Jón Helgi Þórarinsson þjónaði fyrir altari ásamt prófastinum og sóknarprestinum nýja, sr. Jónínu og hún prédikaði. Guðmundur Sigurðsson var við orgelið og Barbörukórinn söng undir stjórn hans.
Þetta var í fyrsta sinn sem sr. Hans Guðberg setur prest í embætti en hann tók við sem prófastur 1. desember á síðasta ári.
„Með innsetningu í embætti er hinn vígði þjónn kynntur söfnuði sínum eða starfsvettvangi í guðsþjónustu. Í guðsþjónustunni staðfestir söfnuðurinn eða stofnunin vilja sinn til að fylgja köllun sinni eftir og umlykur hinn vígða fyrirbæn sinni. Eins fer vel á því að óvígðir starfsmenn safnaða séu settir inn í starf, svo sem organistar, meðhjálparar, starfsfólk við barnastarf og öldrunarstarf og sóknarnefndarmenn, við guðsþjónustu safnaðarins.“ (Innri samþykktir þjóðkirkjunnar, XIII. kafli.)
Í Handbók íslensku kirkjunnar eru fyrirmæli um það hvernig staðið skuli að innsetningarathöfn. Um leið og búið er að setja prest eða skipa í prestakall skal prófastur setja hann sem fyrst inn í embætti. Athöfnin fer fram á helgum degi og prófastur þjónar fyrir altari. Hafi presturinn verið vígður til prestakallsins er vígslubréf biskups lesið annars köllunarbréf eða erindisbréf prestsins.
Sr. Hans Guðberg las erindisbréf sr. Jónínu og afhenti henni það.
Vegna samkomutakmarkana var ekki hægt að hafa kaffisamsæti í tilefni þessa viðburðar.
Eftir guðsþjónustuna hófst svo aðalsafnaðarfundur Hafnarfjarðarsóknar.
hsh
Sóknarpresturinn, sr. Jónína Ólafsdóttir, prédikaði