Starfið gengur vel

11. maí 2021

Starfið gengur vel

Hjálparstarf kirkjunnar rekur Skjólið

Opið hús fyrir konur, Skjólið  í Grensáskirkju, tók til starfa um miðjan febrúar á þessu ári og var opnað með viðhöfn í sama mánuði. Semsagt verið starfandi í nær þrjá mánuði. Það er Hjálparstarf kirkjunnar sem heldur utan um rekstur Skjólsins. 

Starfsemin fékk nafnið Skjólið og vísar það til bænarorða Davíðssálma 119.114: Þú ert skjól mitt og skjöldur, ég vona á orð þitt.

Öryggi og umhyggja
Skjólið er fyrir konur sem búa við húsnæðisvanda yfir daginn og hafa fáa ef nokkra staði til að fara á um hádaginn. Þetta á sérstaklega við um til dæmis konur sem eru í Konukoti en það er lokað yfir daginn. Aðrar konur sem búa við bágar og snúnar aðstæður eru velkomnar sem og þær sem eru nýkomnar í húsnæði eftir að hafa hvergi átt fastan samastað sem eigið heimili kallast um lengri eða skemmri tíma. Markmiðið er að efla samkennd meðal þessara kvenna, styrkja þær, og auka lífsgæði þeirra. Í Skjólinu er þeim boðið öryggi og umhyggja.

Kirkjan.is hafði í gær samband í tilefni af því við Rósu Björgu Brynjarsdóttur, umsjónarkonu, og kannaði hvernig staðan væri.

„Við erum mjög ánægðar með hvernig þetta hefur gengið fyrir sig,“ segir Rósa Björg og bætir því við að konurnar sem notið hafa Skjólsins séu líka mjög ánægðar.

Skjólið er opið frá 11.00 til 15.00. Konurnar úr Konukoti koma þó oft um tíuleytið til þeirra.

„Í dag eru níu konur hjá okkur,“ segir Rósa Björg, „og svona að jafnaði eru hjá okkur fimm til átta konur.“ Hún segir að ekki sé um neina formlega dagskrá að ræða í Skjólinu heldur sé það undir hverri konu komið. „Sumar fara beint inn í hvíldarherbergið og leggja sig og sofa,“ segir hún, „fjórar af konunum sem eru í dag eru búnar að nota sturtuaðstöðuna og þrjár þvo þvottinn sinn. Svo eru þær allar búnar borða heitan mat í hádeginu, nautagúllas.“ Starfskonurnar elda matinn til að hafa sem fæsta snertifleti vegna kórónuveirufaraldursins. Þá er hægt að fást við saumaskap og föndur af ýmsu tagi.

Rósa Björg segir að engin vandræði haf komið upp. „Einu sinni kom lögreglan og það var vegna þess að öryggishnappur sendi frá sér boð fyrir tæknileg mistök og það reyndist bara vera ágætis æfing til að kanna viðbragðstíma og fleira.“

Samstarf við Konukot og Vorteymið hefur gengið vel sem og samskiptin við Velferðasvið Reykjavíkurborgar. „VoR-teymið (Vettvangs- og ráðgjafateymi Reykjavíkurborgar) kemur til okkar eftir þörfum og við heyrum í þeim og leitum til þeirra,“ segir Rósa Björg.

Konurnar fengu bóluefnið Janssen og hjúkrunarteymi kom í Skjólið til að sjá um það og voru konurnar að vonum ánægðar.

Rósa Björg segir að staðsetning Skjólsins sé mjög heppileg og frábært að vera í nábýli við Hjálparstarfið í Grensáskirkju. Sumar kvennanna hafa notið stuðnings frá Hjálparstarfinu, þekkja starfsfólk þar og eru kunnugar í hverfinu.

Rósa Björg segir að konurnar vildu helst sjá lengri opnunartíma Skjólsins. „Þær vildu gjarnan geta komið líka um helgar og á almennum frídögum.“ Þar sem Skjólið lokar klukkan 15.00 þá þurfa þær sem eru í Konukoti að bíða til klukkan 17.00 eftir að það opni.

„Konunum þykir erfitt að fara inn í helgina og vitandi að það er ekki opið hjá okkur,“ segir Rósa Björg „það var til dæmis allt lokað um páskana og ekki sólarhringsopnun hjá Konukoti.“

Skjólið hefur augljóslega farið vel af stað og starfið er enn í mótun. Starfskonurnar eru fjórar, tvær í 60% starfshlutfalli og ein í 30%. Rósa Björg er í fullu starfi sem umsjónarkona. Miklu skiptir að hafa reynt starfsfólk og öflugt.

Grunnur Skjólsins
Skjólið er félagslegt athvarf á grunni kristilegs kærleika og verður mótað í samvinnu við konurnar sem þangað sækja.

Leitað hefur verið til ýmissa aðila með ósk um að styðja við bakið á Skjólinu. Beðið er svara en þess má geta að nú þegar hefur Fjölskylduráð Hafnarfjarðarbæjar svarað og ákveðið að styrkja Skjólið um 300.000 kr.

hsh


  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Frétt

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls