Auglýst eftir presti
Biskup Íslands óskar eftir presti til þjónustu í Garða- og Saurbæjarprestkalli, Vesturlandsprófastsdæmi.
Miðað er við að viðkomandi hefji störf þann 1. ágúst næstkomandi.
Um val á umsækjendum er vísað til starfsreglna kirkjuþings um ráðningu í prestsstörf og starfslok nr. 144/2016 og um presta nr. 1011/2011, svo og leiðbeinandi reglna biskups Íslands fyrir umsækjendur um laus prestsembætti frá 2017.
Garða- og Saurbæjarprestakall samanstendur af fjórum sóknum, Akranessókn með um 7.800 íbúa, Saurbæjarsókn á Hvalfjarðarströnd með rúmlega 140 íbúa, Leirársókn með rúmlega 300 íbúa og Innra-Hólmssókn með rúmlega 150 íbúa. Fjórar kirkjur eru í prestakallinu, Akraneskirkja, Hallgrímskirkja í Saurbæ, Leirárkirkja og Innra- Hólmskirkja.
Vísað er til þarfagreiningar fyrir prestakallið varðandi frekari upplýsingar um starfið og starfsumhverfið. Auglýsing þessi og þarfagreining er birt á vef kirkjunnar, undir laus störf. Þá er bent á vef Akranessóknar.
Starfinu fylgja viðbótarskyldur við önnur prestaköll í prófastsdæminu, önnur prófastsdæmi, sem og við Þjóðkirkjuna – Biskupsstofu og önnur kirkjuleg stjórnvöld.
Allar gildar umsóknir fara til þriggja manna matsnefndar sem metur hæfni umsækjenda, sbr. 5. og 6. gr. starfsreglna um ráðningu í prestsstörf og starfslok.
Matsnefnd velur að jafnaði fjóra hæfustu umsækjendurna en þó aldrei fleiri en fimm og skilar skýrslu þar að lútandi til biskups.
Kjörnefnd Garða- og Saurbæjarprestakalls kýs prest úr hópi umsækjenda, að loknu valferli kjörnefndar, sbr. fyrrgreindar starfsreglur um ráðningu í prestsstörf og starfslok. .
Heimilt er að óska eftir því að almennar prestskosningar fari fram samkvæmt 13. gr. framangreindra starfsreglna um ráðningu í prestsstörf og starfslok.
Um starfið gilda lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997, kjara- og ráðningarsamningar, siðareglur, starfsreglur er kirkjuþing setur og samþykktir um innri málefni kirkjunnar. Er einkum vísað til starfsreglna um presta.
Biskupafundur hefur unnið að breytingum á skipan prestakalla um allt land með sameiningum tveggja eða fleiri í eitt stærra prestakall. Ofangreind þjónusta er auglýst laus til umsóknar með þeim fyrirvara að vera má að biskupafundur leggi tillögur fyrir kirkjuþing sem kunna að leiða til breytinga á skipan prestakalla, hljóti þær samþykki kirkjuþings.
Sr. Þráinn Haraldsson sóknarprestur í prestakallinu veitir nánari upplýsingar um umfang og eðli starfsins í síma 433-1500 eða á netfangið thrainnh@kirkjan.is.
Einnig er hægt að leita nánari upplýsinga, t.d. hvað varðar starfskjör og helstu reglur og skyldur varðandi starfið, hjá Þjóðkirkjunni - Biskupsstofu, s. 528-4000, eða á netfangið mannaudur@biskup.is.
Umsóknarfrestur er til miðnættis 25. maí 2021.
Sækja ber rafrænt um starfið á hér á kirkjan.is og leggja fram tilskilin fylgigögn í rafrænu formi ásamt öðrum þeim gögnum er umsækjandi kann að vilja leggja fram.
Vísað er til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020.
Vakin er athygli á því að hafi umsækjandi ekki óskað nafnleyndar verður nafn hans sem umsækjanda um starfið birt á vef kirkjunnar www.kirkjan.is að liðnum umsóknarfresti. Hér er að finna eyðublað þar sem umsækjendur geta óskað nafnleyndar.
hsh