Góður hópur

16. maí 2021

Góður hópur

Á kirkjuþingi unga fólksins í Grensáskirkju. Frá vinstri: sr. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, Berglind Hönnudóttir, Daníel Ágúst Gautason og Kristján Ágúst Kjartansson - mynd: hsh

Það var góð mæting á kirkjuþing unga fólksins sem lauk í síðdegis gær og stemningin í hópnum var fín. Þingstörfin gengu hratt og örugglega fyrir sig og sex mál voru samþykkt.

Biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, svaraði fyrirspurnum sem þingfulltrúar lögðu fyrir hana. Þær voru af ýmsum toga, bæði persónulegar og kirkjulegar, og biskupinn svaraði með skýrum og upplýsandi hætti. Svörin má heyra hér á Instagrammi ÆSKÞ.

Dæmi um spurningar sem voru lagðar fyrir sr. Agnesi, biskup

Af hverju er ekki skylda að vera með barna- og æskulýðsstarf í öllum prestaköllum?
Á ábyrgð hvers er að fylgjast með hvaða safnaðarstarf er í boði?

Hver eru framtíðar plön um húsnæði biskupsstofu eftir að leigusamningi í Katrínartúni lýkur?
Er nauðsynlegt að vera í svo aðgangsstýrðri byggingu?
Er nauðsynlegt að öll svið biskupsstofu séu undir sama þaki?

Hver er stefna kirkjunnar í útgáfu fræðsluefnis fyrir börn og unglinga? Hvenær verður vinnu við nýju efnisveituna lokið? Þar að segja að koma inn því efni sem var á gömlu efnisveitunni inn á þá nýju.

Er biskupsstofa með einhver plön um að framfylgja aldurskvótareglum á kirkjuþingi við næsta kjör?

Hvernig kynntist þú kirkjustarfinu?

Hvað er trú fyrir þér?

Hvernig er starfið þitt búið að vera í covid?
Eftir covid, heldur þú að kirkjan muni nýta tæknina áfram eða fara aftur í fyrra horf t.d. utanlandsferðir fyrir allar ráðstefnur?

Hver sér um að ákveða gjafir fyrir fermingarbörn? Var það ákveðið í samráði við grasrótina?

Eins og spurningarnar gefa til kynna brennur margt á hinum ungu kirkjuþingsfulltrúum. Gaman verður að fylgjast með þeim síðar á kirkjulegum starfsvettvangi því eflaust munu einhver þeirra hasla sér þar völl um lengri eða skemmri tíma.

Kirkjan.is rædd við nokkra þingfulltrúa og forvitnaðist um hvaðan þeir væru. Einn var frá Hólmavík og sá var að læra guðfræði, annar var að fara í framhaldsskóla á næsta ári. Þá var einn fulltrúinn að vinna í banka og ætlar síðar að læra hagfræði eða viðskiptafræði. Enn annar ætlar að læra málvísindi. Tvö systkini voru frá Egilsstöðum og svo var einn fulltrúi frá Akureyri, annar frá Vopnafirði, þá Selfossi, Garðabæ, Sandgerði, Ísafirði, og Reykjavík. Allt hafði þetta unga fólk komið með einum eða öðrum hætti að æskulýðsstarfi í heimakirkjum sínum. Flest þeirra voru að mæta í fyrsta skipti á kirkjuþing unga fólksins. Þessi hópur endurspeglaði góða breidd í aldri en hvað kynjahlutföll snerti þá hallaði á karlpeninginn. Fimm strákar af fimmtán manna hópi sem kirkjan.is taldi. Þau voru mjög ánægð með þingið og höfðu gaman af því að taka þátt í störfum þess.

Starfsreglur um kirkjuþing unga fólksins.

Málaskrá  kirkjuþings unga fólksins. Málin voru samþykkt óbreytt nema mál nr. 4 sem var samþykkt með breytingartillögu þar sem kveðið er á um að í þeirri stjórn eða nefnd sem fari með stjórn æskulýðsmiðstöðvar eigi að minnsta kosti eitt fast sæti starfsmaður kirkjunnar í æskulýðsstarfi eða ungmenni.

Æskulýðssamband þjóðkirkjunnar.

hsh


Allar sóttvarnir virtar!

  • Fundur

  • Leikmenn

  • Samfélag

  • Þing

  • Frétt

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls