Aðalsafnaðarfundir
Nú er tími aðalfunda safnaðanna í þjóðkirkjunni. Kórónuveirufaraldurinn truflaði þau fundahöld í fyrra en nú blása margir söfnuðir til funda. Sömuleiðis eru héraðsfundir boðaðir í mörgum prófastsdæmum á næstu vikum. Á þessum fundum eru málefni kirkjunnar rædd og ýmsar ákvarðanir teknar.
En hvað er aðalsafnaðarfundur?
Sá fundur ræður mestu um starf sóknarinnar og er mjög mikilvægur. Starfsreglur um sóknarnefndir segja til um hvert hlutverk hans sé - sjá 15. gr. reglnanna sérstaklega.
Síðastliðinn sunnudag var haldinn aðalsafnaðarfundur Seltjarnarnessóknar. Þar var eftirfarandi ályktun samþykkt einróma:
Aðalsafnaðarfundur Seltjarnarnessóknar haldinn sunnudaginn 16. maí 2021 hvetur eindregið til þess að kristinfræðikennsla í skólum landsins verði efld á ný.
Fundurinn beinir því til alþingismanna að skýrar verði kveðið á um þessa mikilvægu kennslugrein og sess hennar betur tryggður en nú er í lögum um grunnskóla nr. 91/2008. Einnig hvetur fundurinn menntamálaráðherra til að standa dyggan vörð um vandaða kennslu á þessu sviði.
Telur fundurinn einkar mikilvægt að uppvaxandi kynslóð njóti traustrar fræðslu um þá trú sem ríkt hefur með þjóðinni og mótað líf hennar öðru fremur í meira en 1000 ár. Án slíkrar fræðslu verður þekkingu og skilningi á menningararfi þjóðarinnar alltaf ábótavant.
Á þeim tímum hraðfara breytinga, ölduróts og erfiðleika sem ganga yfir hér á landi og víða um veröldina, sem torvelda mörgu ungu fólki að fóta sig, telur fundurinn kristna trú – sem byggir á kærleika, fyrirgefningu og umburðarlyndi í samskiptum manna -- nú sem fyrr geta verið ungum og þeim eldri sama kjölfesta og svo mörgum fyrri kynslóðum. Þessum árangri verður þó því aðeins náð að kennsla í kristnum fræðum sé viðhlítandi.
Fundurinn áréttar ummæli dr. Kristjáns Eldjárns, 3ja forseta lýðveldisins, sem hann viðhafði árið 1980 svohljóðandi: „Við Íslendingar, hvort sem við erum veikari eða sterkari í trúnni, ættum að lofa forsjónina fyrir það að við skulum tilheyra hinum kristna hluta mannkynsins í þessum ekki allt of góða heimi – að við búum við hugsunarhátt, þjóðlíf og menningu sem um aldir hefur mótast af kristinni trú og kristinni kirkju. Þetta eru dásamleg forréttindi sem aðeins nokkur hluti jarðarbúa nýtur. Þetta held ég að hver íslenskur maður ætti að gera sér ljóst og íhuga í alvöru.“
Um leið og fundurinn tekur heilshugar undir þessi ummæli ítrekar hann hvatningu sína til Alþingis og ráðherra að hlynna að og styrkja með eflingu kristinfræðikennslunnar þá stoð farsæls þjóðlífs sem kristin trú hefur reynst.
Þess skal getið að á vef kirkjunnar var fjallað fyrir nokkru um kristinfræðikennslu í skólum og má lesa um það hér.
Formaður sóknarnefndar Seltjarnarnessóknar er Guðmundur Einarsson og sóknarprestur er sr. Bjarni Þór Bjarnason.
hsh
Kirkjunnar maður, Jón Jónsson, endurskoðandi kirkjureikningsins, lætur ekki aldurinn aftra sér, hann er níræður, og hefur sótt margan aðalsafnaðarfundinn og tekur ætíð til máls. Við borðið situr fundarritarinn Þórleifur Jónsson - mynd: Gunnlaugur A. Jónsson