Vísitasíu biskups framhaldið
Vísitasía biskups Íslands, sr. Agnesar M. Sigurðardóttur, í Stykkishólmsprestakall var fyrirhuguð í mars 2020, en var frestað þegar heimsfaraldurinn skall á. Nokkrum sinnum var gerð tilraun til að setja hana á dagskrá á ný, en það var ekki fyrr en nú rúmu ári síðar, 31. maí 2021, sem henni var loks framhaldið.
Vísitasían hófst í gærmorgun með heimsókn biskups í Bjarnarhafnarkirkju. Þar fór fram kirkjuskoðun og fundur með fulltrúum sóknarnefndar, Hrefnu Garðarsdóttur og Guðjóni Hildibrandssyni. Kirkjan er falleg og munir hennar einnig. Altaristaflan er áhrifamikil og sérstök. Umhirða öll og umbúnaður er falleg og hleðslan í kringum kirkjugarðinn og kirkjuna til mikillar prýði. Biskup leiddi bænastund í kirkjunnar með heimafólki og sínu föruneyti.
Í hádeginu heimsótti biskup Ásbyrgi, dagþjónustu og vinnustofu fyrir fólk með skerta starfsgetu. Sigríður Erna Guðmannsdóttir, forstöðukona, tók á móti biskupi og föruneyti, ásamt sínu samstarfsfólki og leiddi biskup í allan sannleikann um starfsemi Ásbyrgis.
Jakob Björgvin Jakobsson, bæjarstjóri, bauð biskupi til hádegisverðar þar sem rætt var um málefni sveitarfélagsins og kirkjunnar. Stykkishólmsbær hefur verið leiðandi á landsvísu í umhverfismálum og í því að taka græn skref og á kirkjan á staðnum það sammerkt með bæjarfélaginu að vera orðinn grænn söfnuður.
Eftir hádegið var gamla kirkjan skoðuð, en hún stendur í hjarta gamla bæjarins og er mikil bæjarprýði.
Biskup heimsótti jafnframt dvalarheimili aldraðra í Stykkishólmi þar sem Kristín Sigríður Hannesdóttir, forstöðukona, tók á móti biskupi ásamt sínu samstarfsfólki. Biskup spjallaði við heimilisfólk og starfsfólk og leiddi bænastund og flutti hugvekju. Sunginn var sálmurinn, Ástarfaðir himinhæða.
Seinni partinn fór fram kirkjuskoðun og fundur með sóknarnefnd í Stykkishólmskirkju. Kirkjan er mikil bæjarprýði og stendur hátt og sést víða. Kirkjan er eitt af kennileitum Stykkishólms og er teiknuð af Jóni Haraldssyni, arkitekt. Altaristaflan er eftir Kristínu Gunnlaugsdóttur, listakonu, en hún sýnir Maríu með Jesúbarnið.
Endurbætur á kirkjunni hafa staðið yfir undanfarin ár, þar sem sóknarnefnd og söfnuður allur hafa lyft grettistaki í að endurbæta þak og veggi, glugga og fleira. Velvilji til kirkjunnar er mikill í samfélaginu og hjá sveitarstjórn og hafa ótaldar stundir verið lagðar til kirkjunnar í sjálfboðinni vinnu. Kirkjuna prýðir einnig Klais-orgel sem sett var upp í janúar árið 2012.
Kvöldguðsþjónusta fór fram í Stykkishólmskirkju að loknum hádegisverði með sóknarnefndarfólki, eða klukkan 20.00 þar sem séra Gunnar Eiríkur Hauksson, sóknarprestur, þjónaði fyrir altari og biskup Íslands prédikaði og blessaði söfnuðinn. Kór Stykkishólmskirkju söng undir stjórn László Petö, organista og kórstjóra. Áslaug I. Kristjánsdóttir, meðhjálpari og formaður sóknarnefndar, las lokabæn.
Vísitasía biskups Íslands í Stykkishólmsprestakall heldur áfram í dag, 1. júní, með heimsókn í leikskólann í bænum, kirkjuskoðun í Helgafellskirkju, Narfeyrarkirkju og Breiðabólsstaðarkirkju.
Stefnt er að því að ljúka vísitasíu biskups í Stykkishólmsprestakall í sumar eða síðar með guðsþjónusta og kirkjuskoðun í í Flateyjarkirkju.
þv/hsh
Í Bjarnarhafnarkirkju. Frá vinstri: Guðjón Hildibrandsson, Hrefna Garðarsdóttir, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, sr. Þorbjörn Hlynur Árnason, prófastur, og sr. Gunnar Eiríkur Hauksson, sóknarprestur. Mynd: Þorvaldur Víðisson
Bjarnarhafnarkirkja - mynd: Þorvaldur Víðisson
Stykkishólmskirkja - mynd: Þorvaldur Víðisson