Tvær doktorsritgerðir
Nýlega komu út tvær doktorsritgerðir eftir íslenska guðfræðinga.
Sú fyrri er ritgerð dr. Haralds Hreinssonar sem heitir Force of Words – A Cultural History of Christianity and Politics in Medieval Iceland (11th-13th Centuries). Það er bókaforlagið Brill í Hollandi sem gefur bókina út og er hún 328 blaðsíður.
Seinni ritgerðin er eftir dr. Sigurvin Lárus Jónsson og ber titilinn James Among the Classicists: Reading the Letter of James in Light of Ancient Literary Criticism. Útgefandi er Vandenhoeck & Ruprecht í ritröðinni Studia Aarhusiana Neotestamentica (Sant) 8 og er hún 353 blaðsíður.
Dr. Haraldur er fæddur í Reykjavík 1985. Hann lauk guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands 2009 og meistaraprófi í guðfræði frá Harvard-háskóla í Bandaríkjunum 2011. Doktorsprófi í sagnfræði lauk hann 2019 frá Universität Münster í Þýskalandi. Hann býr og starfar í Leipzig og kennir einnig við menntavísindasvið Háskóla Íslands.
Jakobsbréf skapar bókmenntalega persónu í bréfaformi til að árétta siðferðislegt kennivald sitt (eþos) (2. kafli), beitir orðaforða og stíl til að sýna fram á menntun sína (3. og 4. kafli) og kallar sig vitring, kennara og ritskýranda (5. kafli). Á grundvelli þessa kennivalds getur höfundur áminnt hina ríku í Rómarveldi sem jafningi og ákallað jafnt ríka sem fátæka til að meðtaka visku Guðs.
Samanburðurinn við bókmenntafræði fornaldar sýnir svo ekki verður um villst að höfundur vinnur með sömu forsendur og klassísistar, á borð við Díónýsíus frá Halíkarnassus. Jakobsbréf jafnt sem klassísistarnir settu fram hugmyndafræði til höfuðs Rómarveldi, hið fyrrnefnda á grundvelli gyðinglegrar guðrækni, sem höfundur telur standa Rómarveldi framar í siðferði og efnahagslegum jöfnuði, og hinir síðarnefndu á grundvelli þess að hápunktur grískrar menningar eigi að liggja til grundvallar Rómarveldi.
Dr. Sigurvin Lárus Jónsson er fæddur í Reykjavík 1978 og lauk guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands 2006. Síðan lauk hann meistaraprófi 2014 frá sama skóla, Guðfræði- og trúarbragðafræðideild. Hann stundaði doktorsnám við Árósaháskóla og Emory-háskóla í Atlanta. Nú starfar dr. Sigurvin Lárus sem prestur við Fríkirkjuna í Hafnarfirði og við rannsóknir og kennslu við háskólann í Münster í Þýskalandi, auk þess að sinna stundakennslu við Háskóla Íslands.
Kirkjan.is óskar þeim dr. Haraldi og dr. Sigurvin til hamingju með lærdómsgráðuna.
hsh