Tveir prestafundir
Aðalfundur Prestafélags Íslands var haldinn í síðustu viku. Sem fyrr var það líflegur fundur og stóð yfir lengi dags. Í lok fundar komu svo fundarmenn saman um kvöldið í Áskirkju og áttu þar léttara spjall.
Formaður Prestafélagsins er sr. Ninna Sif Svavarsdóttir. Kirkjan.is sló á þráðinn til formannsins sem er sóknarprestur í Hveragerðisprestakalli.
„Ég var ánægð með fundinn,“ segir sr. Ninna Sif, „hann var vel sóttur að minnsta kosti framan af og umræður ágætar.“
Störf aðalfundarins eru jafnan viðamikil og ýmsar skýrslur eru fluttar af nefndum félagsins. Oft verða miklar umræður um þær. Liðurinn önnur mál er einnig oft fjörugur.
Sr. Ninna Sif lýsti því yfir á fundinum að hún myndi ekki gefa kosta á sér að ári til formennsku. Á næsta ári verður hún búin að vera formaður í fjögur ár. Í stjórn með henni sitja þau sr. Guðmundur Karl Brynjarsson og sr. Kristín Pálsdóttir. Þessi voru kjörin ný í stjórnina: sr. Arnaldur Bárðarson og sr. Eva Björk Valdimarsdóttir. Úr stjórn gengu sr. Bryndís Malla Elídóttir og sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson. Ný stjórn á eftir að koma saman og skipta með sér verkum.
Mörgum finnst mikilvægt að varðveita þá hugsun að prestar séu enn embættismenn enda þótt þeir séu ekki lengur embættismenn ríkisins. Sr. Jón Ásgeir Sigurvinsson, héraðsprestur, bar upp eftirfarandi tillögu á aðalfundinum og var hún samþykkt:
Aðalfundur Prestafélags Íslands, haldinn í Lindakirkju 2. júní 2021, leggur á það áherslu að prestar séu vígðir embættismenn kirkjunnar í samræmi við vígslubréf þeirra sem kveður á um að vígsluþegi sé vígður til hins heilaga prests- og predikunarembættis. Sú staðreynd að prestar muni ekki lengur teljast vera opinberir embættismenn skv. viðbótarsamningi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar og frumvarpi till laga um þjóðkirkjuna, sem lagt hefur verið fram á 151. löggjafarþingi 2020-2021, breytir engu þar um.
Í samræmi við ofangreint beinir aðalfundur Prestafélags Íslands þeim tilmælum til kirkjuþings að kirkjuþing samþykki engar þær tillögur að breytingum á starfsreglum sem byggi á þeim forsendum að prestar séu ekki lengur embættismenn.
Jafnframt krefst aðalfundur Prestafélags Íslands þess, að kirkjuþing tryggi, að samþykktir kirkjuþings feli ekki í sér neitt það orðalag, sem túlka megi sem breytingu á kirkjuskilningnum eða tengslum presta og biskups án undangenginnar umræðu meðal prestastéttarinnar og innan stofnana kirkjunnar. Sem dæmi um slíkt orðalag má nefna að prestar séu starfsmenn biskups líkt og segir í greinargerð með 17. máli á kirkjuþingi 2020-2021, tillögu að starfsreglum um ráðningu í prestsstörf. Það má með góðum rökum efast um að slíkt orðalag rími við lúthersk-evangelískan kirkjuskilning.
Kynningarfundur
Í gær var svo félagsfundur Prestafélagsins í Lindakirkju og á „Zoom“. Þar var kynntur nýr kjarasamningur. Nokkrar umræður fóru um hann og sýndist mönnum sitthvað um samninginn eins og jafnan er. Rafræn atkvæðagreiðsla hófst um samninginn í gær og lýkur henni á hádegi föstudaginn 11. júní.
Gerð nýs kjarasamnings var viðamesta verkefnið sem stjórn Prestafélagsins fékkst við á liðnu starfsári. Staða presta hefur breyst mikið á vinnumarkaði sem gæta verður vel að. Ný þjóðkirkjulög sem verða væntanlega samþykkt innan tíðar á Alþingi munu hafa ýmsar breytingar í för með sér og mun félagið sömuleiðis fylgjast náið með útfærslu þeirra.
Nú er það svo að Prestafélagið semur um kjör sín við Þjóðkirkju-Biskupsstofu. Kjaranefnd starfar á vegum hennar og í henni sitja: Guðrún Zoëga, formaður, Einar Karl Haraldsson og Anna Mjöll Karlsdóttir. Fyrir hönd Prestafélagsins í kjaramálaviðræðunum voru þau sr. Ninna Sif Svavarsdóttir, formaður P.Í., sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson, kjaramálafulltrúi og þeim til fulltingis var Lára V. Júlíusdóttir, lögfræðingur sem sat nær alla fundi og veitti ráðgjöf. Bakland hópsins var svo stjórn félagsins og kjaramálahópur.
„Ég á frekar von á því að samningurinn verði samþykktur,“ segir sr. Ninna Sif í bjartsýnum tóni, „þau sem hækka mest núna eru þau sem fengu lítið sem ekkert fyrir sinn snúð í síðasta úrskurði kjararáðs – það var ákveðinn hópur presta sem sat eftir.“
Spennandi verður að sjá á föstudaginn hver úrslit kosningarinnar um kjarasamninginn verður.
hsh