Umhverfiskirkja
Það fer ekki fram hjá neinum sem ganga fjörur að ýmsu skolar á land. Stundum hefur fólk tekið sig til og hreinsað fjörurnar. Það er ærið verkefni. Mest ber auðvitað á plasti og netadræsum. Fjöruhreinsun virðist aldrei taka enda því alltaf skolar hinu og þessu að landi.
Norsk kona, Solveig Egeland, býr í Fredrikstad í Noregi, og gekk oft ströndina með hund sinn. Hún komst ekki hjá því að taka eftir draslinu sem lá í sandinum og milli fjörugrjótsins. Solveig fann til með sjónum því að hún ann náttúrunni.
Solveig Egeland starfar sem menningarráðunautur Borgarbiskupsdæmis í Noregi. Sem slíkur hafði hún stjórnað ýmsum listviðburðum sem náðu til ýmissa listgreina. Hún hafði einnig gengið með börnum um ströndina og hreinsað hana. Þau bjuggu til litla kofa úr draslinu sem safnaðist. Þeir voru litríkir og alla vega í laginu. Kofarnir drógu fólk að sér, börn og fullorðna, skyndilega var búið að endurnýta ruslið úr fjörunni með skynsamlegum og listrænum hætti. Allt vakti þetta athygli og umræður.
Undirstaða kirkjunnar var prammi svo hægt væri að sjósetja hana.
Þessi fljótandi kirkja sem byggð er með þessum hætti hefur vakið mikla athygli.
Verkefnið er unnið í samræmi við sjálfbærnimarkmið eða heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Sérstaklega 14 markmiðið: Líf í vatni.
Ekkert lifir án vatns og sjórinn er ekki aðeins tákn fyrir það sem mannkynið deilir saman heldur er hann lifandi raunveruleiki og kallar á að mannkynið sýni ábyrgð gagnvart lífríki hafsins svo því verði ekki spillt.
Vonardómkirkjan er tákn um endurnýjun hafsins og áminning um að enginn er eyland.
Talið er að 8 milljónir tonna af plasti hafni í sjónum á hverju ári. Einn skugginn af kórónuveirufaraldrinum er sá að einnota áhöldum fjölgaði stórlega og hluti af þeim hafnar í sjónum svo að sjávarmengunin eykst til muna.
Vonardómkirkjan er verkefni sem nær að tengja saman trúarbrögð. Þegar hafa kristin trúfélög á borð við rómversk-kaþólsku kirkjuna tekið sér stöðu með henni, félög Búddista, múslima og gyðinga auk annarra. Verkefnið nýtur líka stuðnings fjölmargra áhrifamanna og og samtaka. Stór hópur sjálfboðaliða hefur líka lagt sitt af mörkum.
Vonardómkirkjan hefur leitt saman fólk á öllum aldri, sérstaklega ungt fólk. Það hefur snúið bökum saman gagnvart ógn umhverfisspillingar og rær að því öllum árum að snúa ógninni til góðs. Á vegum Vonardómkirkjunnar eru haldnar málstofur og frætt m.a. um mengun sjávar.
Samtök sem eiga rætur í trú geta gegnt lykilhlutverki í umhverfismálum því þau höfða hvort tveggja til trúar og skynsemi. Í trúarbrögðum er að finna þræði sem draga fram mikilvægi náttúru og umhverfis og sýna fram á að manneskjan gangi þar fram af gætni og virðingu.
Margir íslenskir söfnuðir hafa gengist fyrir svokölluðum plokkmessum. Þá er farið um og drasl hirt og hugað að umhverfinu með þeim hætti.
Svo minnir kirkjan.is á Grænu kirkjuna og hvernig söfnuðir geta orðið grænir.
NA/hsh
Solveig Egeland við líkan Vonardómkirkjunnar
Myndbandið rekur sögu Vonardómkirkjunnar í stuttu máli
Kærleikssöngur til umhverfisins - hafsins