Fjölmenni við vígsluna
Sunnudaginn 20. júní var útialtarið á Esjubergi vígt við hátíðlega athöfn. Fjölmenni var viðstatt og mikil gleði sveif yfir vötnum.
Nær fjörutíu ár eru liðin frá því að fyrst var hreyft þeirri hugmynd að koma upp minnismerki um kirkjuna á Esjubergi sem sagnir herma að þar hafi staðið fyrir landnám. Fullur skriður komst á málið þegar Sögufélagið Steini tók málið í sínar hendur eftir að tveir Kjalnesingar á kirkjuþingi fluttu tillögu árið 2014 um að reist skyldi útialtari á Esjubergi.
Biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, vígði altarið í fyrradag, og ávarpaði viðstadda. Sr. Arna Grétarsdóttir, sóknarprestur, flutti prédikun. Sr. Hans Guðberg Alfreðsson, prófastur Kjalarnessprófasstsdæmis tók og þátt í athöfninni. Kór Reynivallaprestakalls söng undir stjórn Guðmundar Ómars Óskarssonar, organista. Formaður Sögufélagsins Steina, Hrefna Sigríður Bjartmarsdóttir, flutti ávarp í upphafi samkomunnar og stjórnarmenn lásu ritningarlestra og bænir. Þá las Bjarni Sighvatsson varaformaður Sögufélagsins Steina upp úr Kjalnesingasögu. Einnig var flutt ljóð og það gerði sr. Gunnþór Þ. Ingason sem hann orti í tilefni þessa. Sr. Ragnheiður Jónsdóttir sóknarprestur á Mosfelli tók þátt í bænaflutningi.
Eigandi útialtarisins er Sögufélagið Steini og er Brautarholtskirkju afhent altarið til notkunar.
Í rúman áratug hefur verið haft um hönd helgihald á Esjubergi og með tilkomu altarisins hefur sú aðstaða stórbreyst til batnaðar.
Í lok vígslunnar var gestum boðið upp á hressingu.
hsh
Myndir: hsh
Fánaborg var við Vesturlandsveg í tilefni dagsins
Genginn var hringur réttsælis í kringum altarið í upphafi vígslunnar
Fjöldi fólks var viðstaddur vígsluna og kom víða að
Hrefna Sigríður Bjartmarsdóttir, formaður Sögufélagsins Steina, flutti ávarp í upphafi vígslunnar
Setið var í hinum hlöðnu sætum altarishringsins
Bjarni Sighvatsson, varaformaður Sögufélagsins Steina, las úr Kjalnesingasögu
Biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, vígir altarið
Guðlaug H. Kristjánsdóttir, stjórnarkona í Sögufélaginu Steina les bæn
Heimafólk las bænir í vígslunni, frá vinstri Björn Jónsson, formaður sóknarnefndar Brautarholtssóknar og svo Sigríður Pétursdóttir, stjórnarkona í Sögufélaginu Steina
Altarið í lok vígsludags